01.10.1943
Neðri deild: 26. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

7. mál, minkaeldi o.fl.

Þóroddur Guðmundsson:

Þessi brtt. hv. þm. Siglf. er ekki langt frá brtt. meiri hl. landbn., en þó greinir á um nokkur atriði. Báðir aðilar eru á sömu skoðun um, að ekki beri að samþykkja frv. það, sem hér liggur fyrir.

Það, sem aðallega ber á milli, er, að í brtt. þm. Siglf. er beinlínis kveðið svo á, að ríkisstj. sé falið að láta sérfróða menn athuga áhrif villiminka á gróðurfar og dýralíf landsins. Það á að skipa n. sérfróðra manna til að gefa álit um þessi mál. Þótt ekki sé það sérstaklega tekið fram, liggur í augum uppi, að ríkisstj. ætti að skila niðurstöðum þessarar væntanlegu n. fljótlega.

Það virðist vera, að málið sé ekki eins vel upplýst og látið hefur verið í veðri vaka. Það hefur verið slegið fram staðhæfingum, sem komið hefur í ljós, að ekki eru á rökum reistar. En þegar komið er þannig með staðhæfingar gegn staðhæfingum, er augljóst, að rannsaka þarf málið betur.

Og þegar form. landbn. tekur svona vel í málið, að hann hyggst greiða atkvæði með brtt. þessari og talar þar fyrir hönd fleiri þm., vænti ég þess, að hún nái fram að ganga.