16.09.1943
Efri deild: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

44. mál, verðlag

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar þessi l. voru hér síðast til umr., benti ég á, að 4. gr. frv. gæti ekki staðið lengi óbreytt. Ég bar þá fram ákveðna brtt. við þessa gr., og hæstv. fjmrh. lýsti þá yfir því, að hann væri þessari brtt. raunverulega samþykkur, en hann óskaði eftir því, að þessi breyt. yrði ekki gerð þá til þess að tefja ekki framgang málsins, og hann lofaði að sjá um, að það skyldi ekki koma að sök við framkvæmd laganna, og kvaðst mundu fela viðskiptaráði að sjá um það. Nú hef ég rekið mig á, að þetta hefur ekki verið gert, og ég hef spurzt fyrir um ástæður þess, bæði hjá hæstv. ráðh. og viðskiptaráði, og ég hef fengið þau svör, að þessa gr. væri ekki hægt að framkvæma öðruvísi, nema henni væri breytt.

4. gr. l. um verðlag fjallar um bann gegn keðjuverzlun, en innflytjendur hafa heimild til þess að leggja bæði heildsölu- og smásöluálagninguna á í einu, og veit ég, að þetta er nú gert við ýmsar helztu nauðsynjavörur landsmanna, t. d. byggingarefni allt, timbur, sement, rör, járn, eldavélar, miðstöðvar, ýmislegt til rafmagnsiðnaðar, veiðarfæri og ýmislegt fleira. Verzlanir úti um land geta því ekki verzlað með þessar vörur, nema með því að gera annaðhvort að brjóta lögin eða þá að selja þær sér í óhag, og til þess er ekki hægt að ætlast af þeim með sanngirni. Einstaklingar hafa því neyðzt til þess að kaupa þessar vörur hér í Reykjavík og kosta sjálfir flutning á þeim út um land, en stórinnflytjendur hér í Reykjavík hafa hirt allan ágóðann.

Þetta ástand er með öllu óþolandi, og eftir að ég hafði rætt við hæstv. ráðh. og viðskiptaráð, þá kom okkur saman um, að þessu þyrfti nauðsynlega að breyta. En við urðum ekki sammála um það, hvernig breytingin skyldi verða, og vildu þeir láta orða brtt. sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt skal viðskiptaráði að setja þau skilyrði í innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, sem veitt eru innflytjendum, að ákveðinn hundraðshluti þeirra skuli seldur með gildandi heildsöluverði til verzlana eða iðnaðarmanna“.

Hér er þetta aðeins heimild, en ekki fyrirskipun, og er það stórt atriði. En frv. mitt fer fram á, að viðskiptaráð skuli setja þau skilyrði í innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, að ákveðinn hundraðshluti vörunnar skuli seldur til verzlana eða iðnaðarmanna með gildandi heildsöluverði, eftir því sem ástæða þykir til á hverjum tíma. Er óheimilt að afhenda vöruna, nema skráð hafi verið á innflutningsleyfið, að hve miklu leyti viðskiptaráð óskar að nota þessa heimild.

Á þessu tvennu er reginmunur. Annars vegar er viðskiptaráði fyrirskipað að leggja þessa kvöð á innflytjendur, en hins vegar er því aðeins veitt heimild til þess, og þegar það ætlar sér að nota þessa heimild, þá getur það orðið um seinan. Til þess að koma í veg fyrir það hef ég hins vegar tekið fram, að óheimilt sé að afhenda innflytjanda vöruna, nema viðskiptaráð hafi áður skráð á innflutningsleyfið, að hve miklu leyti það óskar að nota þessa heimild, sem um getur.

Fyrir stríð var það svo, að verzlanir úti um land gátu fengið afgreiddar til sín smápantanir á umræddum vörum beint frá Norðurlöndum. Nú er þetta ekki hægt lengur, vegna þess að nú verður að kaupa járn, timbur, veiðarfæri og margt fleira í stórum slumpum frá Ameríku, því að seljendur þar líta ekki við smápöntunum á þessum tímum, og hefur innflutningurinn því færzt mjög til Reykjavíkur, þar sem hann lendir í höndum stórinnflytjenda, sem nota sér ákvæði 4. gr. laganna og taka til sín bæði heildsölu- og smásöluálagninguna. Þessu verður að breyta sem fyrst og það þannig, að þeir, sem búa úti um land, njóti sömu skilyrða og þeir, sem búa í Reykjavík eða nágrenni.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn., og ég vil vænta þess, að hv. n. flýti afgreiðslu málsins, þannig að hægt verði að taka þetta til athugunar fyrir næstu áramót.