21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (2035)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Haraldur Guðmundsson:

Það eru þá fyrst nokkur orð til þeirra Ólafs Thors og Jóns Pálmasonar út af því, sem þeir sögðu um till. mínar í skattamálunum. Það fór sem mig varði, að Ólafur játaði, að hugmyndin um skattana af varasjóðum væri öll önnur en hugmyndin um eignaraukaskatt. Hins vegar skildist mér á Jóni og enda Ólafi líka, að í rauninni væri hugmyndin um eignaraukaskatt ekki svo fráleit. Jón sagði, að það væri töluvert öðru máli að gegna um eignaraukaskatt, ef fjögurra flokka stj. hefði náð samkomulagi um að leggja hann á. Hann benti svo á ýmsa örðugleika á því að láta hann koma réttlátlega niður. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að af 200 þús. kr. eignarauka umfram það, sem lagt er í nýbyggingarsjóð, yrði skatturinn ekki nema 24 þús. kr., en eftir eru 166 þús. kr., svo að ekki eru teknir allir aurarnir, sem smjúga í gegnum nálaraugað, eins og Ólafur orðaði það. Þessir menn eru að reyna að telja fólki trú um, að eignaraukaskattur, sem nemur 15 millj. kr., mundi stofna þjóðfélaginu í voða. Þessi eignaraukaskattur mundi nema um það bil helmingi þeirra skatta, sem teknir eru á einu ári, það eru nú öll ósköpin. En af hverju finnst þessum mönnum þetta þá svo voðalegt? Jú, það er af því, að þessir skattar mundu lenda á 400–500 manns, — að kalla örfáum mönnum. Það eru hagsmunir þeirra manna, sem eignaraukaskatturinn mundi koma við, en ekki hagsmunir almennings, sem þessir hv. þm. bera fyrir brjósti.

Ég ætla, að þetta gefi nokkra hugmynd um, hve fjarstætt það er, að hér sé um gífurlegar skattaálagningar að ræða, þegar þetta er ekki helmingur af því, sem áætlað er, að tekjuskattur hjá þessum mönnum hlaupi á árinu. En að barizt er svo á móti þessum skatti, er af því, að sá hópur manna, sem ætti að greiða hann, er ýmsum hv. þm. hugstæðari en alþýða manna yfirleitt. En þessar skatttekjur yrðu til sparnaðar fyrir ríkissjóð á síðari árum, þegar erfiðara verður að fá fé í hann, þegar fjárstraumurinn minnkar og þörf ríkissjóðs til árlegra framkvæmda kannske er meiri en nú.

Það gleður mig mjög, að hv. þm. G.-K. (ÓTh) lýsti yfir því, að það hefði ekki verið ætlun sín, að það væri sagt í hótunartón, að Sjálfstæðisflokkurinn mundi taka upp sjálfstæðismálið á þessu vori, ef þingið héldi áfram nú. Ég þakka honum fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, að sjálfstæðismálið mundi ekki verða verzlunarmál.

Annars þótti mér orðalag þessa hv. þm. (ÓTh) bera vott um leikni stjórnmálamannsins, jafnvel meira en æskilegt væri. Um yfirlýsinguna í Morgunblaðinu 8. des. í vetur sagði hann, að að vísu hefði flokkur hans léð máls á því að ræða um að leggja á nokkurn eignaraukaskatt, meira hefði nú ekki verið sagt þar. En í Morgunblaðinu var þá birt feitu letri, að flokkurinn hefði lýst sig fúsan til að leggja á þennan skatt — beinlínis fúsan til þess að leggja á þennan skatt.

Við hv. 2. þm. S.-M. (EystJ) þarf ég að segja nokkur orð. Hann sagði, að ég teldi það smátt mál að fella niður varasjóðshlunnindin. Það er ekki rétt. Ég sagði, að það væri smátt mál og skipti litlu, hvort þetta væri gert fyrr eða síðar. Þá hafði einn hv. þm. það eftir mér, að ég vildi ekki leggja á skatt eftir á. En ég sagði, að það væri óheppilegt að leggja á skatta eftir á, t. d. í apríl næsta ár á eftir, þó að neyðzt hafi verið til að gera það.

