21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2067)

44. mál, verðlag

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Mér skilst, að ráðh. hafi gefið hér fullnægjandi yfirlýsingu. Hann hefur fallizt á það, að þessi heimild væri fyrir hendi, og muni hegða sér samkv. því. Hins vegar vil ég upplýsa hann um eitt atriði. Hann taldi sig ekki hafa fengið kvartanir nema frá hv. þm. Barð. einum, en á fundi allshn. lýstu tveir þm. þar yfir, en þar á hv. þm. Barð. ekki sæti, að þeim væri kunnugt um, að þörf væri á því, að þessari heimild væri fylgt eftir í einstökum tilfellum, svo ég hygg, að ráðh. hafi þar með fengið ríkari tilefni en áður að sjá um, að viðskiptaráðið beitti þessari heimild. Hitt fæ ég eigi skilið, af hverju ágreiningur hv. þm. Barð. og ráðh. rís, af því mér skilst, að báðir séu sammála um, að stundum muni vera þörf á þessu. Hins vegar taldi ráðh. mjög hættulegt, ef frv. hv. þm. Barð. yrði samþ. N. álítur það ekki svo mjög hættulegt út af fyrir sig, heldur, að það sé ástæðulaust, því að þetta vald sé eftir sem áður í höndum viðskiptaráðs. Ráðh. sagði, að þetta yrði óframkvæmanlegt, sem viðskiptaráði yrði fengið í hendur. En viðskiptaráði er ekki fengið annað í hendur með frv. en að setja þetta skilyrði, eftir því sem ástæða kann að þykja til á hverjum tíma. En viðskiptaráð hefur sjálft talið erfiðleika á að framkvæma þetta. Það er því, eins og flm. hefur viðurkennt, að hér er ekki eingöngu um að ræða, hvort maður treysti viðskiptaráði til þess að gegna skyldu sinni eða ekki, heldur, að hér sé þörf á skýlausri heimild, vegna þess, hve tilfellin eru margbreytileg, og þá er mikið undir því komið, hvort viðskiptaráðsmenn eru hæfir til að gegna þessu starfi og hvort þeir hlynna að vissum innflytjendum eða ekki. Viðskiptaráð hefur haft veika trú á, að það hefði þessa heimild, en eftir að d. hefur samþ. till. n. um rökst. dagskrá, hlýtur ráðið að gera sér ljósa grein fyrir því, að heimildin sé fyrir hendi, af því að bæði ráðh. og d. mundu ekki gefa slíka yfirlýsingu, nema rík ástæða væri til. Hér er því um að ræða sterka bendingu til ráðsins í þá átt, að það hafi þessa heimild, og þá er einnig tilgangi flm. náð. Hitt er svo annað mál, hvort maður treystir þessum viðskiptaráðsmönnum eða ekki, sem mér skildist, að flm. kæmi inn á í síðari hluta ræðu sinnar. Ég er ekki að öllu leyti ánægður með framkomu þeirra, en hins vegar hefur ekkert komið fram í þessu máli, sem gefur til kynna, að maður geti búizt við, að þeir gangi á móti óskum Alþ. í l., óskum Ed. á rökstuddri dagskrá og fenginni yfirlýsingu ráðh. Ég býst ekki heldur við, að þeir muni misbeita valdi sínu víssum innflytjendum til hagnaðar. Ég vil því halda fast við það, að rökstudd dagskrá verði samþ. að fenginni fullnaðaryfirlýsingu ráðh. í málinu.