03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætlaði ekki að taka til máls aftur í þetta skipti, en ég sé mig tilneyddan til þess vegna ummæla hv. 2. þm. Rang., sem að ýmsu leyti voru byggð á fullkomnum misskilningi. Ég vil benda á það, að það er út af fyrir sig einkennilegt, að grg. sé þýðingarlaus og gagnslaus, og um leið, að hún sé stórhættuleg, því að mér skilst, að það geti tæplega farið saman. Annaðhvort er gr. gagnslaus eða þá stórhættuleg, af því að hún hefur einhver áhrif. Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. Rang., að ég hafi verið að tala um verstu og beztu ákvæði jarðræktarl. Þannig talaði ég aldrei. Ég sagði, að til væru önnur sams konar ákvæði í öðrum l., sem ekkert væri hreyft við, en væri þó meiri ástæða til að hreyfa við, og skal ég nú benda hv. þm. á, hvernig á þessu stendur. Í 17. gr. jarðræktarl. er gert ráð fyrir því, að það verðmæti, sem ríkisstyrkur skapar í framkvæmdinni, sé metið fasteignamatsverði, og sú upphæð skapar fylgifé. Nú mun það láta nærri, að þúsund króna styrkur, sem veittur er til jarðabóta, sé metinn fasteignamatsverði á kr. 500.00, og skapar hann fylgifé, en í l. um nýbýlasjóð eru ákvæðin þannig, að allur styrkur skuli vera fylgifé, þannig að þúsund kr. styrkur samkv. þeim l. skapar þúsund kr. fylgifé, og er því fylgiféð þar í nafnverði. Þessi ákvæði eru því helmingi harðari, og finnst mér því ósamræmi af flm. þessarar till. að taka fyrir það ákvæði, sem vægara er í garð bænda, en sleppa þeim, sem harðari eru. En þennan leik hafa þeir oft leikið áður, því að þeir stóðu sjálfir að nýbýlasjóðsl. eða harðari ákvæðunum viðvíkjandi fylgifénu, en Alþflmenn og framsóknarmenn stóðu að vægari ákvæðunum, og þess vegna hefur það ekkert áróðursgildi fyrir þá að ræða um fylgifé samkvæmt nýbýlal. Ég sé því ekki ástæðu til að taka þetta eina ákvæði varðandi 17. gr. til meðferðar, meðan verið er að reyna að koma á samræmi um öll þessi ákvæði og búið er að skipa sérstaka n. til þess, og finnst mér því, að hægt sé að bíða eftir niðurstöðum þessarar mþn.