13.10.1943
Sameinað þing: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

Skýrsla um olíumálið

Gísli Jónsson:

Þetta mál er nú komið inn á allt annan vettvang en hæstv. stj. mun hafa búizt við, þegar hún kvaddi til sín sjútvn. og tók af þeim heit um að segja ekki frá því máli, sem þá var rætt. Sjútvn. Ed. skoðaði þetta þá nauðsyn, og ræddu nm. málið því ekki við sína flokksmenn, en nú, þegar farið er að ræða málið hér opinberlega, þykist ég sem form. n. ekki lengur bundinn við það þagnarheit. Ég vil spyrja stj., hvaða ástæða hafi legið bak við þessa lokuðu fundi þessara n., og hafi stj. þurft á styrk þingsins að halda í þessu máli, hvers vegna þá ekki að ræða það á lokuðum fundi með öllu þinginu, svo að hægt væri að veita henni þann styrk, sem hún nú virðist þurfa á að halda í þessari baráttu?

Það hafa komið fram þungar ásakanir á olíufélögin, og ef nokkuð má marka þau ummæli, ber hæstv. stj. skylda til að láta rannsaka, að hve miklu leyti það er á rökum reist, og m. a. láta rannsaka gegnum landssímann, hvers konar skeyti hafa farið milli hinna íslenzku og erlendu olíufélaga í þessu máli langt aftur í tímann. Ég sé ekki annað en hæstv. atvmrh. hafi aðgang að því, og það er nauðsynlegt að fá upplýst, þótt ekki sé nema örlítill hluti af þeim ásökunum, sem fram hafa komið, hvort þær eru sannar eða ekki. Mér skilst enn fremur, að þegar ákveðið var á síðasta fundi, sem haldinn var með sjútvn., að lækka skyldi olíuna, að hæstv. atvmrh. væri öruggur um, að óhætt væri að stíga þetta spor, því að fengin væri nokkurn veginn vissa fyrir, að Bandaríkin mundu ekki bregðast um að afhenda Íslendingum nógu mikla olíu, ef til baráttu kæmi við olíufélögin. Ég man ekki betur en hæstv. atvmrh. færi út af fundinum beint til sendiherra Bandaríkjanna til að vera viss um, að þessi trygging væri fyrir hendi, áður en baráttan væri tekin upp við þessi olíufélög. Síðan hafa sjútvn. ekki fengið boð um, hvort þetta hafi tekizt, en mér skilst af ræðu hæstv. atvmrh., að þetta hafi ekki tekizt eins og hann hafi vonað og eins og hann raunverulega fullvissaði n. um að loknum fundi.

Í sambandi við þetta vildi ég mega spyrja annars vegar, hvort þessi trygging sé fengin og ég hafi misskilið ræðu hæstv. ráðh., og hins vegar hvort mögulegt sé að kaupa nú þegar af þeim olíubirgðum, sem fyrir eru, alla þá olíu, sem nokkur leið er að fá, svo að hægt sé að halda a. m. k. ákveðinn tíma baráttu við þau öfl, sem nú hefur verið tekin barátta upp við.

Eins og hv. þm. G.-K. minntist á, liggur fyrir að semja á ný um fiskverðið, og er þá ófrávíkjanleg, krafa til hæstv. ríkisstj. að semja ekki um það, fyrr en olíumálið er leyst eða sjávarútveginum tryggt, að sá kostnaður, sem hann kann að verða fyrir af hærra olíuverði, verði honum endurgreiddur.

Ég vil leyfa mér að benda á, að þátt fiskverðið yrði hækkað í samræmi við olíuverðið, jafnvel þótt það væri hækkað það mikið, að útvegsmenn bæru ekki skarðan hlut frá borði, þá mundi það torvelda útflutning á fiski með stærri skipum. Hér liggur m. a. fyrir þáltill., þar sem skorað er á stj. að hjálpa til þess, en það mundi torvelda að ná því takmarki, ef olían hækkaði, jafnvel þótt útgerðarmenn fengju það bætt upp með hærra fiskverði. Hins vegar mundi það mjög hjálpa til, að unnt yrði að flytja fisk út á smærri skipum, ef hægt væri að halda olíuverðinu niðri, eins og vonir stóðu um, og væri þá hægt að taka upp þann útflutning, sem Íslendingar töpuðu milljónum á, að féll niður undanfarin ár.

Það er bert, að hér er um að ræða sterk átök um hagsmuni landsmanna annars vegar og olíuhringanna hins vegar, sem verður að lykta með því, að landsmenn vinni sigur, hvað sem verður að leggja í sölurnar til þess. Ég vil því mjög mælast til þess, að allir hv. þm. standi vel saman utan um hæstv. stj., svo að unnt verði að ná sem beztum og heillavænlegustum málalokum, því að hér er um mikið hagsmunamál Íslendinga að ræða.