02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1985)

172. mál, verðlækkunarskattur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég held, að það sé ekki tími til þess að hafa langar umr. um dýrtíðarmálin almennt að þessu sinni. Við höfum nú um skeið búið við það bráðabirgðaástand í dýrtíðarmálunum að borga niður að nokkru leyti vöruverð til þess að geta haldið atvinnuvegunum á floti. Þó að slíkt sé að vísu engin lausn á dýrtíðarmálunum, þá held ég, að flestir séu ánægðir með þær ráðstafanir, meðan ekki er fundin lausn á dýrtíðarmálinu sjálfu, og ræði ég það ekki nánar.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, er vitanlega komið fram í þeim tilgangi að afla tekna til þess að halda niðri verðlaginu. Og þegar rætt er um það hér í þessari hv. d., hvort ríkissj. muni skorta fé til þess að inna þessar greiðslur af hendi, þá held ég, að það sé öllum hv. þm. ljóst, nú þegar verið er að ljúka við afgreiðslu fjárl., að það muni skorta fé til þess að inna af höndum þessar greiðslur, sem við margir þm. höfum samþ., að ríkissjóður skyldi inna af hendi vegna ákvörðunar sex manna n. En Alþ. er hins vegar skylt að sjá ríkissjóði fyrir tekjum til þess að hann geti innt af höndum þær greiðslur. Það kemur fram í nál. minni hl., sem ég álít, að sé alveg rétt, að þessu fé sé raunverulega öllu varið til þess að borga niður dýrtíðina, þó að hluti af því verði notaður til þess að borga uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, vegna þess, að ef ekki væru greiddar uppbætur á þær, þá þyrftu þær að hækka á innlendum markaði sem svarar því, hvað verðið er lægra á erlendum markaði. Sú hækkun á landbúnaðarvörum á innlendum markaði gæti orðið talsvert mikil, og þar með hlyti það að hækka dýrtíðina, því að ef bændur eiga að fá það verð, sem sex manna n. gerði ráð fyrir, liggur það í hlutarins eðli, að ekki er hægt að fara nema tvær leiðir. Annaðhvort verður að fara þá leið að setja verð á vörum á innlendum markaði samkvæmt því, sem sex manna n. hefur ákveðið, og greiða síðan uppbætur á þær vörur, sem fluttar eru úr landinu, eða þá hins vegar að setja verð á vörurnar, sem seldar eru á innlendum markaði mun hærra en það er nú. Þess vegna er það, að hvoru tveggja þessu fé er varið til þess að borga niður dýrtíðina. eins og það er almennt kallað. Það er frá mínu sjónarmiði svo, að ég tel, að þar sem fé vantar til þess að inna þessar greiðslur af hendi og þar sem því er varið í þeim tilgangi, sem ég hef lýst, þá tel ég það réttláta leið að afla þess fjár á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og með verðlækkunarskattinum er einmitt ætlazt til þess, að fyrst og fremst þeir, sem hæstar hafa tekjurnar, verði látnir borga þetta fé í ríkissjóðinn, til þess að honum verði fært að halda atvinnulífinu á floti og stefna að meiri jöfnuði í þjóðfélaginu en ella mundi. Ef svo fer, sem mér virðist horfa, að frv. verði fellt, þá vil ég einmitt benda hv. þm. á það, að ég tel, að sú tekjuöflunarleið, sem hér er farið fram á, sé sú réttlátasta tekjuöflunarleið, sem hægt er að fara. En verði sú leið felld, þá leiðir það af hlutarins eðli, að þeir, sem gjarnan vildu fylgja þessari leið, hljóta að fylgja öðrum tekjuöflunarleiðum, jafnvel þó að þær frá þeirra sjónarmiði væru ekki eins réttlátar og sú, sem hér liggur fyrir, því að þann kost mundum við ýmsir þm. kjósa fremur en að ekki sé staðið við þær skuldbindingar, sem við álítum, að Alþ. hafi gefið íslenzkum bændum með milligöngu sex manna n. og samkvæmt þeim l., sem Alþ. hefur samþ. Við munum virða það loforð Alþ. svo mikils og telja það svo alvarlega skuldbindingu, að við munum neyðast til þess að fara inn á tekjuöflunarleið, sem akkur væri ógeðfelld. Þetta tel ég rétt, að komi fram á þessu stigi málsins, áður en það kemst á það stig, sem getur leitt til þess, að það yrði að fara inn á óheppilegar leiðir til tekjuöflunar í þessu skyni. Og hv. þm. ættu að athuga það, að þeir hafa einmitt nú vald á þessu atriði, en ekki síðar. Viðvíkjandi þeim brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég segja það, að það er vitað mál, í hvaða tilgangi á að verja þessu fé. Það er vitað, að frv. er komið fram til þess að afla tekna til þess að borga niður dýrtíðina á þann hátt, sem ég hef lýst, og það þá fyrst og fremst til þess að geta staðið við það að borga uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir.