02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (1988)

172. mál, verðlækkunarskattur

Gísli Jónsson:

Okkur hv. þm. Dal. ber ekki svo mikið á milli um uppbæturnar, en í tilefni af því, sem hann sagði, að það væri fengin reynsla um verðlækkunarskattinn, vil ég segja það, að loforð stj. um það, að þessi skattur skyldi verða til þess að gera eignir þeirra manna, sem greiða skattinn, verðmætari, — þau hafa alveg brugðizt. Þessi skattur hefur verið notaður til þess að bæta lífskjör ákveðinna stétta í landinu. Ég er ekki á móti því, að lífskjör þeirra verði bætt, en ég tel ekki réttlátt, að það sé gert með því að leggja skatt á mjög þröngan hring manna í landinu, eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram í sinni ræðu. Réttlætistilfinning þeirra manna er ekki mikil, sem telja, að þetta sé réttlátasti skatturinn af öllum sköttum, og það er alveg vafamál, hvort slíkir menn ættu að hafa atkvæðisrétt um það, hverjir ættu að greiða skatt.

Ég vil benda þeim mönnum, sem tala um, að þingið verði að efna loforð sín um uppbætur, á það, að þingið hefur gefið loforð um það, að l. um verðlækkunarskattinn skyldu ekki gilda nema eitt ár. Ég ætla að efna þau loforð, sem ég hef gefið í sambandi við uppbæturnar, en ég mun ekki heldur gleyma því loforði, sem ég hef gefið öðrum um það, að þessar skattabyrðar skyldu ekki standa lengur en þetta eina ár, eins og lofað var hér á síðasta þingi. Og ég vænti þess, að hv. þm. gleymi ekki því loforði, þegar gengið verður til atkv. um þetta mál.