21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2017)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil lýsa yfir því þegar í upphafi, að ég get ekki fallizt á þáltill. þá, er hér liggur fyrir til umr., án þess að nokkrar breyt. verði gerðar á henni. Skal ég stuttlega gera grein fyrir afstöðu minni til þess, að svo er.

Að vísu er það réttilega fram tekið, að þ. það, er nú situr, er búið að eiga langa setu og jafnvel lengri en menn grunaði og að sama skapi hefur þ. ekki tekizt að leysa þau vandamál, er kalla mest að, og uppskeran hefur því orðið minni en ætla hefði mátt, þó svo að hún hafi sýnt sig að vera allmikil. En ráð er til að bæta úr þessum vinnubrögðum með því að afgreiða nú þegar á þessu þ. þau skattafrv., sem eru fram komin. Býst ég ekki við, að afgreiðsla þeirra frv. tæki meiri tíma en 2–3 vikur. Að þeim tíma liðnum ættu frv. að hafa gengið í gegnum báðar d. og orðið að l. Á þessum fersendum hef ég leyft mér að bera fram brtt. við till. hæstv. ríkisstj., og hljóðar sú brtt. þannig:

„Í stað orðanna „21. apríl“ komi: 15. maí.“ Hef ég afhent hæstv. forseta brtt. með tilmælum um, að hún verði borin undir atkvæði.

Ástæðan til þessarar brtt. er sú, eins og ég hef þegar sagt, að ég álít, að á 3 vikum sé hægt að ljúka þessum málum, sem þegar er sýnt, að meiri hluti muni nást um.

Vil ég leggja áherzlu á það af reynslu síðasta þ., að það er fullkomið óvit að ætla sér að afgreiða samtímis verðlagsmál og skattamál, og var það mikið glapræði af hæstv. ríkisstj. að ætla þessum tveimur málum samtíma afgreiðslu, því að það er útilokað, að það geti náðst samstæður meiri hl. um þessi tvö mál, skattamálin og dýrtíðina eða verðlagsmálin.

Af þessum ástæðum er það, sem ekki er hægt að fullyrða neitt um óbreytta afstöðu þess meiri hl., sem að baki skattamálanna stendur nú, þegar verðlagsmálin koma líka til umræðu og afgreiðslu. Þá verður alveg óvíst um afdrif þessara mála, þegar þau lenda saman til afgreiðslu. Af þessum ástæðum sér í lagi legg ég áherzlu á það, að skattamálin verði tekin til afgreiðslu nú þegar, til þess að þau verði úr sögunni, er röðin kemur að verðlagsmálunum í haust. Þess vegna legg ég á það mikla áherzlu, að brtt. mín verði samþykkt.

Ég þarf reyndar ekki að taka það fram, þegar ég tala um þriggja vikna tíma til að afgreiða þessi mál, þá á ég ekki við og reikna ekki með málþófi eða öðrum slíkum töfum, sem andstæðingarnir gætu ætlað sér að nota gegn framgangi málanna, enda er á valdi forseta að sjá svo um, að slíkt fari ekki fram úr hófi.

Mér heyrðist á hv. þm. G.-K., að hann talaði um það í hótunartón, að ef skattamálin yrðu tekin fyrir nú, þá skyldi ekki standa á þeim að koma með sjálfstæðismálið líka.

Síður en svo skyldi ég hafa nokkuð á móti því, að sjálfstæðismálið yrði rætt nú — eða hver ætli sá væri, sem á móti því yrði? En hitt get ég ekki skilið hjá hv. þm., hvernig hann hugsar sér það sem beina afleiðingu af skattamálunum, að ræða þurfi sjálfstæðismálið. Það fæ ég ekki skilið, og líklega munu fleiri vera samsekir mér í því að dómi hv. þm. G.-K.

Í raun og veru væri nóg að láta hér staðar numið, er ég hef gert grein fyrir brtt. minni, en umr. þær, er orðið hafa um þáltill. þá, er hér liggur fyrir til umr., gefa mér tilefni til þess að segja nokkur orð til viðbótar því, sem ég hef þegar sagt.