Þá var hv. 2. þm. Reykv. (EOl) að tala um afstöðu mína til varasjóðshlunnindanna, sem nú er komin fram í sérstöku frv. Ég sagði, að samkomulagið, sem gert hafði verið í Nd., væri, að Alþfl. tæki ekki upp né flytti till. um að afnema aftur þau varasjóðshlunnindi, sem felld hefðu verið niður með 7. gr. frv., ef sú gr. hefði verið látin standa í frv. Ég tel mig bundinn við það samkomulag, að því er snertir tekjur ársins 1942.

Auk þess vil ég benda á, að ef eignaraukaskatturinn yrði á lagður, þá yrði hann sennilega 25–30% meiri heldur en sem niðurfelling varasjóðshlunninda mundi nema. Svo að ég tel ekkert aðkallandi, að þessir varasjóðir verði látnir vera án þessara fríðinda, eins og nú standa sakir.

Hv. þm. G.-K. (ÓTh) sagði, að það gegndi öðru máli, ef eignaraukaskatturinn gengi til að hækka verðmæti annarra eigna sömu skattþegna, sem hann greiða. Alþfl. lagði fram till. 1941, sem gengu beinlínis í þessa átt. En þá var Sjálfstfl. jafnfjarri því ákvæði og nú. Annars er torvelt að tryggja það gagnvart gjaldendum. En skattur, sem dregur úr verðbólgunni, verkar til þess að auka verðmæti peninganna.

Í sambandi við ummæli Þjóðviljans um Alþfl. viðvíkjandi kaupgjaldi, þá er það náttúrlega svo, að ummæli þess blaðs verða engu réttari fyrir því, þó að hv. 2. þm. Reykv. (EOl) lesi þau upp hér á Alþ. Nú er rétt að taka það fram, að hann tók greinilega fram, að þingflokkur Alþfl. hefði á engan hátt gert neitt það, sem til þess gæti bent, að hann hefði fylgt slíkum ákvæðum, sem hér um ræðir. Það tók hv. þm. fram í ræðu sinni, og það er alveg rétt.

