26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2077)

62. mál, eignarnámsheimild á Nesi í Norðfirði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um eignarnámsheimild fyrir Neskaupstað til þess að geta tekið þann hluta af bæjarlandinu, sem nú er í eigu einstaklinga, til handa bænum. Nákvæmlega sams konar frv. flutti ég á síðasta þingi, en það náði þá ekki fram að ganga, því allshn. óskaði eftir, að enn frekari tilraunir yrðu gerðar til þess að fá þennan hluta af landinu keyptan, án þess að til eignarnáms þyrfti að koma. Þá varð ég við þessu, og bæjarstjórnin gerði tilraun til þess að fá landið keypt án eignarnáms. Þegar svo þessi tilraun hefur verið gerð og málið er lagt fyrir, þá kemur n. enn fram og óskar eftir að draga þetta enn eitt ár og gera enn tilraun til þess að spyrja landeigendur, hvort þeir vilja selja, án þess að til eignarnámsheimildar komi. Mér þykir þetta undarlegt og það því fremur sem gerðar hafa verið hér á þingi samþykktir svipaðar þessu og fram hafa komið yfirlýsingar frá mönnum og flokkum, sem eru í samræmi við það, sem hér er farið fram á. Ég vil benda á það, að á síðasta þingi var samþykkt þáltill. um skipun milliþinganefndar í jarðakaupamálum kaupstaða og sveitarfélaga og í tilefni af þeirri till. féllu ummæli frá fleirum en einum flokki, að það bæri brýna nauðsyn til þess, að bæjarfélögin og sveitarfélögin fengju sem fyrst aðstöðu til þess að eignast bæjarland sitt til þess að koma í veg fyrir lóðabrask og til þess að hindra, að verðaukning á lóðum og lendum lendi í eigu einstaklinga, sem ekkert hafa unnið til þess að auka verðmæti þeirra. Og alveg sérstaklega kom það fram í blöðum Framsfl., að flokkurinn mundi standa framarlega í hópi þeirra, sem vildu tryggja, að þetta gæti orðið sem fyrst. En nú, þegar kaupstaður fer fram á að kaupa slíkt land samkvæmt mati, rís flokkurinn á móti því, af því að einn eða tveir flokksmenn eiga þar hlut að máli. Ég vil benda þeim, sem finnst, að gjarnan mætti fresta þessu máli einu sinni enn, á það, að þannig tókst til, þegar bæjarstjórnin sendi landeigendum skeyti um þetta efni, þegar leggja átti frv. um heimild til jarðakaupanna fram, að aðeins 2 aðilar svöruðu af þeim 7, sem í hlut áttu, og sá maður, sem nú spyrnir mest fótum við þessu frv., svaraði þrem vikum eftir, að svörin áttu að hafa borizt. En hinir fimm svöruðu ekki og vissu þó, að á síðasta þingi lá fyrir frv. um, að landið yrði tekið eignarnámi, enda eru sumir af þessum landeigendum fulltrúar í bæjarstjórninni eða eiga innangengt þar og hafa lýst yfir því þar, að þeir selji alls ekki landið. Þetta veit bæjarstjórnin, þess vegna er farið fram á að taka landið eignarnámi.