Hv. þm. G.-K., Ólafur Thors, talaði í ræðu sinni um sjúkleika hjá mönnum til þess að taka skatta af þegnunum, — og hann kvað sjúkleika þennan jafnvel ganga svo langt, að reynt væri með ýmsu móti að ná í þá aura, sem tekizt hefði að koma í gegnum nálarauga skattal., að ég nú ekki minnist á þau ummæli hans, að hver og einn teldi það nú orðið nærri skyldu sína að svíkja eins mikið undan skatti og með nokkru móti væri unnt. — En hvað um það. Þessi hv. þm. er að tala um fáa aura. Það er sjálfsagt rétt, að við lítum ekki sömu augum á „aurana“, eins og hann kallar, að mér skilst, allan þann stórgróða, sem nú fær að leika laus í vösum einstakra manna. En hvað skyldi þessi maður kalla stórfé og auðæfi, þegar sú mesta auðsöfnun, er þekkzt hefur á Íslandi, er bara „aurar“ hjá honum. Þegar svo þess er gætt, að mestur hluti þessa gróða er beinn stríðsgróði, sem fenginn er án tilhlutunar einstakra manna, heldur fyrir rás atburðanna, þá er það beinlínis skylda löggjafarvaldsins að sjá svo um, að mestur hluti þessa gróða, stríðsgróðans, fari til almennings þarfa og heilla. Um þetta atriði skiptast skoðanir okkar hv. þm. G.-K. í tvö horn, það veit ég ósköp vel, en það væri ekki úr vegi, að hv. kjósendum væri það einnig kunnugt.

Þá var hv. þm. G.-K. að bera saman nettó tekjur manna hér og í Bandaríkjunum. Mér er ekki kunnugt um, hvort þær tölur, er hann fór með, eru sannleikanum samkvæmar, og oft hafa tölur brjálazt á skemmri leið en yfir Atlantshafið þvert.

Hv. þm. G.-K. taldi það ekki vera neitt hættulegt, þó að menn söfnuðu auði. Látum það eitt vera út af fyrir sig, því að misskipting auðsins er það hættulega við auðsöfnun einstakra manna, því að hún hlýtur að leiða til vaxandi stéttaskiptingar og gera kjör þegnanna enn ójafnari. Stríðsgróðinn leitar út í fasteignirnar og ýmis þjóðfélagsverðmæti, sem almenningur á að hafa aðgang að, en verður svo að horfast í augu við það, að þessi verðmæti komast undir yfirráðasvið einstakra manna fyrir tilverknað þessa stríðsgróða. Þá kemur og verðbólgan í kjölfar stríðsgróðans. Hér er um að ræða þjóðfélagshættu, sem ráða verður bót á fyrr en síðar, og það verður ekki gert á annan betri hátt m taka stríðsgróðann úr umferð úr höndum þeirra manna, sem hann hafa nú. Og það er beinlínis vinningur fyrir skattþegnana sjálfa, að það sé gert, því að fé það, sem tekið verður, á skv. ákvæðum frv. að renna til þeirra hluta, sem nauðsynlegir eru hverju þjóðfélagi. Það er beinlínis þeirra ávinningur, að tryggðir séu atvinnuhættir þessa lands, sem svo aftur efnahagsleg afkoma bæði þeirra, sem telja þunga skattabyrði hvíla á sér, og landsmanna yfirleitt byggist á. Því er það fásinna að halda því fram, að hér sé verið að fara fram á eitthvað, sem sé skattþegnunum í óhag gert. Það er þvert á móti verið hér fyrst og fremst að hugsa um hag þeirra, hvort sem þeir gjalda lítinn skatt eða stóran.

Mér virðist hv. þm. G.-K. telja sig hafa einhvern grun um, að ákvæðið um eignaraukaskattinn í skattafrv. færi í bága við stjórnarskrá landsins. Furðar mig satt að segja á þessum grun hans nú, eins og mig reyndar mætti furða á afstöðu hans til skattamálanna enn í dag. Það er ekki lengra síðan en 8. des. síðastl., að í Morgunblaðinu, málgagni Sjálfstfl., sem jafnframt hlýtur að túlka skoðun formanns flokksins fyrst og fremst í jafnþýðingarmiklu máli og þessu, þar kom þá yfirlýsing um, hvað taka þyrfti til bragðs gegn hækkun dýrtíðarinnar. Þar segir svo:

