17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

69. mál, húsaleiga

Frsm. minni hl. (Björn F. Björnsson) :

Hv. þm. Ak. hefur tekið af mér ómakið, þar sem hann tók skýrt fram, hversu umfangsmikið það væri fyrir fimm manna n. að vinna í einu lagi allt það starf, sem henni er ætlað. Þess vegna var horfið að því ráði, sem l. heimila, að láta n. starfa í tvennu lagi, og hefur það reynzt ágætlega, eftir því sem núverandi nm. segja. Og a. m. k. fjórir þeirra eru gersamlega mótfallnir þeirri breyt., sem farið er fram á í frv., og ég hef hlerað, að einn nm. hafi látið þau orð falla, að hann mundi fara úr n., ef allir yrðu að vera viðstaddir, hvenær sem þyrfti að úrskurða eitthvað.

Annars er ég hissa á hv. flm., að hann skuli vera ánægður með afgr. meiri hl., því að hann bókstaflega umturnar öllu frv. nema því, að allir nm. skuli vera viðstaddir, þegar framkvæmt er leigunám, sem er ákaflega „óaktúelt“ og kemur sjaldan til úrskurðar.

Hv. þm. Ak. benti réttilega á, að starf n. er mjög tímafrekt. T. d. hefur form. húsaleigun. sagt mér, að suma dagana hafi orðið að kveða upp marga úrskurði, kannske upp undir 30 á einum og sama degi, og ef gera ætti öllum fimm nm. að skyldu að vera viðstaddir í hvert sinn, þá mundi það auðvitað auka mjög á glundroða um starf n. Af þessum ástæðum m. a. hefur minni hl. lagt á móti því, að frv. verði samþ.

Hitt atriðið, kostnaðurinn, er í raun og veru miklu stærra mál, úr því, sem komið er. Ég vil benda háttv. d. á, að hér er farið fram á, að ríkið taki að sér að greiða helming kostnaðar við húsaleigul. og ekkert liggur fyrir um, hversu mikill sá kostnaður muni vera. Ég vænti þess, að hv. dm. gjaldi varhuga við að samþ. slíkt, án þess að frekari skýring fylgi kostnaðinum.

Ég þarf svo ekki fleira um þetta að segja. Ég vona, að hv. þdm. hafi gert sér ljóst, hvað hér er á ferðinni.