Eins og segir í grg., er svo komið, að flestir kaupstaðir landsins eiga bæjarland sitt. Neskaupstaður hefur stefnt í sömu átt og hefur reynt að kaupa landið, en honum hefur ekki tekizt að ná í nema rúman helming af bæjarlandinu, en hinn helmingurinn er í eigu 6 einstaklinga, og ráða þeir öllu um framkvæmdir á bæjarlandinu. Þeir hafa sett þannig ákvæði í landeigendareglugerð staðarins, að fyrirbyggt er, að bærinn fái þar nokkru ráðið. Þessir einstaklingar hafa allar lóðir og lendur með sérstökum fríðindum, og þeim fríðindum vilja þeir ekki sleppa. Meiri hl. allshn. hefur óskað eftir, að bærinn gerði enn eina tilraun til þess að komast að samningum við landeigendur, og mér skilst, að hér sé farið eftir vilja þess eina jarðeiganda, sem hér á sæti á þingi og var annar þeirra, sem gerði bæjarstjórninni tilboð. Ef þm. vissu, hvernig þetta tilboð var, þá hygg ég, að þeir mundu ekki fallast á það, að bærinn biði eftir, að gerðar væru nýjar tilraunir. Hann hefur að vísu boðizt til að selja landið fyrir miklum mun hærra verð en bærinn taldi sig geta keypt það á og hefur keypt af öðrum, en til viðbótar því, að landið væri keypt miklu hærra verði, átti landeigandi, meðan hann lifði, og eftirkomendur hans að njóta sérstakra hlunninda og hús hans áttu að standa eftirgjaldslaust á landinu og einnig húsin endurbyggð. Slíkar kvaðir gat bærinn ekki fallizt á, og get ég ekki trúað, að þingið vildi, að bærinn gengi svo langt, að ganga að slíkum ævarandi skilyrðum, eins og hér eru sett. Árið 1941 viðurkenndi Alþingi með setningu l. um jarðakaup ríkisins til handa kauptúnum og sjávarþorpum algerlega þá stefnu, sem hér er farið fram á. Þá setti þingið l. um það, að ríkissjóður hefði heimild til eða væri gert að skyldu að taka eignarnámi eða kaupa fyrir hönd kauptúna og sjávarþorpa ekki aðeins það land, sem þau stæðu á, heldur og nauðsynlegar jarðir í nágrenni staðanna. En þessi l. ná ekki yfir kauptún eg sjávarþorp, en kaupstaðirnir eru undanskildir. Neskaupstaður fór því þá leið, sem Siglufjarðarkaupstaður fór á síðasta þingi og Reykjavíkurkaupstaður í enn þá stærri mæli, því að hann fór út fyrir land sitt. Neskaupstaður fer fram á það sama og l. frá 1941 fóru fram á og eins og þegar hefur verið samþykkt bæði fyrir Siglufjörð og Reykjavík. Hér er því ekki um einsdæmi, heldur mörg fordæmi að ræða og málinu komið þannig fyrir, sem ég held, að allir séu sammála um, að sé það eina rétta í þessu efni. Og það, sem gerzt hefur, er það, að meiri hl., sem leggur til, að málinu sé frestað, hefur viðurkennt þá stefnu, sem hér kemur fram, viðurkennt, að réttlátt sé, að kaupstaðirnir eigi bæjarland sitt, en reynir þó að halda því fram, að þetta geti tekizt með frjálsum samningum, þótt reynslan hafi sýnt, að slíkt heppnast ekki. Ég held, að öllum megi vera það ljóst, að engin ástæða er til þess, að nýjar tilraunir af hendi bæjarstjórnarinnar til þess að eignast landið með frjálsum kaupum muni bera nokkurn frekari árangur en þessar tilraunir hafa sýnt, og með því að draga þessi kaup um nokkurn tíma enn er aðeins verið að gefa landeigendum tækifæri til þess að njóta sérréttindanna lengur og leigja út af landinu eftir þeim reglum, sem þeir vilja við hafa. Það er verið að gera kaupstaðnum erfiðara fyrir með að eignast landið, því að vitanlega stígur landið í verði frá ári til árs.

Ég vil líka benda á það, að það er búið að vera svo um nokkurn tíma í Neskaupstað, að bæjarstjórninni og landeigendum hefur komið illa saman um ráðstöfun á landinu. M. a. geta aðilar, sem þangað koma, séð innan bæjarins allstórt land, sem undirbúið var til ræktunar, stórir skurðir grafnir, vegir lagðir um og girt en þegar átti að fara að leigja landið út, ákvað bæjarstjórnin að leigja það við lægra verði en landeigendur vildu vera láta, og risu þeir þá upp og neittu meirihlutaaðstöðu sinnar. Á síðasta ári varð svo bæjarstjórnin að beygja sig, og girðingarnar voru rifnar upp, til þess að landið gæti legið í órækt að vilja þessara örfáu landeigenda. Frsm. meiri hl. setti fram þá spurningu, hve miklu sú leiga næmi, sem greidd væri af sameigninni. Frsm. meiri hl. hefur hér gerzt forsvarsmaður þessara landeigenda, og það hefði verið miklu meiri ástæða til þess, að ég hefði borið upp þessa spurningu til hans sem forsvarsmanns þeirra, því að það er ekki mitt að vita, hverju þetta nemur. Það er þeirra að vita, hvað þeir hafa, upp úr krafsinu. Hitt er annað mál. að það verð, sem bærinn hefur boðizt til að greiða fyrir landið, er margfalt fasteignamatsverð þess, en hins vegar að mestu miðað við undanfarandi söluverð landsins.

Ég vil svo að endingu segja það, að mér þykir heldur kynlegt, ef Neskaupstað verður, — þrátt fyrir það að hann hefur orðið við því að gera nýja tilraun til þess að fara samkomulagsleiðina við landeigendur, sem hafa ekki svarað nema 2 af 7 og annar með algerlega óaðgengilegu tilboði, en hinn með einu stuttu nei, — mér þykir kynlegt, ef Neskaupstað einum verður meinað að eignast land sitt á sama tíma og öðrum kaupstöðum, sem þó hafa búið við betri skilyrði, er leyft að eignast sitt land, og vil ég vænta þess, að þingið sjái sér fært að samþykkja þetta og fallist ekki á neina aðra afgreiðslu á málinu.