24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (1929)

65. mál, skipaafgreiðsla

Flm. (Lúðvík Jósefsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. landsk. að flytja þetta frv. á þskj..78, um einkaleyfi fyrir bæjarstjórnir og hreppsnefndir til þess að taka í sínar hendur afgreiðslu skipa á viðkomandi stöðum.

Hv. þm. er það kunnugt, að þessum málum er nú þannig háttað, að einstakir menn eða verzlunarfélög í kaupstöðum og kauptúnum úti um land hafa nú afgreiðslu skipa þar með höndum. Þeir aðilar, sem þar annast þessi störf, fá greiðslu fyrir þau á þann hátt, að það er lagt ákveðið gjald á vörumagn það, sem er skipað upp eða út á viðkomandi stað. Á þennan hátt hafa þessir aðilar fengið aðstöðu til þess að leggja nokkurs konar toll á allar aðfluttar og útfluttar vörur og þar með skatt á íbúana, og mér er kunnugt um það, að á ýmsum stöðum hafa þessi gjöld verið allhá og því mikil tekjulind fyrir þá, sem hafa afgreiðsluna á hendi.

Frv. þetta, sem hér um ræðir, fer fram á einkaleyfisheimild fyrir bæjar- og sveitarstjórnir til þess að annast afgreiðslu skipa. Það er álit okkar flm. að á þann hátt verði þessum málum haganlegast skipað fyrir íbúana, þannig að þá muni ekki tekin hærri gjöld fyrir afgreiðsluna en brýn þörf er á. Þetta fellur og vel saman við störf hafnarnefnda, en þær hafa víða eignazt bryggjur og hafnarhús, sem þær þurfa að láta annast um, og gæti það fallið vel saman við þetta starf. Auk þess er það sanngjarnt, ef tekjur verða af þessu, að þá renni þær til þeirra, sem hafa borið hitann og þungann við að koma upp og halda við hafnarmannvirkjum á viðkomandi stöðum. Mér er kunnugt um það, að á ýmsum stöðum hafa hafnarnefndirnar komizt yfir bryggjur og hús, en vegna þess að samningar hafa ekki tekizt við þau fyrirtæki, sem hafa skipaafgreiðsluna með höndum, þá hafa þessi mannvirki staðið ónotuð, en mannvirki einstaklinganna aftur á móti notuð. En reynslan er sú, að ef eitthvað ber út af, þá er þess þegar krafizt af bæjarstjórnum og hreppsnefndum, að þær hlaupi í skarðið og komi upp hafnarmannvirkjum og haldi þeim við. Til þess að tryggja það, að bæjar- og sveitarstjórnir noti sér ekki þessa heimild í gróðaskyni, þá höfum við sett það ákvæði í frv., að ráðherra skuli staðfesta gjaldskrá á uppskipunar- og útskipunargjöldum á hverjum stað, og er það vitanlega stórum aukin trygging fyrir því, að gjöldin hækki ekki frá því, sem nú er.

Ég held, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi málsins, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til. 2. umr. og allshn.