17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2101)

21. mál, ábúðarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að mér fannst ummæli hv. þm. dálítið einkennileg. Hann lýsti yfir því, að ef hann hefði búizt við slíkum ummælum frá minni hendi, þá hefði hann tekið sér það vald að stöðva þetta mál í n. Ég býst ekki við, að form. landbn. hafi leyfi til þess að setjast þannig á mál bara til þess að forða sér frá ummælum um meðferð n. á málinu og af því að hann þolir ekki, að það sé rætt á þingfundi. Málið er nú búið að vera 10 vikur í n., og finnst mér, að hæstv. forseti ætti að gefa slíkri n. áminningu, sem tekur sér slíkt vald.

Annars var öll ræða hv. þm. þannig, að glöggt mátti heyra, að hann hafði engin rök að færa máli sínu til stuðnings, og sjálfsagt er það líka þess vegna, að hann hefur haldið málinu svona lengi í n., og kannske hefur hann ekki treyst sér til að koma með rök fyrir því að krefjast þess, að málinu yrði vísað frá. Ég vænti þess, að d. samþ. frv. og felli dagskrártill. formanns landbn. eða öllu heldur kannske landbn. í heild.

Þá minntist ég á það í gær, hversu hin ýmsu atriði stjskr. séu misjafnlega túlkuð eftir því, hverjir eiga þar hlut að máli, og hafa ekki komið fram nein rökstudd andmæli gegn því. Ég benti m. a. á húsaleigul. og önnur l., sem talið er enn vafasamara, að brjóti ekki í bág við stjskr. heldur en þessi l., ef frv. verður samþ. Það var ekki verið að hugsa um ákvæði stjskr., þegar landslýður allur var beittur því ranglæti hér á Alþ. að taka af honum kosningaréttinn í heilt ár. (LJóh: var hann tekinn af mönnum?) Það var frestað kosningum í heilt ár, og það er ekki séð enn, hversu mikinn skaða það hefur haft í för með sér fyrir íslenzku þjóðina, að sá sterki beitti þar valdi sínu gegn hinum veikari.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. meir, en ég vænti þess, að þegar ég tala við hv. þm. N.-M., þá finnist honum ekki, að hann sé í svo miklum sálarháska, að hann þurfi sérstaklega að vátryggja sig fyrir þeim umr.