30.09.1943
Neðri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2048)

7. mál, minkaeldi o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Eins og fram er tekið í nál. á þskj. 76, hef ég ekki fylgt meiri hl. landbn. að málum, en legg til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Máli mínu til rökstuðnings get ég að mestu látið mér nægja að vísa til grg. hv. þm. Borgf. fyrir frv., en til viðbótar vil ég þó segja örfá orð. Eins og gefur að skilja, úr því að ég gat ekki orðið hv. meðnm. mínum sammála, sýni ég ekki eins mikinn vinarhug í garð minkanna og þeir. Hv. frsm. meiri hl. hélt hér langa ræðu um það, hve miklar tekjur hafa mætti af loðdýrarækt. Ég held, að ekki hafi verið um neinar stórtekjur af slíku að ræða. Það kann að vera, að um nokkrar tekjur hafi verið að ræða fyrir einstaka menn, en hér er meira í húfi en þær tekjur, sem af þessum atvinnuvegi kann að mega hafa. Og í því sambandi verð ég að minna á það, að reynsla undanfarinna ára hefur sýnt, að lítil höpp hafa orðið að þeim áhuga, sem sumir menn hafa sýnt á því að flytja hingað ýmis dýr frá öðrum löndum og rækta þau hér. Slíkt hefur yfirleitt orðið þjóðinni til tjóns, en ekki gagns, og verðum við að hafa alvarlega gát á því, að ekki sé haldið áfram á þeirri hálu braut. Höfuðágreiningurinn í landbn. snerist um það, hvort tiltækilegt væri að útrýma villiminkum, meðan haldið væri áfram að rækta þá í búrum, eins og gert hefur verið. Ég álít, að ekki sé til nein trygging fyrir því, að ekki sleppi meira og minna af þessum dýrum hér eftir sem hingað til, meðan ræktun þeirra er leyfð. Að vísu er það rétt, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að nokkur tími leið, frá því er byrjað var að flytja inn þessi dýr og þar til er eftirlit með ræktun þeirra og vörzlu var hafið, en hitt er líka víst, að síðan eftirlitið hófst, hefur talsvert af dýrunum sloppið, og ekki er heldur hægt að færa sannanir fyrir, að þau hafi öll náðst aftur, enda þótt áhugasamur ráðunautur hafi haft eftirlitið með höndum. Mér dettur ekki í hug að ásaka hann eða aðra einstaklinga um þau mistök, sem orðið hafa í þessum efnum, því að ætti slíkt eftirlit að koma að fullu gagni, þyrfti til þess marga menn og helzt einn í hverju héraði, þar sem minkar eru aldir. Afstaða mín til þessara mála er á engan hátt bundin ásökunum í garð þeirra manna, er farið hafa með þetta eftirlit, heldur byggist hún á því, að ég tel reynsluna vera búna að sanna, að ekki verði tryggt, að dýrin sleppi ekki úr haldi. Varðandi þá staðhæfingu frsm. meiri hl., að litlar eða engar sannanir væru fyrir því, að orðið hefði mikið tjón af villtum minkum hér á landi, er því til að svara, að í fyrsta lagi eru til sannanir fyrir því, að tjón hefur orðið á fuglum, og í öðru lagi eru sterkar líkur fyrir því, að tjón hafi orðið á fiski í veiðivötnum. Það er ærið hæpin ástæða gegn þessu frv., að ekki sé hægt að sanna, að slíkt tjón hafi orðið af völdum minkanna. Það er rétt eins og að segja, ef bóndi finnur dautt lamb, að ekki sé hægt að sanna, hvort það hafi verið drepið af svartbak, hrafni eða tófu. Vissulega má telja allar líkur til, að minkur, sem hefur ekki geðfelldara æti fyrir sig að leggja, ráðist á þau nytjadýr á landi og í vötnum, sem hann gengur annars fram hjá. Það fer auðvitað nokkuð eftir því, hvaða æti minkurinn hefur í hvert sinn, hvort hann leggst á þessi dýr eða ekki. Ég held því, að allt það, sem hv. flm. hefur fært fram um skaðsemi þessara dýra, sé á svo miklum rökum byggt, að full ástæða sé til að samþ. frv.

Viðvíkjandi því, sem hv. meiri hl. landbn. segir í hinni rökst. dagskrá sinni, að hann muni bera fram till. um breyt. á loðdýraræktarl., er það að segja, að viðkunnanlegra hefði verið, að þeir hefðu látið sjá till. sínar, áður en þeir báru fram till. sína um, að frv. yrði vísað frá. Við höfum reynslu fyrir því, að framkvæmd slíkra loforða getur dregizt von úr viti, og eins er það, að engin trygging er fyrir, að hér yrði að ræða um till., sem kæmu að haldi. Ég skal játa, að það gæti komið til mála, ef frv. verður fellt, að lagður verði allríflegur skattur á útflutt minkaskinn og það fé síðan notað til útrýmingar villiminkum. En ég er þó svo svartsýnn, að því er snertir framtíð þessarar atvinnugreinar, að ég tel okkur hollara að samþ. frv. nú þegar, því að nú stendur svo vel á, að skinnin eru í góðu verði og vel seljanleg. Er ekki víst, nema það gæti verið allt eins heppilegt að losna við dýrin nú þegar sem hitt að halda áfram ræktun þeirra og eiga á hættu þann halla, sem varla verður hjá komizt, ef markaðurinn bregzt síðar meir. Minna má á það, að margur, sem stundað hefur refarækt, hefur orðið fyrir stórtjóni, er hefur stundum yfirstigið það, sem græðzt hafði á hinum hagkvæmari tímum.

Að öðru leyti vil ég ekki þreyta hv. d. með langri ræðu. Það mundi hafa litla þýðingu, því að málið liggur ljóst fyrir, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynnt sér þau rök, sem fyrir liggja í grg. og álitsgerðum meiri og minni hl. landbn., og þeir hafi þegar ákveðið, hvort þeir ætla að fylgja frv. eða hinni rökst. dagskrá hv. meiri hl. n.