25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

172. mál, verðlækkunarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Í grg. þessa frv., sem er næsta stutt og laggóð, segir svo: „Brýna nauðsyn ber til að framlengja ákvæði laga nr. 42, 1943. um verðlækkunarskatt, þau er í frv. þessu greinir, til þess að ríkissjóður geti innt af hendi framlög vegna dýrtíðarráðstafana 1944“.

Nú vil ég aðeins vekja athygli á því, sem hv. þdm. er öllum kunnugt, að Alþ. hefur engar ályktanir gert, að því er ég veit til, um dýrtíðarráðstafanir á árinu 1944, nema ef menn vilja telja til slíkra tíðinda, að þessi hv. d. hefur afgreitt frá sér breyt. á dýrtíðarl., þar sem tekið er fram, að sú almenna heimild til niðurgreiðslna á verði á vörum, sem þar er að finna, skuli vera bundin því skilyrði, að Alþ. heimili að veita fé til þess. En slíka samþ. hefur, eins og ég sagði áðan, Alþ. ekki gert. Mér virðist því, að það væri að byrja á öfugum enda að byrja á því að samþ. þetta frv., án þess að á undan sé gengið að taka ákvarðanir um það, hvaða dýrtíðarráðstafanir skuli gera. Það hefur að vísu komið hér fram í umr., að um tvennar ráðstafanir væri að ræða, annað að halda áfram uppbótargreiðslum á innlendar afurðir, sem ríkisstj. hefur innt af hendi til þessa, og í öðru lagi þurfi einnig að greiða uppbætur á útflutningsverð landbúnaðarafurða. Ég vil taka undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að í umræðum um dýrtíðarmálin á síðasta þingi hafi öllum komið saman um það, að það væri fullkomlega útilokað, að hægt væri að kaupa dýrtíðina niður með fjárframlögum úr ríkissjóði til varanlegrar frambúðar, þó að bæði ég og fjölmargir aðrir væru á þeirri skoðun, að slíkt væri gerandi um ákveðinn stuttan tíma til þess að ná einhverjum sérstökum tilætluðum árangri. Og dýrtíðarl. í fyrra og verðlækkunarskatturinn, sem var einn liður í þeim, voru einmitt sett í þessu ákveðna skyni, sem sé til þess að greiða þær milligjafir, sem ríkisstj. var í þeim l. heimilað að greiða, þangað til niðurstöður sex manna n. væru kunnar orðnar. Enda var í öllum ákvæðum um verðlækkunarskattinn miðað við það, hvað það mundi kosta að halda verðinu innan vissra takmarka þetta tímabil, og hefur látið nokkuð nærri, að verðlækkunarskatturinn hafi hrokkið til þess og þess annars, sem honum var ætlað, við að greiða dýrtíðina niður.

Ég vil taka undir það, að þó að svo sé látið líta út sem þessi skattur komi aðallega á nokkuð háar miðlungstekjur, þá hlýtur hann að valda því, að aðrir skattar, útsvar fyrst og fremst, á lægri tekjur hljóta að hækka mjög verulega, ef þessi skattur verður samþ. Það er nú bannað með l. að leggja útsvar á þann hluta teknanna, sem er yfir 200 þús. kr. En á tekjur á bilinu milli 10 þús. kr. til 200 þús. kr. á þessi skattur að koma, og það er áætlað, að hann muni nema 8 millj. kr. Í mörgum tilfellum yrði því, ef þetta frv. væri samþ., eins hár skattur tiltölulega á þessu tekjubili og á tekjunum yfir 200 þús. kr., og væri þá í eðli sínu óeðlilegt í þeim tilfellum að leggja útsvar á menn á því tekjubili, meðan bannað er að leggja útsvar á tekjur yfir 200 þús. kr. Gæti þetta gengið svo langt, að bæjarfélögin hefðu ekki annað að leita um álagningu útsvara en leggja á þær tekjur, sem eru undir því marki, þar sem þessi skattur samkv. frv. hefst.

Ég sagði áðan, að Alþ. hefði engar ákvarðanir gert um dýrtíðarráðstafanir. Og ég vil bæta því við, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn þá farið fram á að fá fjárveitingu til dýrtíðarráðstafana til þess að lækka verðlag innan lands. Og má vera, að það valdi, að ekki er enn afgreitt það frv., sem ég nefndi áðan, um breyt. á dýrtíðarl., sem farið er fyrir nokkru frá þessari hv. d.

Alþfl. hefur ekki tekið afstöðu til þessa frv., en ég get sagt sem mína skoðun, að ég tel ekki rétt, að frv. verði samþ. Þess vegna mun ég ekki vera á móti því, að frv. fari til n. og fái þar athugun á eðlilegan hátt.