„Varðandi dýrtíðarmálin lýsti flokkurinn sig fúsan til þessa: 1) að verja fé úr ríkissjóði til þess að lækka vísitöluna, 2) að afla ríkissjóði nýrra tekna í þessu skyni, meðal annars með því: a) að hækka skatta, einkum á hátekjum; b) að draga úr skattaívilnunum hlutafélaga; c) að fella niður varasjóðshlunnindi útgerðarinnar að öðru leyti en því, sem beint snerti endurnýjun skipastólsins, d) að innheimta eignarskatt af eignaraukningu stríðsáranna í eitt skipti, e) með öðrum ráðum, er tiltækileg þættu; 3) að skerpa eftirlit með skattaframtali. Þetta birtist nú í Morgunblaðinu sem stefnuskrá flokksins 8. des. s. l., og undir þetta skrifaði þá hv. form. flokksins, þm. G.-K., Ólafur Thors, og þetta var meira að segja birt í útvarpinu — segir einhver.

En nú kemur þessi sami hv. þm. og er að tala um sjúkleika þeirra, sem vilja hefjast handa gegn dýrtíðinni og framkvæma það, sem alveg kemur heim og saman við þessa yfirlýstu stefnuskrá Sjálfstfl. í dýrtíðarmálunum frá 8. des. 1942. Skyldi vera að undra, þó að honum kæmi sjúkleiki í hug í sambandi við þetta mál? Því að ég veit ekki, hvað kallazt getur andlegur sjúkleiki, er það er ekki þessi hringlandi, sem einkennir hv. þm. G.-K. svo mjög í þessu máli. Hver er laus í rásinni, ef það er ekki þessi hv. þm.? Honum ætti því sízt að vera samboðið að tala um sjúkleika annarra, þó að hann hafi slysazt til þess í þetta skiptið.

Það er alveg þýðingarlaust að mæla því í mót, að alltaf hefur hljómað sami söngurinn frá Sjálfstfl., og ég hef heyrt hann allt frá því, að ég man eftir mér, að skattaálagningin væri fullkomið brjálæði, að allt væri tekið af þeim, er eitthvað ættu. En gífuryrði sjálfstæðismanna í skattamálunum eru orðin það margþvæld, að þau eru löngu hætt að hitta í mark. Samt lét hv. þm. G.-K. sér það sæma að leika hér fyrir framan hljóðnemann þessa sömu gömlu rullu um, að allt væri tekið af öllum með skattabrjálæðinu.

Þá vildi hv. þm. G.-K. vera að gera lítið úr þeirri eignaaukningu, sem orðið hefur seinustu árin. Hvað sem hann vill vera láta í þessu sambandi, þá tala tölurnar þar sínu máli, og skattstofan segir þveröfugt við það, sem hv. þm. G.-K. segir um eignaaukninguna. Skattstofan hefur einmitt upplýst, að eignaaukningin væri geysilega mikil. Ég læt þetta svo nægja, en vil þó bæta því aðeins við, að gert er ráð fyrir í till. um skattamálin, að fellt verði niður bann það, er gilt hefur um álagningu útsvara hjá sveitarfélögum. Er lagt til, að ákvæðið um hámarksálagningu útsvara verði fellt niður.

Þá vil ég með örfáum orðum drepa á ræðu hv. 1. þm. Eyf. Hann var að tala um, að verkamannaflokkarnir hefðu haft undanbrögð í frammi, er koma átti að því að skattleggja stríðsgróðann í sambandi við dýrtíðarfrv. stj. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að nú er fram komið frv., sem er að efni til það sama er fólst í 7. gr. stjfrv., nema hvað það kemur, að mér skilst, í endurbættri útgáfu, svo að þessi ásökun hv. þm. er alveg út í loftið.

En það er rétt og satt, að samkomulag varð um það í Ed. að fella niður 7. gr. stjfrv. gegn því að fá fram breyt. á alþýðutryggingal. og óskerta greiðslu verðlagsuppbótar.

