23.11.1943
Neðri deild: 52. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

34. mál, erfðalög

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Hv. frsm. allshn. hefur gert grein fyrir athugasemdum þeim og vandamálum, sem n. telur, að ekki hafi verið leyst með þessu frv. Þetta er eitt af þeim málum, sem ekki getur orðið flokksmál, þó að það sé í sjálfu sér mikilsvert. Það getur ekki orðið heit deila um svona mál, og er ekki heldur þess að vænta, að þm. almennt fái áhuga á slíku máli. Þess vegna er það, að þetta mál sem önnur slík þarf að vera vel undirbúið, bæði að efni og formi. Frv. þarf að vera aðgengilegt í höfuðdráttum, svo að Alþ. geti tekið það til fullkominnar meðferðar. Nú hefur hv. allshn. athugað þetta mál og komizt að þeirri niðurstöðu, að svo áfátt sé um undirbúning frv., að hún geti ekki lagt til, að það verði látið ganga lengra, heldur verði því vísað til stj. að nýju. N. hefur að vísu getað fallizt í höfuðatriðum á það, sem frv. var aðallega ætlað að flytja, sem sé takmarkanir á erfðarétti skyldmenna, en það er líka eina atriðið viðvíkjandi erfðaréttinum, sem n. hefur tekið afstöðu til, því að hún getur þess aðeins, að það séu skiptar skoðanir um það, hvað langt eigi að ganga, og hv. allshn. hefur næga ástæðu til að afgr. málið þannig, af því að hún hafði vísað málinu til umsagnar lagadeildar. Þessi vísan til laga- og hagfræðideildar var gerð að mínu ráði, og það sýnir sig svo, að allshn. hefur eiginlega í meginatriðum létt af sér erfiði með því að gera umsögn laga- og hagfræðideildar að sinni. Enda er umsögn eða nál. allshn. ekki nema sjö línur. En þessi umsögn laga- og hagfræðideildar, þótt hún sé merkileg í sjálfu sér, er þannig, að ég hefði óskað þess, að hún hefði verið dálítið meira leiðbeinandi en fram kemur og hefði tekið svolítið fastar á þessu til leiðbeiningar fyrir Alþ. Það er aðeins eitt atriði, sem ég kem síðar að, sem hún er alveg ákveðin um í umsögn sinni, en í öðrum atriðum er það svo, að það er allt saman álitamál um það, hvað gera skuli í þessum efnum, bæði sem frv. fer fram á að breyta, og eins í því, sem frv. fer ekki fram á að breyta í núverandi erfðalöggjöf. Ég hefði því óskað þess, en það er ekki nema ósk frá minni hálfu, að lagadeild hefði greint nánar frá,. í hverju væru fólgnir agnúarnir á frv. Hún segir aðeins, að þetta sé álitamál, þetta orki tvímælis og það sé vart í samræmi við nútímann o. s. frv., en annars gefur hún bara bendingu um athugun, sem þurfi að fara fram, en segir ekkert um það, hvernig lagfæringin eigi að vera. Sem sagt, það er eins og lagadeildin geri ráð fyrir, að þetta frv. hafi alls ekki verið athugað eða undirbúið. En hitt skal ég fúslega játa, að það getur verið margt álitamál í þessu, hvernig erfðalöggjöfin eigi að vera gerð úr garði, og þó að skipuð sé n. þriggja lögfræðinga, þá geta þeir aldrei útilokað nein álitamál um það, hvernig erfðalöggjöfin eigi að vera í framtíðinni. En hitt er það, að ég hafði hugsað mér og hafði mælzt til þess í upphafi, þegar ég lagði frv. fram., að það þyrftu ekki að verða meiri breyt. á því frv., sem hér liggur fyrir, en þær, að n. og ég — með tilstyrk lagadeildar — gætum ráðið málinu til sæmilegra lykta. En þetta hefur ekki orðið, og er óþarfi að flytja langt mál um það. Ég skal benda á það, að það er aðeins eitt atriði, sem lagadeildin hefur verið alveg viss um, að gera ætti, og það er að skipa n. lögfræðinga í málið. Ég lét það uppi á þeim eina nefndarfundi allshn., sem ég kom á, að ég teldi það ekki vera vafalaust, að það ætti bara að vera n. lögfræðinga, því að þetta mál er frá mínu sjónarmiði ekki aðeins lögfræðilegt mál, það er þjóðhagsmál, og það er laga- og hagfræðideild, sem hefur afgr. málið hingað, og þess vegna hefði ég satt að segja kunnað betur við það, að hagfræðideild hefði látið rödd sína heyrast í þessu máli. En úr því, sem komið er, skal ég ekki frekar fjölyrða um málið, en stj. mun taka það til athugunar á ný eftir því, sem henni þykir tilefni til.