Nokkuð hefur verið rætt hér um myndun vinstri stjórnar og þá í sambandi við athugun á því máli í vetur. Ég mun ekki gerast til þess að fara að skýra frá því, sem rætt hefur verið í þessari svo kölluðu níu manna nefnd. En ég vil taka það fram, að ég taldi strax eftir kosningarnar í haust skylt og sjálfsagt að gera einlæga og alvarlega meinta tilraun til þess að koma á stjórn Alþfl., Framsfl. og Sósfl. Ég hef reynt það eftir beztu getu, fyrst með því að reyna að finna leið til að mynda stjórn um takmarkaðan málefnagrundvöll í byrjun desember s. l. Hvorugur hinna flokkanna vildi þá fallast á þennan takmarkaða málefnagrundvöll. Annar flokkurinn, Framsfl., taldi einu leiðina til þess að mynda þá samsteypustjórn, að það væri gert upp á stólana — ekki gerður málefnasamningur, heldur reynt að vinna að honum síðar. En Sósfl. tók fram, að hann tæki ekki þátt í myndun stjórnar, nema gerður yrði málefnasamningur, sem sýnilegt var, að mundi taka margar vikur að semja. Þessi tilraun varð því árangurslaus. Sósíalistar skrifuðu þá bréf og lögðu til, sem svo varð að samkomulagi, að þessir þrír flokkar nefndu menn til þess að ræðast við um stjórnarmyndun. Í þessari n. kom fram ágreiningur um kaupgjalds- og verðlagsmál svipaður og opinber er nú í meðferð þingsins á þeim málum. Að því er sósíalista snerti, virtust þeir í þessum málum fallast á skoðun Alþfl. Ég skal ekki segja, hve mikið eða lítið þeir lögðu sig fram til þess að gera till. í þessari n. Það er óþarft að benda á það, en líksöngsræðuna yfir tilraunum til stjórnarmyndunar hafa þeir sungið í Þjóðviljanum 30. marz s. l., þar sem er ritstjórnargrein um myndun vinstri stjórnar, og í þeirri grein er því slegið föstu, að tilraunir í þá átt hafi mistekizt. Síðan er farið að gera grein fyrir ástæðunum til þess frá sjónarmiði þess, sem greinina ritar. Og þær eru taldar m. a. þessar: „Víst er um það, að engin stjórn er þess umkomin að stýra fram hjá öllum vanda“. Og afleiðingin er sú, að lausnir vandamálanna mundu „orka tvímælis“. (SigfS: Það væri rétt að lesa nokkrar greinar á undan þessu). Mér finnst alveg ljóst, að skilningur sósíalista um hlutverk ríkisstjórnar er annar en minn. Ég álít, að ekkert verkefni liggi fyrir ríkisstjórn, ef hún tekur ekki á sig mikinn vanda. Það getur engin stjórn stýrt fram hjá öllum vanda. Mér hefur verið vel ljóst frá upphafi, að slík vinstri stjórn hlýtur að fá til viðureignar mörg vandamál og stór og að lausn þeirra hljóti alltaf að orka tvímælis og valda deilum um það, hvort rétt hafi verið á málunum haldið. En það er allt um það sorglegur skortur á réttu mati á hlutverkum eins og stjórnmálum, ef menn ætla að sigla fram hjá öllum vanda af ótta við gagnrýni. Ég álít þessi tilfærðu orð Þjóðviljans beina yfirlýsingu um það, að hugur sósíalista hefur ekki gengið í þá átt að ganga til stjórnarmyndunar. Þó er þess getið í því sama blaði, að enn sé kannske möguleiki fyrir hendi til þess, því að enn geti Framsfl. og Alþfl. fallizt á stefnu Sósfl., þannig að vinstri stjórn yrði mynduð. Eini möguleikinn til þess, að unnt sé að mynda vinstri stjórn, er, að því er þar segir, sá að fallast á stefnu Sósfl. Það, sem sá flokkur hefur látið uppi sem sína stefnu, það eiga þessir tveir flokkar, Framsfl. og Alþfl., að gera að sinni stefnu. Ef þetta hefði verið sagt í upphafi, þá hefði verið tilgangslaust að hefja viðræður um stjórnarmyndun við Sósfl., því að slíkar viðræður byggjast eingöngu á því, að þeir flokkar, sem slíkar viðræður hafa, reyni að finna leið, sem þeir geti sameinazt um, en ekki, að einn flokkanna segi: Þetta skuluð þið taka sem stefnumál og þetta óbreytt.

Ég harma það, að þessar tilraunir hafa engan árangur borið. Ég og minn flokkur gerðum allt, sem mér og flokknum var unnt til myndunar vinstri stjórnar. En árangurinn er ekki meiri en þetta. Skýringin er augljós og kemur fram í þessari grein, sem ég vitnaði til, auk þess sem ég hef drepið á, ágreiningurinn um kaupgjaldsmálin, sem er milli Alþfl. og Framsfl.

Og að lokum þetta: Mér er ljóst, að ákvarðanir verður enn á ný að fresta að taka í dýrtíðarmálunum og verðlagsmálunum. Og ég er alveg fullviss þess, að þann veg fer lausn þeirra skást eða bezt úr hendi, að áður sé búið að komast að niðurstöðu um, hver er vilji meiri hlutans, að því er snertir breyt. á skattal., því að annars óttast ég, að líkt fari og raun varð á á síðasta þingi, að hvor málsaðili um sig verði til þess að hafa óheppileg áhrif á meðferð málanna, að því er hinn flokkinn snertir.

Ég vil að lokum óska áheyrendum öllum góðs og farsæls sumars.