Ég skal ekki gera dýrtíðarmálið eða þær dýrtíðarráðstafanir, sem hafa verið framkvæmdar til þessa, að umræðuefni að þessu sinni. En ég get þó ekki komizt hjá því að drepa á eitt meginatriði í því efni. Að minni hyggju er það fullkomlega eðlilegt og réttmætt að greiða fé frá því opinbera til þess að lækka dýrtíðina, annaðhvort um ákveðið tímabil eða til þess að skapa framtíðaröryggi fyrir atvinnu og atvinnurekstur í landinu. Þegar hæstv. ríkisstj. á síðasta vori lagði fram frv. sitt um dýrtíðarráðstafanir, þá lét hún það fylgja með, að hún teldi, að það þyrfti þá þegar að ná því marki að lækka vísitöluna niður í það, sem vísitalan fyrir útlendar vörur hér á landi væri, sem var eitthvað á milli 210 og 220 stig, segjandi sem svo: Það eru sérstakar ástæður utan að komandi, sem hafa valdið þessari verðhækkun, en þeirri verðhækkun, sem umfram er, valda innlendar ástæður, sem við ættum að geta haft meira vald á. Ég álít og hef alltaf haldið því fram við umr. um þessi dýrtíðarmál, að það, sem miða ætti við, væri að koma vísitölunni það niður, að nokkurn veginn samsvaraði vísitölunni fyrir útlendar vörur hér. Með því ynnist það, að þegar verðlag lækkaði og flutningsgjöld, þá nýtur að fullu í vísitölulækkun hjá okkur þeirrar lækkunar. En það getur ekki orðið, ef vísitalan er af öðrum ástæðum langtum hærri en svarar til vísitölu erlendu varanna.

Niðurstaðan af löggjöfinni um dýrtíðarmálin í fyrra, eins og frá þeim var gengið, var augsýnileg. Ég hygg, að ríkisstj. hafi gert ráð fyrir, að eftir þeim mundi verða hægt að lækka vísitöluna niður í 236 stig. Ég vil ekki fullyrða þetta, en mig minnir það þó. Þetta lánaðist ekki. Og til þess er fyrst og fremst sú ástæða, að mjólk og kjöt var ekki lækkað jafnmikið og ráð var fyrir gert í dýrtíðarl., vegna þess að Búnaðarfélag Íslands vildi ekki fallast á svo mikla lækkun, þó að full endurgreiðsla úr ríkissjóði kæmi til. Hvað sem um þetta er, þá er víst, að niðurstaðan varð sú, að vísitalan komst ekki nema niður í 247 stig, og var það, að ég ætla, aðeins einn mánuð. Þegar svo ríkisstj. í upphafi framhalds þessa þings nú í haust ritaði flokkunum og óskaði samþykkis þeirra til þess að hækka álagningu á áfengi og tóbak, þá gerði hún ráð fyrir því, að með þeim tekjum, sem fengjust af tóbakshækkuninni og áfengishækkuninni, mundi nokkurn veginn tryggt, að hægt mundi vera að halda vísitölunni nálægt 250 stigum. En svo á meðan þessi mál eru í deiglunni hér á Alþ., þá hækkar vísitalan, ef ég man rétt, upp í 262 stig, þó að kjöt- og mjólkurverði væri haldið niðri með þessum fjárgreiðslum. Ég ætla, að ég muni það einnig rétt, að ríkisstj. hafi þá gert ráð fyrir, að hækkun á verði kjöts og mjólkur, ef ekki væri verðbætt hér innan lands, mundi verða til 15 til 17 stiga hækkunar á vísitölunni, og ég hygg, að það hafi verið rétt lít reiknað. Nú var að vísu mjólkin hækkuð um 5 aura, frá því sem áður var, og kjöt, að ég ætla, um 10 aura pr. kg., þannig að sú vísitölulækkun, sem keypt hefur verið með milligreiðslu, er því þessu minni en ella hefði verið. Vísitalan er nú, eins og ég sagði áðan, um 260 stig. Samkvæmt þessum útreikningi vísitölunnar, sem hæstv. ríkisstj. lét gera um áætlaða hækkun vísitölunnar, ef milligreiðslurnar væru ekki framkvæmdar, þá mætti nú gera ráð fyrir því, að vísitalan mundi hækka, ef þessar uppbótagreiðslur féllu niður, um nánast eitthvað innan við 15 stig, sennilega 13 til 14 stig, eða komast eitthvað yfir 270 stig. Það, sem mér því finnst þurfa að athuga í þessu sambandi, er þetta: Er það skynsamleg meðferð á peningum að verja 10 til 12 millj. kr. til þess að koma í veg fyrir 13, 14 eða 15 stiga hækkun á vísitölunni? Þetta munar hér um bil 6%, sem vísitalan yrði hærri, sé þessi útreikningar réttur, ef hætt væri þessum greiðslum. Fljótt á litið mundi þetta — frá sjónarmiði allra launtaka í landinu — virðast vera hið mesta óráð. Kaupgjald þeirra verður að krónutölu þessum 6% lægra, ef verðlaginu er haldið niðri, þó að þeir hafi sömu kaupgetu. En skatturinn, sem þeir þurfa að greiða ríkissjóði til þess að halda vísitölunni niðri og nema mun um 10 til 12 millj. kr., sem yrðu greiddar sem uppbætur á innanlandssölu, kemur fram sem aukin útgjöld og aukin byrði á þessa menn fyrst og fremst. Hins vegar skal ég játa það, að ef þessar ráðstafanir verða til þess, eins og ég sagði áðan, að tryggja áframhaldandi atvinnu og atvinnurekstur í landinu, þá er fullkomlega á það lítandi. En er það nokkur sérstök trygging í þessu efni að halda vísitölunni niðri í 260 stigum? Ég verð að segja, að svo er ekki, vegna þess að við erum í báðum tilfellum með vísitöluna svo langt fyrir ofan það, sem erlenda vísitalan er, að það munar svo litlu, hvort vísitalan er þessu lægri eða hærri.

