21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

44. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég undrast svar hæstv. fjmrh. Hann lýsti því yfir, að hann hefði ekki breytt um skoðun, en á hverju byggist þá afskiptaleysi hans af málinu? Það er alveg þýðingarlaust að halda því fram, að hæstv. fjmrh. hafi ekki breytt um skoðun, en kannske er hann aftur búinn að öðlast sína upprunalegu skoðun, og væri það vel. Úr því að hann vill hins vegar ekki gera það, sem öll allshn. vill láta gera, sýnist hann vilja fara aðrar leiðir en þingviljinn segir fyrir um.

Ef rökst. dagskrártill. nær fram að ganga, er óhjákvæmilegt að bera fram nýja þáltill., þar sem skorað er á stj. að láta framkvæma þessi l.

Hæstv. ráðh. sagði, að ofmælt væri hjá mér, þegar ég nefndi 40%. Hvað ætli það sé mikill innflutningur út á land, dúkar, vatnsleiðslurör, hitaleiðslurör, eldfæri, miðstöðvartæki o. s. frv.? Eða veiðarfæri? Þetta er allt selt út á land í smásölu. Þegar ráðh. talar um að skylda smásala, er það rangt. Það á að skylda innflytjendur, en ekki smásala. Þeir verða bæði smásalar og heildsalar og taka tvöfaldan arð. Svo er t. d. um sement. Eru Hallgrímur Benediktsson & Co. smásalar, þó að þeir selji í smásölu? Eða Völundur og Helgi Magnússon & Co.? Þetta er blekking hjá ráðh.

Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. ráðh. á, að nýlega leitaði til mín iðnfyrirtæki, rúlluhleragerð, sem hefur haft á hendi viðgerðir á skipum síðan 1907, en hefur nú gengið dag eftir dag til viðskiptaráðs til að biðja um vörur til stórviðgerða, en hefur alltaf fengið neitun. Hæstv. ráðh. ætti að kynna sér, hvernig komið er þessum málum. En það er ekki hægt að búast við miklu af ráðh., sem lýsti því yfir fyrir 12 mán., að hann mundi láta framkvæma mál á vissan hátt, en er ekki farinn til þess enn.

Ráðh. heldur, að sá staður, sem ég er fulltrúi fyrir, hafi farið sérstaklega illa út úr þessu. Nei, ég hef nú útvegað þeim stað vörur hér í heildsölu. Ég ber fyrir brjósti hina smáu, sem hæstv. ráðh. er skyldugur til að hugsa um.