17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

21. mál, ábúðarlög

Frsm. (Páll Hermannsson) :

Flm. þessa frv. hélt hér alllanga ræðu í gær. Það var nú samt minnst af ræðu hans um málið sjálft, heldur almennar hugleiðingar út frá því.

Ég hef vakið eftirtekt manna á því, að landbn. lítur svo á, að jafnvel þó að þetta frv. yrði samþ., þá mundi það ekki ná tilgangi sínum. Landbn. hefur aflað sér upplýsinga lögfróðra manna um það, að þó að þetta frv. yrði að l., þá væri ólíklegt, að ákvæði þess yrðu látin ná til eldri byggingarbréfa.

Ég hef getið þess sem minnar skoðunar, að ég teldi, að það væri álitamál, hvort ákvæði þessa frv. rækjust ekki á ákvæði stjskr. um friðhelgi eignaréttarins. En um það atriði fullyrði ég þó ekki. Mér ber ekki nein sérstök skylda til að úrskurða það, en hef leyfi til þess að hafa mínar skoðanir um það.

Hv. þm. Barð. sagði það eiginlega með berum orðum, að það væri venja hér á Alþ. að skjóta sér undir ákvæði og fyrirmæli stjskr. eins og annað skálkaskjól, þegar lítilmagnar og fátæklingar ættu hlut að máli, en slíks væri síður gætt eða talað um, þegar um sterkari og efnaðri aðila væri að ræða. Ég held nú, að þessi hv. þm. hafi látið þessi mjög svo alvarlegu ummæli í garð hv. þm. falla, ekki af því að það sé sannfæring hans, heldur til þess að leiða athygli þm. frá þeim lagabreyt., sem frv. felur í sér og tvímælis getur orkað, hvort nokkur ávinningur er að flytja í því formi, sem það er. Ég get svo ekki verið að lengja þessar umr. þrátt fyrir þann rosta, sem hv. þm. hafði hér í gær um þessar umr., heldur vil ég aðeins benda hv. þm. á, að hann kemur stundum fram á Alþ. við meðferð mála, sem hann flytur, á þann veg, að það nálgast að vera hálfgerður sálarháski að eiga orðastað við hann, og orðaval hans og ummæli við umr. í gær eru gott dæmi um það. N. eiga að sjálfsögðu að afgr. mál eins fljótt og unnt er og afgr. þau vandlega, en ef ég hefði búizt við, að hv. þm. mundi haga orðum sínum á þann veg, sem hann gerði í gær, í sambandi við þetta mál, þá hefði ég ekki verið að flýta mér með það hér í þingsalinn. Afleiðingin var sú sama, hvort málið var fellt, látið daga uppi eða vísað frá. Það hefði verið æskilegt fyrir hv. þm. og líka hv. d. að losna við þessar umr.