22.11.1943
Neðri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

65. mál, skipaafgreiðsla

Frsm. meiri hl. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur ekki getað orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. leggur til, að það verði fellt, en minni hl. vill samþ. það með breyt., sem hann leggur til.

Allshn. sendi frv. til umsagnar Eimskipafél. Ísl. og Skipaútgerðar ríkisins, og eru umsagnir þessara aðila prentaðar sem fskj. með nál. Get ég vísað til þess, sem þar segir. Báðir aðilar leggja á móti frv.

Meiri hl. telur ekki líklegt, að uppskipunargjald mundi lækka, þó að bæjar- og sveitarstjórnir tækju þessi mál í sínar hendur. Eins og kunnugt er, er aðalkostnaðurinn við upp- og framskipun laun verkamanna, og gjöld til þeirra eru ákveðin eftir föstum taxta, svo að enda þótt skipaafgreiðsla væri rekin af bæjarfélögum, mundi það ekki valda breyt., þar sem ekki er séð, að aðrir og minni kostnaðarliðir yrðu lækkaðir verulega. Ég vil líka benda á, að í l. um verðlag hefur viðskiptaráð og verðlagsstjóri vald til að hafa hemil á gjöldunum, ef telja mætti þau of há. Hreppsn. og bæjarstjórn geta þá beðið um úrskurð verðlagsstjóra.

Eins og kemur fram í álitum Eimskipafél. og Skipaútgerðarinnar, leggja þessir aðilar, sem hafa einir með flutninga að gera, áherzlu á að geta sjálfir ráðið, hverjir hafa á hendi afgreiðsluna. Þeir menn eru trúnaðarmenn skipafél., og margt fer um þeirra hendur og oft og tíðum stórar fjárupphæðir.

Það virðist engum vera hagur gerður með því, að löggjafinn heimili sveitarstjórnum að taka eignarnámi pakkhús og önnur áhöld, sem skipaafgreiðslumennirnir eiga líka til annarra þarfa en skipaafgreiðslu. Afgreiðslan er aukastarf, en hús og áhöld nauðsynleg til atvinnurekstrar, enda, eins og ég hef tekið fram, full heimild í l. til íhlutunar um upphæð gjaldanna.

Um leið og ég vísa til fskj. í nál., lýsi ég yfir því, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði fellt.