21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2065)

44. mál, verðlag

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég mótmæli því aftur, að ég hafi skipt um skoðun. Það er rétt, sem ég skýrði frá. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun, að þessi heimild væri fyrir hendi, en ég teldi það ekki saka, þó að ákvæði væru sett í l., sem gerðu þetta skýrara. Ég hef fyllilega framkvæmt mitt loforð, að fela viðskiptaráði að leysa úr málinu á þann hátt, sem tiltækilegt væri. Eins og hagar til um innflutning, er það sanngjarnt að rétta þeim kaupmönnum hjálparhönd, sem hafa ekki útispjót til að fá vöru sína beint frá útlöndum, en það eru talsverðir erfiðleikar að fyrirskipa einum smásala, sem hefur slík útispjót, að afhenda vöruna með litlum hagnaði til annars smásala. En það er þó ekki sama máli að gegna um allar vöruteg., því að um vissar vörur, eins og timbur, er full sanngirni, að eitthvað slíkt sé gert.

Ég er ekki reiðubúinn að gefa neina slíka yfirlýsingu, sem hv. flm. fór fram á, en endurtek, að ég mun stuðla að því, að viðskiptaráð noti þá heimild, sem ég hef talið, að það hefði, og allshn. hefur fallizt á, að það hefði, eftir því sem ráðið sjálft álítur sanngjarnt. Það hefur enga hvöt til að draga taum eins eða annars, eins og það er skipað.