Þetta, sem hér hefur verið sagt, lýtur að uppbótagreiðslum á vörur, sem seldar eru innan lands, sem ríkisstj. taldi sig hafa fengið rétt til með hækkun álagningar á áfengi og tóbak. Ætla mætti því, að ekki þyrfti þá sérstöku tekjuöflun til þeirra greiðslna, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að mæta þeim útgjöldum, þó að meiri hluti þingsins fallist á, að þessum uppbótagreiðslum sé haldið áfram. Þessi skattur, sem hér er um að ræða, er því bersýnilega eingöngu fyrirhugaður til þess að mæta uppbótagreiðslum á útfluttar landbúnaðarafurðir, enda hefur örlað á því talsvert víða hér i þessum umr. Ég tel, að það væri hið mesta óvit, ef nú ætti að ákveða uppbótagreiðslur á útflutningsvörur landbúnaðarins.

Hv. þm. Barð. hélt því fram, að bændur ættu að l. kröfu á því að fá það verð fyrir afurðir sínar, sem sex manna n. hefur ákveðið, hvort sem hægt er að selja þær hér innan lands eða ekki og hvort sem yfirleitt er hægt að selja þær eða ekki, svo framarlega sem þeir noti þær ekki sjálfir. Ég vil bara taka fram, að ég álít, að þetta sé ekki annað en fullyrðing, sem hefur ekki stoð í nokkurri löggjöf, enda væri það ranglæti gagnvart öllum öðrum stéttum þjóðfélagsins. Með þessari löggjöf er það ákveðið, að næðist samkomulag í n., eins og varð, þá skuli það verð, sem afurðir bænda eru seldar fyrir innan lands, samsvara því, að bændur fái heim til sín það verð, sem tilgreint er í áliti n., kr. 6,82 pr. kg. En sex manna n. hafði enga heimild til þess að gera nokkra ákvörðun um það að greiða uppbætur þannig, að tryggt væri, að sama verð kæmi til bænda fyrir landbúnaðarvörur, hvort sem þær væru seldar innan lands eða til útlanda eða væru kannske óseljanlegar, enda er ekki vafi á því, að þetta er viðurkennt, því að ég veit það með sanni, að það eru samtök meðal þm. um að láta Alþ. fallast á að greiða þessar uppbætur, en slík samtök væru vitanlega óþörf, ef lög fyrirskipuðu að inna af hendi slíkar greiðslur.

Ég skal ekki neitt ræða hér niðurstöður sex manna n. að öðru leyti en því að segja, að með því hlutfalli, sem samkv. niðurstöðum hennar er ákveðið milli kaupgjalds og afurðaverðs, þá virðist mér alveg útilokað, að unnt sé að koma dýrtíðinni það niður, sem ég hef alltaf talið og tel enn, að sé það mark, sem að beri að stefna, að lækka vísitöluna niður í það að vera nálægt því sem verðlag útlendu varanna er. Með því hlutfalli, sem fundið er nú fyrir kaupgjald og afurðaverð samkv. niðurstöðum sex manna n., er það ómögulegt, vegna þess að það mundi kosta eitt af tvennu, stórfelldan launaniðurskurð hjá öllum launþegum í landinu, — en það væri bæði ranglátt og óframkvæmanlegt, a. m. k. eins og nú stendur, — eða þá svo gífurlegar greiðslur úr ríkissjóði, að ómögulegt væri að afla fjár til þess.

Ég mun ekki setja mig gegn því, að frv. fari til 2. umr. Alþfl. hefur ekki tekið afstöðu til frv. enn. En ég tel ekki gerlegt að ljá þessu máli fylgi eða styðja að því, að það verði afgreitt hér.