02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

172. mál, verðlækkunarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Það væri mjög æskilegt, að hægt væri að ganga til atkv. um málið, og skal ég því vera stuttorður. Ég skal aðeins segja það út af fyrirspurn hv. þm. Dal. um það, hvort n. hafi nokkuð hugsað fyrir öðrum tekjuöflunarleiðum, ef þessi yrði ekki farin, að ég get upplýst hann um það, að n. hefur ekki á neinn hátt haft það með höndum, og verður það skiljanlegt, þegar nál. meiri hl. er lesið, sem sé það, að n. hefur ekki getað orðið sammála um það, að afla beri tekna í þessu skyni.

Um brtt. hv. 3. landsk. þarf ég ekki að ræða einmitt af þeim ástæðum. að ég hef ekki verið meðmæltur þessum skatti og lít á hann sem beina fjarstæðu, og þó teldi ég hann enn meiri fjarstæðu, ef ekki ætti að nota hann til þess, sem ákveðið er í 2. gr., heldur væri tilgangurinn sá þar að auki að fella niður niðurgreiðslur á dýrtíðinni. Það hefur verið rætt nokkuð á við og dreif um dýrtíðarmálin, en út í það skal ég ekki fara. En á hinn bóginn vil ég segja það, að það getur orkað tvímælis, hvað mikils fjár þurfi að afla, þó að standa eigi við það, sem sex manna n. komst að, og maður fallist á það sem álit þeirrar n., að það hafi átt að tryggja bændum það verð, sem þeim er ákveðið, fyrir alla þeirra framleiðslu, þá er í rauninni ekki þörf á öðru en því að bæta upp útflutningskostnaðinn. Hitt er algert fyrirkomulagsatriði, hvort bændur taka það með, sem þeir eiga að fá, sem beint söluverð á þessum vörum eða hvort þeir taka nokkurn hluta þess með milligjöfum. Það, sem hér greinir á um, er því ekki það, hvort standa beri við skuldbindingar um það, að bændur eigi að fá þetta verð, — nei, um það er ekki að ræða, heldur er hér aðeins deilt um fyrirkomulag dýrtíðarmálanna í heild sinni.

Hvort það eigi að halda vísitölunni niðri, ætla ég ekki að fara út í, en ég vil aðeins segja það, að á meðan við höfum ekki náð meiri tökum á þessum málum en svo, að við höldum áfram að greiða vörurnar niður, tel ég þennan skatt ekki þá réttu aðferð, og eins og ég gat um við 1. umr., tel ég þurfa að afla þessara tekna á miklu víðtækari grundvelli en lagt er til með þessu frv. Hér er lagður skattur á tiltölulega lítinn hóp landsmanna, og í þeim hópi eru einmitt þeir menn, sem vísitölulækkunin kemur mest niður á. Ég held, að landsmenn þurfi að finna, hvar við erum staddir í þessum málum. Ég er hræddur um, að við leysum þessi mál seint, meðan fjöldi landsmanna getur sagt: Ég þarf ekki að standa undir þessu, þetta hlýtur að geta gengið svona áfram. Ég held, að það þurfi að koma byrðunum á sem allra flesta, til þess að sem flestir hafi tilfinningu fyrir því, að hér sé ekki allt með felldu.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira og mun ekki taka aftur til máls, nema frekara tilefni gefist til.