21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

44. mál, verðlag

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Flm. hefur með því að vitna í orð mín við umr. á þessu máli á síðasta þingi staðfest það, sem ég sagði þá með svipuðu orðalagi, nefnilega að viðskiptaráði hafi verið falið að reyna að greiða úr þessu máli. Hitt var svo annað mál, að viðskiptaráð var í vafa um, hvort það hefði vald til eða gæti framkvæmt þetta. Formaður viðskiptaráðs hefur átt viðtal við mig um þetta og lét í ljós, að það mundi ekki saka, þó að þessi gr. yrði gerð eitthvað skýrari, og einmitt með það fyrir augum, að slík gr. yrði í því formi, sem ég álít heppilegast, sýndi ég honum þetta uppkast, sem flm. gat um, svo að hann álítur nú, að ég hafi skipt um skoðun á þessu máli. En því fer auðvitað fjarri, og tel ég því óþarfa að fjölyrða meira um þetta. Eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, erum við á einu máli um, að úr þessu þurfi að bæta, eftir því sem kostur er á. Mér mundi því verða það til mikillar ánægju, ef fundur þessi leiðir til þess að fá það leiðrétt, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, og hef ég ekki borið brigður á, að slíkt gæti átt sér stað á fleiri en einum stað, þó að ég hafi ekki orðið var við það frá öðrum en flm.