02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1984)

172. mál, verðlækkunarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg nú, að hin skjóta og sundurlynda afgreiðsla þessa máls í hv. fjhn. stafi nokkuð af því, að hv. alþm. hafi ekki gert sér alveg ljóst enn þá, í hvaða sjálfheldu dýrtíðarmálin eru komin hér á Alþ. Í fyrra, þegar hér kom ný ríkisstj., þá setti hún fram frv. til dýrtíðarl., sem samþ. var hér á Alþ. Og þó að þau l. væru ekki eftir eigin óskum hæstv. ríkisstj., eins og hún setti frv. um þau fram í upphafi, þá tók hún a. m. k. á móti þeim dýrtíðarl. með þeirri skoðun, að hún væri fær um með þeim dýrtíðarl. að laga dýrtíðarmálin, til þess a. m. k. að þau kæmust í minna öngþveiti. Nú hefur aftur á móti sýnt sig, að þessi l. hafa sett dýrtíðarmálin í þá sjálfheldu, að nú virðist ógerningur að leysa þann hnút nema með fjárframlögum úr ríkissjóði.

Ég vil fyrst benda á, að það er enn þá fullkomið ósamkomulag um það á Alþ., hvernig eigi að skilja mikilvæg ákvæði þessara l. Nokkur hluti þingsins, og þar á meðal er ég, lítur svo á, að samkv. dýrtíðarl. beri að greiða bændum uppbætur á útfluttar afurðir. Aðrir hv. þm. líta svo á, að þetta beri ekki að gera, það sé ekki uppbótaskylt neitt af þeim afurðum, sem fluttar eru út. Og áður en í raun og veru er hægt að afla nokkurra tekna til þessara mála, er nauðsynlegt að fá úr þessu skorið, hvort samkv. dýrtíðarl. frá síðasta þingi í raun og veru er skylda að bæta upp þessar útfluttu landbúnaðarafurðir eða hvort ekki er skylda að gera það. Ég lít svo á, að jafnvel þó að dómur félli um það, að það væri ekki eftir þeim l. skylda að greiða þessar uppbætur, þá geti ekki undir neinum kringumstæðum komið annað til mála en gera það, vegna þess að verðið á landbúnaðarvörum innan lands á s. l. hausti (1943) var sett bókstaflega með þeim skilningi á l., að það væri skylda að bæta upp verðið á útfluttu landbúnaðarafurðunum. Ef á þeim tíma, þegar verðið var ákveðið á þessum vörum innan lands, hefði legið fyrir dómur um það, að ekki skyldi verðbæta útfluttu afurðirnar, þá hefði verðið á landbúnaðaráfurðunum innan lands verið sett miklu hærra en gert var, bæði á kjöti og mjólk, og þar af leiðandi hefði milligjöf ríkissjóðs orðið miklu hærri, ef halda hefði átt vísitölunni niðri í því sama og nú er gert. Ber þá allt að sama brunni, að það er í raun og veru alveg sama, hvor leiðin farin er.

Þá komum við að hinu, hvort ekki er unnt að færa niður dýrtíðina með niðurskurði á vinnulaunum annars vegar og hins vegar verði landbúnaðarafurða, þannig að hlutfallið milli þessa tvenns sé það sama, eftir að niðurfærslan hefur átt sér stað. En þó að samkomulag fengist um þetta atriði, þá er vitanlegt, að ríkissjóður kemst ekki hjá þeim erfiðleikum að verða samt sem áður að greiða allar þær milljónir, sem liggja á milli þess, sem greitt er til bænda samkv. ákvörðun sex manna n. og útsöluverðs til kaupandans, til þess að halda dýrtíðinni niðri. Og ég hygg, að þeir hv. þm. séu margir, sem hafa ekki gert sér þetta ljóst, að ríkissjóður verður að greiða þetta svo lengi sem dýrtíðarl. frá í fyrra standa og allt til stríðsloka, eftir því sem ákveðið er í þeim l.

Það er því bersýnilega rangt hjá hv. 1. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, um verðlækkunarskatt, sem hann hélt fram hér við 1. umr., að ástandið í dýrtíðarmálunum hefði ekkert breytzt frá því, sem var á síðasta þingi, þegar l. um dýrtíðarráðstafanir voru samþ. Ástandið hefur breytzt svo mikið, að þá var gert ráð fyrir, að þessi skattur stæði um eitt ár, þangað til búið væri að koma löggjöf um dýrtíðarmálin í fast form. Nú er með úrskurði sex manna n. búið að koma þessu máli í það horf, að þetta er ekki eins árs skattur, heldur skattur, sem verður að reikna með, annaðhvort þangað til stríðinu er lokið eða einhverjir aðrir samningar gerðir eða önnur l. eru samþ. um þetta mál.

