02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (1983)

172. mál, verðlækkunarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hefði getað hugsað mér að samþ. þennan skatt, ef fénu hefði verið varið til aðkallandi verklegra framkvæmda, og þar á ég m. a. við, að því verði varið til þess að kaupa útlent efni í skip. Ég get þess vegna fallizt á þessa skrifl. brtt., sem fram er komin frá hv. 3. landsk. þm. (HG). Ef sú till. yrði samþ., gæti ég fylgt frv. til 3. umr. og séð til, hvort unnt yrði að gera breyt. á því, svo að samkomulag gæti orðið um samþykkt þess.

En það stendur í 2. gr. frv., að tekjum þeim, sem aflað er samkv. 1. gr., skuli varið til að standast kostnað við dýrtíðarráðstafanir. Nú kemur það hvergi fram í frv. eða grg. þess, hvers konar dýrtíðarráðstafanir hér er um að ræða og hvað vakir fyrir hv. flm. (ÞÞ: Það var tekið fram í framsögu málsins.) Ég skildi það ekki til fulls í framsögu málsins. En það kemur fram í nál. minni hl. fjhn., að hv. flm. hugsi sér að greiða með þessu fé uppbætur á landbúnaðarafurðir. Ég veit ekki, hvort þar er átt við útfluttar landbúnaðarafurðir eða, þær, sem seldar eru á innlendum markaði. En það er æskilegt, að það komi skýrt fram, hvort heldur er. Ef tilgangur frv. væri sá að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum, sem seldar eru innan lands, þá fæ ég ekki skilið, hvaða nauðsyn er á því að bera þetta frv. fram, því að það er þegar búið að samþ. á þessu þingi frv. frá hæstv. ríkisstj. um hækkun á álagningu á áfengi og tóbak einmitt í þeim tilgangi að greiða niður landbúnaðarafurðir, sem seldar eru á innlendum markaði. En um þetta voru nú mjög skiptar skoðanir, hvort yfirleitt bæri að halda áfram þessum niðurgreiðslum. En það hefur ekki verið borið undir Alþ. enn, hvort það vilji veita ríkisstj. heimild til þess að halda áfram þessum niðurgreiðslum. En yrði slík heimild veitt, þá væri sjálfsagt fé til þess nóg með þeirri tekjuöflun, sem ríkisstj. fékk samþ. í þeim l., sem ég nefndi, og út frá því sjónarmiði þá var alveg óþarft að bera þetta frv. fram, sem hér liggur fyrir. Það liggur i þessu ekki annað fyrir en fá úr því skorið, hvort Alþ. vill veita ríkisstj. þessa heimild til niðurgreiðslna eða ekki. Það er ekki enn búið að ráðstafa þessu fé í fjárl., og að mér skilst hefur hv. fjvn. ekki gert till. um ráðstöfun þessa fjár út frá þeim forsendum, að það væri ekki enn úr því skorið, hvort það væri vilji Alþ., að haldið skyldi áfram þessum niðurgreiðslum eða ekki. En ef um það væri að ræða að nota það fé, sem hér um ræðir, til þess að borga uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, þá get ég ekki fallizt á það. Það skiptir náttúrlega ekki máli, hvort þetta fé eða annað er notað til þess. En ég get ekki fallizt á þetta frv. í þeim tilgangi að greiða þessar uppbætur. Ekki svo að skilja, að ég telji mig með öllu andvígan því, að fé verði veitt úr ríkissjóði til þess að tryggja, að bændur hafi sambærileg kjör á við aðrar stéttir, heldur er ég á móti því, að bændur, sem þurfa þess alls ekki með að fá neinar sérstakar greiðslur sem uppbætur til þess að hafa sambærileg kjör á við aðrar stéttir, af því að þeir hafa hærri tekjur fyrir en aðrir vinnandi menn í landinu, — ég er á móti því, að þeir fái greiddar uppbætur á afurðir sínar. Ef um það væri að ræða að greiða uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, þá tel ég alveg óhjákvæmilegt að setja um það sérstök l. Og ég get með engu móti fallizt á neina fjárveitingu til þeirra hluta, nema því aðeins, að fyrir liggi um það l., þar sem kveðið er á um þær reglur, sem farið yrði eftir við greiðslu uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir og ég gæti fellt mig við. Hins vegar gæti ég líka hugsað mér, að þessu fé yrði varið til dýrtíðarráðstafana, ef um raunverulegar dýrtíðarráðstafanir væri þá að ræða, dýrtíðarráðstafanir, sem ég væri samþykkur. T. d. gæti ég hugsað mér skatt eins og þennan, enda þótt hann sé alltilfinnanlegur fyrir bæjarfélögin, til þess að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem yrði af því, að tollar á nauðsynjavörum væru lækkaðir í því skyni að færa niður dýrtíðina. En eins og þetta frv. er fram borið — til einhverra alveg óákveðinna dýrtíðarráðstafana, sem Alþ. hefur alls ekki fjallað um, — tel ég ekki ná nokkurri átt að samþ. það. Og verði hin skrifl. brtt. hv. 3. landsk. þm. ekki samþ., þá mun ég greiða atkv. á móti frv.