Þá var hv. þm. að minnast á bréfaskriftirnar, sem nú nýverið fóru fram milli þm. fyrir hönd þingflokkanna. Ég skal játa, að það hefur verið nokkur skortur á forsjálni hjá mér, að ég skyldi ekki skiptast á bréfum við meðflm. mína að frv., BrB og HermJ. En allt um það treysti ég því, að þeir og flokkar þeirra muni standa með frv. En hins vegar get ég sagt það og er búinn að tilkynna Framsfl. það, að ég er bundinn af samkomulagi um varasjóðsfríðindin, og hv. þm. er kunnugt um, að ég efni það, sem ég lofa, og því í raun og veru þarflaust að vera nokki;ð að skrifa um það. En þetta eru nú í raun og veru smámunir í samanburði við eignaraukaskattinn, „brjálæðið“, eins og hv. þm. G.-K. orðaði það.

Ég vil leiða hjá mér brigzlyrði sósíalista og framsóknarmanna um svik í skattamálunum. Vil ég aðeins benda á einföldustu og um leið sanngjörnustu málamiðlun, sem þar er hægt að hafa, en hún er sú, að láta 2–3 vikna þingsetu í viðbót skera úr um deiluna. Eftir þann tíma þarf enginn að vera í vafa um, hvor það er, sem svíkur. Ber ég þessa till. fram hér með.

Ekkert skildi ég í því, þegar SigfS fór allt í einu að tala um það í ræðu sinni, að ég væri að hrista höfuðið. Ég var í mesta sakleysi að skrifa niður nokkra punkta og var með hugann við það þá stundina, svo að þetta, sem SigfS sagði, kom yfir mig eins og þruma úr heiðskíru lofti.

En þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið, sem þessir hv. sósíalistar halda alltaf, að það sé verið að horfa á þá og gefa þeim gaum. Og ég get ekki varizt því, að alltaf er svona stendur á, finnst mér þeir líkjast svo mjög hinum nýríku stríðsgróðamönnum. Eiga þeir oft bágt með að leyna þessu og ljósta því stundum upp, þessu sameiginlega einkenni þeirra og hinna nýríku stríðsgróðamanna, að þeim finnast allir vera að horfa á sig, og ljósta því upp, þegar þeir vildu einna sízt, eins og þetta litla atvik í ræðu hv. þm., SigfS, sýndi bezt.

Eftir því sem var að heyra á ræðu hv. 4. landsk. þm. (StgrA) í gær, þegar hann var að tala um aðgerðarleysi síðasta þings, þá var helzt að skilja, að allt það, sem þó hefði verið gert, hefði verið gert af sósíalistum, hinir hefðu ekki komizt að. Ég held, að það væri hollt fyrir sósíalista að temja sér meiri hógværð en þeir hafa gert hingað til. Ég tek undir það með Sigfúsi, að aðstaða verkalýðsins er nú stórum betri en nokkru sinni fyrr til þess að koma fram málum sínum á þinginu. En það fer eftir því, hvernig sósíalistar haga sér, hvort það tekst að nota þessa aðstöðu. Þeir hafa látið blað sitt ljúga því út um allan bæ, að Alþfl. hafi viljað vera með kauplækkun í sambandi við dýrtíðarmálin. Ég skýt því til þeirra hv. þm., sem hafa unnið með mér í fjhn., hvort nokkuð slíkt hafi komið fram frá okkur Alþfl.mönnum. Ég geri ekki ráð fyrir, að þeir leyfi sér að halda því fram, að nokkuð hafi komið fram, sem gæfi tilefni til þess að ætla, að Alþfl. væri með slíku, — ekki í sameinuðum fjhn. beggja deilda, ekki í fjhn. Ed. og ekki í fjhn. Nd. Sósíalistar segja því rangt frá þessu.

Ég skal ljúka máli mínu með því að víkja dálítið að dýrtíðarmálunum. Það frv., sem að lokum var samþ. af þinginu, var þannig, að ég tel, að það feli ekki í sér neina lausn á dýrtíðarmálunum. En í því eru engin ákvæði, sem verkalýðurinn hefur sérstaka ástæðu til að setja sig upp á móti. Það er þó eitt ákvæði, sem mér er mikill þyrnir í augum, og það er ákvæðið um greiðslu uppbóta á landbúnaðarafurðir. Það er einmitt vegna þess, að þetta frv. er engin lausn á dýrtíðarmálunum, og þetta kemur aftur til kasta þingsins í haust. Það er því að minni hyggju ákaflega áríðandi að koma nú lagfæringu á skattamálin, því að þá stöndum við betur að vígi í haust með að leysa dýrtíðarmálin, ef búið er að leysa skattamálin áður.