13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

Skýrsla um olíumálið

Finnur Jónsson:

Mig langar til að bera fram nokkrar fyrirspurnir til ríkisstjórnar út af þessu máli. Í fyrsta lagi: Hve miklu nam verðlækkun sú á olíunni, sem félögin sjálf báru fram. Hef ég heyrt, að hún hafi numið um 1½ millj. króna. Annaðhvort er skýrsla olíufélaganna eitthvað grunsamleg eða þau hafa ætlað að gefa landinu 1½ millj. króna. Því getur hver trúað, sem þykir það líklegt. En ég vildi beina því til hæstv. ríkisstjórnar, hvort ekki væri ástæða til að athuga þetta mál með gaumgæfni opinberlega.

Í öðru lagi tel ég það grunsamlegt, að félögin vita um verðbreytinguna nokkrum dögum áður en ríkisstjórnin fær vitneskju um hana. Vil ég spyrja hæstv. ríkisstjórn, hvort það sé ekki fullkomið alvörumál, ef innlendir aðilar hafa pantað frá útlöndum olíu með verri skilyrðum en verið hefur, án þess að hún fengi að vita um það.

Og ég spyr, hvort ekki sé full ástæða til þess að rannsaka þetta hvort tveggja. Þrátt fyrir það, þó að skýrslur hæstv. ríkisstjórnar hafi verið mjög hlutlausar, þá er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að hér er í raun og veru að ræða um stríð milli ríkisstj. annars vegar fyrir hönd þeirra, sem þurfa að kaupa olíuna í landinu, og olíufélaganna hins vegar. Og ég held, að það megi fullyrða, eftir þeim umr., sem urðu um þetta mál í sjávarútvegsnefndum, — án þess að ég ætli á neinn hátt að rekja þær —, að ríkisstjórnin hljóti að hafa Alþ. á bak við sig í þessu máli. Og ég vildi sérstaklega óska eftir því, að hæstv. ríkisstjórn svaraði þessum tveimur fyrirspurnum, og svo þeirri þriðju: Hvað hyggst ríkisstjórnin að gera til þess að ná rétti landsmanna gagnvart olíufélögunum?