25.11.1943
Efri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

172. mál, verðlækkunarskattur

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er nú komið að lokum venjulegs fundartíma, og skal ég því mjög takmarka mál mitt. Og það vill nú svo til, að þó að hv. þdm. hafi talað á móti þessu frv., þá sé ég ekki ástæðu til þess að svara því miklu, því að ég hef nú verið sumum þeim atriðum, sem þeir hafa tekið fram, sammála. Önnur atriði í ræðum þeirra fannst mér ekki koma þessu máli svo mikið við. Umr. hafa nú orðið töluvert almennar, og væri þá tækifæri til að svara öðru frekar á síðari stigum málsins, ef frv. lifir svo lengi. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á það, sem fram hefur komið hjá þessum hv. ræðumönnum, að það sé brigðmælgi, ef þetta frv. verður samþ. Ég man nú ekki eftir, að hæstv. Alþ. viðhefði svo ákveðið loforð um, að skatturinn yrði ekki framlengdur, nema á þann hátt, sem oft hefur verið, að hann var ákveðinn til eins árs, og þurfti því löggjöf á ný, til þess að hann gilti lengur. En þetta hefur nú komið fyrir áður. Þó býst ég við, að landsmenn hafi yfirleitt litið svo á, að þetta væru ráðstafanir í dýrtíðarl., sem ættu ekki að gilda nema þetta ár og það verði því einhverjir skattþegnar, sem líti á það sem brigðmælgi, ef þetta verður samþ. En í hverju er brigðmælgin þá fólgin? Það hefur líka komið fram hjá þessum hv. þm., að þetta hafi verið bráðabirgðaráðstafanir, meðan verið væri að athuga málið í heild, meðan verið væri að reyna að koma sér niður á aðrar og frekari ráðstafanir í dýrtíðarmálunum. Ég held því, ef um brigðmælgi er að ræða, að það sé hjá okkur öllum, sem á Alþ. sitjum, í því efni að hafa ekki fyrr hafizt handa um að rannsaka þessi mál á ný og reyna að koma okkur saman eða a. m. k. fá einhvern meiri hluta fyrir ákveðnum aðgerðum, og hins vegar að nokkru leyti hjá þjóðinni og trúnaðarmönnum hennar, sem hafa torveldað það, að þetta gæti orðið.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að það var mjög óforsvaranlegt, hvernig þetta dýrtíðarmál á síðasta þingi var sent hingað til hv. Ed. daginn áður en ljúka átti störfum í deildinni. En ekki get ég nú viðurkennt það, að með því höfum við beinlínis verið þvingaðir til þess að samþ. frv., því að náttúrlega var okkur frjálst að fella það.

Það er stórt mál, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist hér á, þ. e. þá skiptingu, sem ætti að vera á opinberum gjöldum almennings til ríkis og bæja. Ég get fúslega viðurkennt það, að í þeim efnum ríkir hið mesta öngþveiti, og væri full þörf á að rannsaka það. Mér fyrir mitt leyti finnst, að það ætti ekki að vera nema einn einasti skattur, sem síðan væri skipt á milli ríkis og bæjar- og sveitarfélaga. En ég hygg, að það sé engin algild regla til enn sem komið er til þess að fara eftir í þessu efni og að þessi skattur sé ekki meira frávik en oft hafa verið gerð áður frá reglu, sem verið hefur, því að hún hefur engin verið til. Og beinir skattar til ríkisins hafa í raun og veru alltaf viðgengizt, a. m. k. síðan hér kom konungsstjórn, þó að þeir hafi verið lægri til forna en nú.

Ég hef ekki tíma til að ræða þetta frekar, og eru þó ýmis atriði hér, sem ég hefði viljað aðeins drepa á. En ég verð að sleppa því, af því að svo er áliðið fundartíma, ef menn vildu sættast á að láta atkvgr. fara nú fram og tefja ekki þessa umr. Ég hygg, að dagurinn á morgun verði tekinn til 3. umr. fjárl., og yrði þá þetta að bíða fram yfir helgi, ef ekki yrði afgreiðsla nú. Ég sem flm. ætla að láta umr. niður falla.

Út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 6. þm. Reykv., — og ég held einnig hjá 1. þm. Reykv., — að þeir byggjust við að greiða atkv. móti frv. við þessa 1. umr., vil ég segja, að mér finnst það alveg rétt af þeim, ef þeir eru alráðnir á móti málinu. Séu þeir það, er eðlilegt, að þeir vilji ekki, að það gangi til n., enda væri það þýðingarlaust, ef þd. væri ráðin í að fella það. Hitt er oft, að menn eru ekki þannig ráðnir á fyrsta stigi málsins, og þá er málum vísað í n., ef verða mætti um þau samkomulag við frekari athugun eða menn sjá þau síðar í nýju ljósi, svo að þeir geti betur um dæmt.

Ef frv. verður vísað til fjhn., vil ég minna Sjálfstfl. og hv. forseta á, að vegna veikinda formanns er n. ekki starfhæf sem stendur, og þyrfti úr því að bæta.