03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2148)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég verð að halda því fram enn, eins og ég hef alltaf gert, að landbúnaðurinn á Íslandi hafi getað tekið öllum þeim framförum, sem hann annars gat, þrátt fyrir ákvæði þessarar gr., og mun halda því áfram, þó að hún standi í l. Og ég endurtek það, að mér finnst það í einkennilegu ósamræmi hvað við annað að tala um það, eins og hv. þm. A.-Húnv. gerir, að 17. gr. jarðræktarl. skapi ríkinu ítak í jörðum, en halda því svo fram að hinu leytinu, að hún haldi ekkert niðri jarðaverðinu, því að ef söluverð jarða er óbreytt þrátt fyrir þessa 17. gr., eins eftir sem áður, hvar er þá þetta ítak? Það er aðeins í huga hv. þm. A.-Húnv. og sálufélaga hans. Og ef greinin er áhrifalaus og gagnslaus, þá er hún líka meinlaus, eftir því sem þeir skoða það, sem á móti henni mæla, því að það, sem er alveg áhrifalaust, hlýtur þá líka að vera meinlaust. Og svo að ég taki dæmið af mæðiveikirollunni, þá hygg ég, að hálfdauð mæðiveikirolla þyki nú fremur skaðlaus og hættulaus vera, og ef hv. þm. vill líkja 17. gr. við slíka skepnu, þá er það ekki til annars en að sanna mitt mál. En að hann og flokkur hans hafi fylgt sams konar ákvæðum sem eru í 17. gr. jarðræktarl. í sambandi við löggjöf um nýbýlamál aðeins til samkomulags, til þess að það mál næði fram að ganga, því vil ég svara þannig, að þegar þau síðast greindu l. voru samþ., — og það veit hv. þm. A.-Húnv. vel, — þá gátu framsóknarmenn og Alþflmenn ráðið því, sem þeir vildu á Alþ., og gerðu það, og þeir hefðu komið þessu ákvæði í nýbýlal. fram jafnt fyrir því, hvort sjálfstæðismenn hefðu verið með því eða ekki. Það var svo langt frá því, að þetta væri gert til samkomulags, að það stóðu allir flokkar að því án ágreinings. Og ég man ekki betur en að hér í þingskjölum um það mál, sem hv. 2. þm. Skagf. hefur flutt, hafi frá upphafi vega verið þetta fylgifjárákvæði. Sést því á þessu, hvílíkt ósamræmi er hér á milli hjá þessum mönnum, sem halda því fram, að afnema beri 17. gr. jarðræktarl. Það sýnir ekki annað en tvöfeldni og tvískinnung í málflutningi að standa í hörðum deilum um að halda því fram, að fella beri niður ákvæði úr l., sem þeir sömu menn, er gera það, vilja hafa alveg sams konar í öðrum l. Þeir tala aldrei um það, þessir menn, en rífast í sífellu út af þessu ákvæði í jarðræktarl., þó að það sé miklu meinlausara en sams konar ákvæði í nýbýlal.