26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2079)

62. mál, eignarnámsheimild á Nesi í Norðfirði

Lúðvík Jósefsson:

Aðeins örfá orð og þá aðallega út af því atriði hjá hv.frsm. meiri hl., að hann reynir að gera talsvert úr því, að bæjarstjórnin hafi að mjög litlu leyti gert tilraun til að fá keypt það land, sem um er að ræða. En þetta er alveg rangt. Bæjarstjórnin hefur fyllilega gert það, sem hægt var að búast við, og landeigendur hafa verið aðvaraðir greinilega. Það er ekki rétt, að bæjarstjórnin hafi aðeins snúið sér til landeigenda og spurt þá, hvort þeir vildu selja. Þeim var öllum sent skeyti, og þeir voru beðnir um að gera sölutilboð, og aðeins einn af þeim gerir sölutilboð, sem þó kemur 3 vikum of seint —, með ævarandi skilyrðum, sem bæjarstjórnin gat ekki gengið að. En hinn aðilinn, sem svaraði, svaraði aðeins með því að biðja bæjarstjórnina að gera tilboð. Hún gerði það, en viðkomandi eigandi talaði aldrei við hana aftur. Það er að vísu rétt, að við höfum ekki talað við manninn aftur og aftur. Honum var kunnugt um, að það hafði legið fyrir frv. um eignarnám, en hann hefur enga tilraun, gert til að bjóða bænum landið. Ég álít því, að bæjarstjórn hafi fyllilega gert allt, sem búast mátti við af henni.

Hitt, að bæjarstjórnin geti verið ánægð, því að hún skuli fá stuðning í þessu máli á næsta þ., nægir okkur ekki, því að það sama var okkur sagt á síðasta þ. af mönnum úr n. svo að við trúum ekki um of á það.

Ég er á þeirri skoðun, að ef menn meintu það heilt, að rétt væri að stefna að því, að bæjarfél. ættu bæjarland sitt, ættu þeir hiklaust að geta sett ein allsherjarl. um., að þau hefðu rétt til að taka eignarnámi eftir mati. Það ætti að vera óþarfi að þvæla því lengi fyrir sér.

Þetta mál er fyllilega upplýst. Bærinn er búinn að gera sitt. Stærstu landeigendurnir eru jafnframt bæjarfulltrúar, en hafa aldrei anzað og vilja ekki selja landið nema eftir dómi. Jafnvel þótt samkomulag næðist við þennan eina, sem á sæti á þ. og gerði tilboð með ævarandi skilyrðum, þá eru eftir þeir, sem eiga mestan hluta landsins.