26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2078)

62. mál, eignarnámsheimild á Nesi í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Þetta verða aðeins örfá orð. Mér finnst nú, að hv. 6. landsk. þm. (LJós) taki fullnærri sér þá afgreiðslu málsins, sem allshn. leggur til, því að eins og hann viðurkenndi nú og nál. ber með sér, er n. þeirrar skoðunar, að kaupstaðurinn eigi að eignast þetta land, og meira að segja hafa fallið orð um það, að á næsta þingi verði kaupstaðnum látin þessi eignarnámsheimild í té. Nú vil ég vona, að ekki komi að sök til þess tíma, þótt eignarnámsheimildin verði ekki afgreidd á þessu þingi. Það hafa engin mótmæli heyrzt á þeim grundvelli, að hér sé um að ræða einhverjar framkvæmdir, sem séu svo aðkallandi, að það sé bagalegt að fá ekki eignarnámsheimildina, ef ekki verði af samningum. Þetta finnst mér vera höfuðatriði málsins. Það er miklu viðkunnanlegra, að áður en Alþingi veitir eignarnámsheimildina, sé reynt á það allverulega, að aðilar komi sér saman, því að það finnst mér ekki nema skylt af hálfu þingsins að veita ekki slíka heimild, þegar um eitthvað smávægilegt er að ræða, sem engu máli skiptir. Nú tel ég þetta ekki svo og því eigi á næsta þingi að veita þessa heimild, ef samningar nást ekki. En ég tel, að af hálfu bæjarstjórnarinnar hafi ekki verið nægilega eftir þessu leitað síðan á síðasta þingi. Ég veit ekki betur en leitað hafi verið til tveggja landeigenda um það, hvort þeir vildu selja, og þeir hafi skrifað og óskað eftir tilboðum og bæjarstjórnin hafi sent tilboð og tiltekið verðið kr. 5500.00 hundraðið. Því svöruðu landeigendur svo, að verðið væri of lágt, og svo ætla ég, að frekari tilraunir hafi ekki átt sér stað. Hvort bæjarstjórnin eða fulltrúar hennar litu þannig á, að þetta sé svo hátt verð, að bæjarstjórnin sjái sér alls ekki fært að bjóða meira, er mér ókunnugt um, en mér hefði þótt réttari leið, að bæjarstjórnin hefði svarað þannig, að hún treysti sér alls ekki til að bjóða meira. Þetta er ekki að leitast við að ná samkomulagi. Hitt er náttúrlega annað mál, sem hv. 6. landsk. drap á, ef menn fást ekki til að svara bænum, þegar hann kemur með erindi sitt. Ég álít, að ekki eigi að sýna þeim nokkra biðlund eftir slíkt, enda mega þeir þá sjálfum sér um kenna. Viðvíkjandi því, sem hv. 6. landsk. vildi beina til mín, að ég ætti heldur að leita til landeigenda viðvíkjandi því, hvað væri upp úr landinu að hafa, held ég, að upp á rökstuðning málsins hér á þingi hefði ekki verið verra, að hann hefði kynnt sér þetta, því að þar sem komið hefur ákveðið verðtilboð af hálfu bæjarins, hefði þurft að rökstyðja það með því, að landeigendur hefðu sjálfir ekki meira upp úr landinu. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér um þetta atriði, ætla ég, að þeir muni fá talsvert miklu meira. Ég held, að þeir telji sér tekjur af landinu á fjórða hundrað kr. af hundraði, ég sel það ekki dýrar en ég keypti. En ef hv. 6. landsk. þm. veit ekki, hver leigumálinn er, getur hann ekki heldur mótmælt því. Það er leitt að heyra, hvað þessum mönnum semur illa. Ég vona, að hin rökst. dagskrá meiri hl. allshn. verði samþ. og menn reyni að koma sér saman. Ef bæjarstjórn sýnir fulla viðleitni á frjálsu samkomulagi og gangi samt ekki saman með þeim, get ég á næsta þ. heitið hv. 6. landsk. þm. stuðningi mínum við málið. Því að það er vissulega alveg út í bláinn hjá honum, að við viljum ekki veita heimildina, af því að tveir landeigendur séu framsóknarmenn. Þarna eiga nokkrir menn land, og ég þekki ekki mark á þeim, en ég veit, að einn flokksmaður minn á þarna land og er sá, sem hefur boðið landið til kaups. Hitt er viðkunnanlegra, að það sé hóflega með þetta mál farið og reynt að ná samkomulagi. Það er ekki viðunandi, hvernig bæjarstjórnin hefur gengið fram.

Ég skal ekki lengja mál mitt, enda er það ekki mikið, sem á milli ber.