10.09.1943
Neðri deild: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2018)

34. mál, erfðalög

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Frv. þetta er í raun og veru einfalt mjög og gerð grein fyrir framkomu þess í aths. við það.

Erfðalög þau, sem nú eru í gildi, erfðatilskipun frá 1850, var til meðferðar á þingunum 1847 og 1849. Erfðatilskipunin frá 1850 var því sett með ráðum Alþingis. Þessi erfðatilskipun var óbreytt í 70 ár, og sýnir það sig því, að l. þessi hafa verið vel gerð og við hæfi þjóðarinnar. Aðeins gæti maður sagt, að á þessu tímabili hefði sú breyting orðið, að ríkisvaldið tók sinn rétt til erfða með því að auka erfðafjárskattinn, hækka hann og gera hann mismunandi, gera þannig mun á því, til hverra arfurinn félli. En á sjálfri erfðatilskipuninni var gerð fyrst breyt. með l. 1921, þar sem erfðaréttur óskilgetinna barna var víkkaður. Þar næst var gerð breyt. á erfðatilskipuninni með l. 1923, þegar erfðaréttur eftirlifandi maka var aukinn. Þrátt fyrir það að þessar breyt. hafa verið gerðar, virtist stj., að tími væri til kominn að gera enn breyt. sökum breytts viðhorfs í þjóðfélaginu, — hvernig ættir yfirleitt líta á skyldur sínar gagnvart meðlimum sínum, og enn fremur, að ættartilfinningin er í raun og veru heldur að sljóvgast. Tilfinningin fyrir framfærsluskyldunni, sem var rík í ættunum áður gagnvart meðlimum ættarinnar, hefur dofnað. Og lögin hafa ekki gert kröfur í jafnríkum mæli og áður, til þess að ættin framfærði meðlimi sína. Þá hafa og hinar sósíölu tryggingar, sem hefur vaxið svo mjög ásmegin síðustu árin, komið því til leiðar, að framfærsluskyldan er eiginlega horfin úr meðvitund manna nema innan mjög þröngra takmarka. En vegna þess að framfærsluskylda og erfðaréttur eru nátengd, þótti stj. nú rétt að stíga það skref, sem gert er með þessu lagafrv., þ. e. að takmarka rétt ættarinnar til erfða. Við, sem höfum fengizt við skiptamál um lengri eða skemmri tíma, höfum rekið okkur á það, hversu — ég vil segja herfilega — hefur farið um álitlegar fjárfúlgur, einmitt vegna þess, hvað þær dreifðust víða og margir áttu arftökurétt. Álitlegar fúlgur og eignir hafa skipzt og orðið að engu fyrir þessar sakir.

Þetta frv. breytir ekki erfðagrundvellinum, en takmarkar réttinn til erfða. Nú getur það verið álitamál, hver takmörkunin á að vera. En höfuðsjónarmiðið, sem vakir fyrir stj., er það, að frændsemiserfðarétturinn eigi að vera bara í eina línu, upp og niður, og ná til systkina, en þegar línan lengist niður á við eða um hliðarlínu er að ræða, þá skuli skera yfir. Systkinabörn eigi ekki rétt, þótt foreldrið eigi rétt. Þetta getur verið álitamál, og þetta fær n. og þingið nú til athugunar.

Í öðru lagi hefur verið víkkaður réttur á einu sviði. Óskilgetin börn fengu rýmkaðan erfðarétt 1921. En í 2. gr. þessara l. er rétturinn enn dálítið færður út. Það getur verið álitamál, hvort þetta sé rétt, en stj. virðist það nú. Annars er í aths. við þá gr. gerð grein fyrir þessu.

Enn fremur er í 3. gr. víkkaður réttur, og er það réttur kjörbarna. Hann var áður þannig, að kjörforeldrarnir gátu ekki látið kjörbörn fá meira en einn fjórða, ef þeir áttu niðja á lífi. Í raun og veru á ekki frekar að takmarka rétt kjörbarna með l. heldur en það væru kynborin börn. En hins vegar er í gr. látinn haldast réttur kjörforeldra til að setja í upphafi takmörk fyrir því, hvað kjörbörn skuli erfa.

Þá vil ég taka fram, að réttur til að gera erfðaskrár er eiginlega alveg látinn halda sér eins og hann var. En ég vil í því sambandi benda sérstaklega á 19. gr. þessa frv., og gæti n. athugað, hvort ekki er ástæða til að rýmka réttinn til að gera erfðaskrá frá því, sem þar er. Annars skal ég ekki fara lengra inn á það.

Ef þetta frv. verður að lögum, má búast við því, að meira fé falli utan ættarerfðanna og falli því til hins opinbera meiri fúlgur en áður. Og þá er spurningin um það, hvernig er bezt farið með það fé. Út frá því sjónarmiði, að erfðir standa í nánu sambandi við framfærslu og uppeldi, þá hefur stj. þótt það réttast að stinga upp á því, að þeir arfar, sem falla til hins opinbera, féllu til sjóða, sem væri sérstaklega varið til framfærslu og uppeldis. Og fyrir því er gerð sú till., sem í 24. gr. segir.

Ég hirði ekki að eyða fleiri orðum að frv., en vænti þess, að n. sú, sem fær það til meðferðar, gefi stj. kost á að fylgjast með starfi sínu. Ég ætla, að réttast sé, að það sé allshn., og geri það að till. minni.