17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2119)

69. mál, húsaleiga

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv., flm. þessa frv., lét þau orð falla, að honum þætti rýr eftirtekjan af starfi n. að þessu máli, þar sem hún hefði lengi legið á málinu o. s. frv. N. er ný á Alþingi, eins og menn vita, og fyrsta starfsárið var henni ekki ætlaður tími til fundarstarfa, með því að aðrar n. voru fyrir, sem höfðu ákveðinn fundartíma og fundar staði. Við í þessari n. vorum því lengi settir hjá með tíma og húsrými. Þá er annað: Svo einkennilega vildi til í þessari n., að tveir nm. hurfu frá störfum, hv. 4. þm. Reykv., sem var sendur til útlanda, — að vísu kom varamaður hans, og er öllum ljóst, að það raskaði starfi n., — og hv. 1. þm. Rang., sem varð að hverfa úr þinginu heim í hérað sitt vegna embættisskyldu sinnar, og varamaður hans gat ekki komið fyrr en eftir rúma viku til að gegna nefndarstörfum. Þetta hafði truflandi áhrif á störf n. Enn fremur vil ég benda á, að þessu máli, sem nú liggur hér fyrir, var útbýtt 22. sept., 1. umr. var 24. sept., og var frv. þá vísað til heilbr.- og félmn. N. hafði takmarkaðan tíma og rúm, og skilaði meiri hl. þó nál. fyrir hálfum mánuði, þann 4. þ. m., og finnst mér því, ef menn vilja taka þetta allt til greina, að n. hafi ekki legið óhæfilega á málinu. Þetta vildi ég segja sem form. n.

Að öðru leyti þarf ég ekki að fara langt út í þetta mál, þar sem flm. er nokkurn veginn ánægður með árangurinn af starfi n. og hefur jafnvel lýst yfir fylgi sínu við brtt. meiri hl. Menn fá ekki, — ekki einu sinni börnin, — allt, sem þeir óska eftir, en ef menn geta gert sig ánægða með það, sem til boða er, þá er ekki ástæða til að kvarta.

Ég hef verið með meiri hl. í þessu máli og ætla ekki að halda langa tölu um afstöðu hans, því að við höfum kosið frsm., hv. 11 landsk. Ég vil þó láta örfá orð falla um afstöðu mína til málsins.

Við komum til móts við hv. flm. með till. okkar. Við fórum þar bil beggja og tókum rök beggja til greina. Við tókum t. d. til greina þá röksemd, að það er erfitt um starf í fimm manna n., þegar kveða þarf upp úrskurði á hverjum degi og kannske oft á dag, ef skylt er, að allir fimm nm. séu viðstaddir, jafnvel þó að þeir séu allir af vilja gerðir að vinna svo samvizkusamlega sem mest má verða. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess, að þeir mæti allir, hvernig sem á stendur, hvenær sem kallað er, því allir hafa þeir öðrum skyldustörfum að gegna. Þess vegna tókum við það ráð að miða við þá úrskurði, sem veigamestir eru, en það eru þeir, sem upp eru kveðnir samkv. 5. gr., eins og hv. flm: líka játaði, að rétt væri, og þóttumst við gera skyldu okkar að útiloka engan nm. frá atkvgr. um þau mál.

Það kann að vera talsvert kappsmál fyrir stjórnarvöld Reykjavíkur að fá kostnað við þessi l. greiddan að hálfu úr ríkissjóði. Mér er tjáð af þeim, sem reikningsglöggir eru, að þessi hluti upphæðarinnar sé ekki mjög mikill, en þó einhver.

Sem sagt, ég vildi með þessum fáu orðum mínum lýsa yfir fylgi mínu við frv. með þessum breyt. og sérstaklega afsaka n., og vona ég, að hv. flm. taki þá afsökun til greina og sjái, að það var ekki að ástæðulausu, að frv. var ekki afgr. fyrr.