21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2043)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Brynjólfur Bjarnason:

Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta, að það er ekki ástæða til að svara þessu. Hvernig í ósköpunum væri það til þess að brjóta niður þingræðið, að ríkisstj. væri gert að skyldu að ráðfæra sig við þingflokkana, áður en hún gæfi út brbl.? Það er mér óskiljanlegt og öllum hv. þm. En enda þótt ríkisstj. ráðfæri sig við flokka, sem væru meiri hl. þingsins, og fengi samþykki þeirra til þessa, þá er ekki þar með sagt, að undir þeim kringumstæðum, að þing sæti, mundi afgreiðsla málsins fara eins. Við vitum, að oft í upphafi meðferðar mála er til meiri hl. fyrir ýmsum atriðum þeirra, en samt sem áður taka þau undir meðferð málsins gerbreyt. Við þurfum ekki annað en að líta á það stórmál, sem Alþ. hefur nú nýskeð afgreitt, dýrtíðarfrv. Ég geri ráð fyrir, að allir séu sammála um það, að það hefði verið afgreitt öðruvísi, ef það hefði verið gefið út sem brbl. og ríkisstj. hefði aðeins ráðfært sig við þingflokkana, sem skipa meiri hl. á Alþingi.