Mér er hins vegar ómögulegt að skilja, hvers vegna hv. flm. þessa frv. hafa farið af stað með þetta mál. Ríkisstj. bað um dýrtíðarl., og þau fékk hún. Hún fékk einnig þá heimild til þess að nota svo eða svo mikið fé til dýrtíðarráðstafana. Hún fékk enn fremur heimild til þess að taka upp undir 9 millj. kr. í hækkuðu verði á tóbaki og áfengi til þessara sömu ráðstafana. Og hún virðist ekki hafa óskað eftir neinu meira fé til. þess að halda málinu gangandi. Ef það er það raunverulega í málinu, að hún þurfi meira fé til þessa, þá er það fyrst og fremst ríkisstj. sjálfrar að óska eftir því fé og einnig að tiltaka, í hvaða formi hún vill fá þá skatta á lagða, sem til þess þarf, að þetta fé náist inn, og í þriðja lagi að gera grein fyrir því, hvers vegna það fé, sem henni var heimilað, hefur ekki nægt og hvaða árangri hún hugsi sér að ná með þeim nýju tekjum, sem hún er að biðja um. Allt þetta virðist mér verða að liggja fyrir hv. þd., áður en samþ., eru l. um nokkrar nýjar tekjur vegna dýrtíðarráðstafana.

Hvað snertir þá brtt., sem fram hefur komið skrifl. frá hv. 3. landsk. þm. (HG), þá vil ég strax benda á, hvaða skrípaleik hér yfirleitt er verið að leika. Það er talað um að verja þessum skatti til þess að auka skipastólinn og greiða á annan hátt fyrir útveginum. Það er nú vitanlegt, að ef þetta frv. yrði samþ., þá væri verið að taka langmestan hluta af þessu fé, sem með verðlækkunarskattinum kæmi inn, frá útgerðinni. Og þar með væri verið að minnka möguleika hennar til þess að auka skipastólinn og til þess að vera áframhaldandi sjálfbjarga. Og svo á að gera þetta allt til þess að „auka skipastólinn“, eins og þetta er orðað í skrifl. brtt., og til „eflingar sjávarútveginum“. Mér finnast þessi vinnubrögð vera fyrir utan öll takmörk, og er undarlegt, að nokkrir menn, sem hafa snefil af viti á fjármálum, geti fylgt slíkri till. Ef þetta fé ætti að taka einhvers staðar annars staðar frá en frá sjávarútveginum, þá væri öðru máli að gegna, þó að til væri tekið, að það ætti að vera honum til eflingar. En langsamlega mestur hluti þessa fjár mundi verða tekinn af sjávarútveginum, ekki aðeins stórútgerðinni, heldur einnig smáútveginum, sem er kominn í það ástand, að honum veitir sannarlega ekki af sínu. Ég get því ekki verið með till., sem borin er fram þannig í málinu.

Mér hefði fundizt langeðlilegast, að á þessu stigi málsins hefðu hv. flm. frv. óskað eftir því, að umr. um það yrði frestað, til þess að m. a. fjhn. þessarar hv. d. gæti gert sér ljóst, í hvaða ástandi dýrtíðarmálin eru nú, og í samráði við ríkisstj. sett fram ákveðnar till. um það, hvernig úr þeirri flækju skuli greitt. Það væri betra en að ríkisstj. kæmi á hverjum tíma og bæði um alveg ný fjárframlög eftir alveg óhugsuðum eða mjög vanhugsuðum leiðum. Og ég vil beina því til hv. 2. flm. frv., hvort það væri ekki betri lausn á þessu máli en að láta nú ganga atkv. um það og láta samþ. eða fella frv., eftir því, hvaða afl er til hér í hv. d. í því efni. Því að það er ekki hægt að komast hjá því að taka það alvarlega, í hvaða sjálfheldu Alþ. er búið að koma þessum málum eftir beiðni ríkisstj., sjálfheldu, sem er miklu meiri en málið hefur nokkurn tíma verið í áður. Það er sjáanlegt, að í sex manna n. hafa vinnubrögðin verið þannig, að umboðsmenn launþega þar hafa ekki haft neina tilhneigingu til þess að standa á móti því, að framleiðendur fengju fyrir sínar afurðir eins og þeir óskuðu eftir. Og samkv. þessari reglu, sem þar var samþ., var mismunurinn, sem í því sambandi kom fram, þ. e. það, sem framleiðendur fengu minna fyrir sína vinnu en aðrar vinnandi stéttir, settur beint á ríkissjóðinn. Það eru því ekki launþegar og heldur ekki framleiðendur landbúnaðarafurða, sem bera þær byrðar, heldur ríkissjóður, sem verður að standa undir þessu. Umboðsmenn þessir hafa á sama tíma hugsað sér, að það kæmi aldrei til mála, að þeir greiddu atkv. um það á Alþ., að ríkissjóður tæki á sig þessa byrði, en að þetta mundi verða til þess, að bændur fengju hærra verð fyrir afurðirnar, það mundi svo hækka kaupgjaldið, svo hækkaði verðið til framleiðenda, og þannig hækkaði verðið aftur og svona héldi þetta áfram í sífellu. — Ég varð mjög glaður yfir því, að samkomulag hafði orðið í landbúnaðarvísitölunefnd. En þegar ég las skjöl um það samkomulag, þá sá ég, að dýrtíðarmálunum hafði aldrei fyrr verið komið í það öngþveiti, sem orðið var þá. Ég hygg því tíma til þess kominn að athuga þessi mál meira en að kasta fram lítt hugsuðum frv. um tekjuöflun, sem bæta ekki neitt úr því, sem úr þarf að bæta, til þess að leysa þann dróma, sem þessi mál eru komin í á hæstv. Alþ.