02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1978)

172. mál, verðlækkunarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta var rætt hér allýtarlega við 1. umr. Get ég þess vegna að mjög verulegu leyti sparað mér mikil ræðuhöld, a. m. k. ef ekki gefst sérstakt tilefni til. — En fjhn. hefur klofnað um þetta mál, þannig að fjórir nm. leggja til, að frv. nái ekki fram að ganga. Hef ég litlu við það að bæta, sem stendur í nál. á þskj. 528 um það, og vil leyfa mér að láta nægja að vísa í það, ef ekki gefst frekara tilefni en í þeim umr., sem fóru fram við 1. umr. um málið. Þeir fjórir nm., sem eru á móti því, að frm. nái fram að ganga, eru það ekki allir af sömu ástæðum. Tveir af þessum hv. nm. telja tekjuöflun eitthvað svipaða þessari sem hér er um að ræða ekki ófæra leið, en þó sjálfsagt með nokkrum breyt. En aftur á móti eru tveir aðrir hv. nm. beinlínis á móti þeirri tekjuöflunaraðferð, sem hér er um að ræða. Það varð þess vegna ekki úr neinni samvinnu milli hv. minni hl. n. og þeirra manna úr meiri hl., sem út af fyrir sig lögðust ekki á móti tekjuöflunaraðferð svipaðri þessari, af þeirri eðlilegu ástæðu, að hv. flm. hafa lýst yfir því, að þeir hafi ekki beinlínis borið þetta frv. fram af því, að þeim hafi þótt þetta álitleg tekjuöflunaraðferð, heldur af því, að þeir telji tilganginn með tekjuöfluninni svo mikla nauðsyn, og vegna þess, að það sé ekki tiltæk önnur leið sem þeim þá líki betur, til þess að afla tekna til þessara hluta. Þessir tveir nm. töldu hins vegar tilganginn ekki þann, sem þeir óskuðu, að hafður væri með þessari tekjuöflun. — Ég held því, að eftir að n. hefur afgreitt þetta mál, þá verði naumast hægt við það annað að gera en láta það ganga undir atkv. að svo komnu máli. Og ég vil fyrir hönd meiri hl. fjhn. leggja til, að frv. verði fellt.