17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

69. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Björn F. Björnsson) :

Við tveir nm. í heilbr.- og félmn. gátum ekki orðið sammála meiri hl n. og bárum við fram rökstudda dagskrá á þskj. 376.

Í frv. er gert ráð fyrir, að húsaleigun. öll fari með þau mál, sem heyra undir hana.

Eins og frsm. meiri hl. tók fram, lagði meiri hl. til, að frv. yrði samþ. með allmiklum breyt. En samkv. upplýsingum, sem eru frá formanni húsaleigun. og varaformanni, virðist eigi þörf að breyta starfstilhögun eða verkaskiptingu innan húsaleigun. að svo stöddu.

Þessir nm. segja, að ef allir nm. ættu að fjalla um málin, yrði allt svo svifaseint, að búast mætti við, að ekkert gengi um framkvæmdir. Þetta hefur heilbr.- og félmn. fallizt á og leggur til, að gengið verði frá frv. eins og það kemur fyrir, en sú breyt. gerð, að allir nm. þurfi aðeins að vera viðstaddir, þegar framkvæma þarf 5. gr., en hún er um leigunám. En eins og hv. frsm. tók fram, þá kemur það sjaldan fyrir, svo að breyt. er ekki mikil. Ég átti tal við formann húsaleigun., og sagði hann, að það gæti þó komið fyrir, sérstaklega í sambandi við braggana. Hann taldi ókleift að láta alla nm. vasast í hverju máli, sem kæmi fyrir n. Þess vegna lagði hann á móti, að breyt. yrði gerð í þá átt. Þess vegna sjáum við í minni hl. ekki ástæðu til að breyta þessu eins og meiri hl. vill, og leggjum við því til, að þetta verði fellt, og fellur það af sjálfu sér, ef dagskráin verður samþ.

Þá er önnur brtt. meiri hl., sem er veigameiri, en hún er sú, að ríkissjóður skuli greiða helming kostnaðar við framkvæmd l. Við leggjum á móti þessu. Er það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er það, að engar upplýsingar liggja fyrir um kostnað við þessa n., og við töldum óverjandi að samþ. að greiða helming þessa kostnaðar úr ríkissjóði, án þess að fyrst lægi fyrir a. m. k. upplýsingar um, hversu mikill þessi kostnaður hefði verið að undanförnu. Í öðru lagi er það, að samkv. l. vinnur n. aðeins fyrir bæjarbúa. Það getur verið, að farið sé í kringum l., og er of oft gert, en l. samkvæmt er n. ætlað að vinna aðeins i þágu bæjarbúa, svo að það er mjög vafasamt, að ríkissjóði beri að greiða meira en hann gerir nú l. samkv., þ. e. a. s. laun nm. Af þessum ástæðum þótti minni hl. ekki rétt að samþ. þessa till. og alls ekki fyrr en fyrir lægi skilgreining á kostnaðinum. Leggjum við því til, að þessi brtt. verði felld.

Þá er eitt í þessu sambandi, sem kannske er ekki veigamikið, en þó til athugunar, en það er það, að húsaleigul. eru tiltölulega ný af nálinni, og því er ef til vill varhugavert að hreyfa nokkuð við þeim nú, því að það gæti orðið til þess, að veigameiri breyt. kæmu fram en þær, er hér um ræðir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um málið fleiri orðum að sinni, en vænti þess, að d. samþ. hina rökst. dagskrá á þskj. 376.