03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

110. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti: Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég hef haft dálítið gaman af því, síðan þetta ákvæði var sett í jarðræktarl., að veita því athygli, hvernig sú hugsun, sem í ákvæði 17. gr. felst, að ekki megi leggja vaxtabyrði á framtíðina vegna þeirra umbóta, sem það opinbera veitir styrk til, hefur seitlað inn í önnur l. hér á landi hjá þeim mönnum, sem telja sig andvíga þessu ákvæði í 17. gr. jarðræktarl. Sömu mennirnir, sem stangast eins og naut í flagi gegn ákvæðum 17. gr. jarðræktarl., þeir taka alveg þegjandi og hljóðalaust ákvæði með nákvæmlega sömu hugsun inn í heilan hóp af öðrum l. Og það er ekki lengra síðan en svo, að það var í gær, að ákvæði var tekið inn í hafnarl. Siglufjarðar, sem byggt er á nákvæmlega sömu hugsun og þetta ákvæði 17. gr. jarðræktarl. Þar er ákveðið, að kaupi bærinn landið, sem skapast við uppfyllinguna, þá megi ekki selja þá verðhækkun þess, sem verður fyrir styrk úr ríkis- eða bæjarsjóði. En enn þá er 17. gr. jarðræktarl. þyrnir í þeirra augum. Þetta sýnir manni, hvernig menn smám saman verða fyrir áhrifum án þess að gera sér það sjálfir ljóst. Þessir menn eru búnir í mörgum tilfellum að fallast á þessa hugsun, en þeir mega bara ekki heyra hana nefnda í jarðræktarl. Þetta er einmitt leiðin, sem margar nýjungar og mörg framfaramál fara, bæði hér á landi og annars staðar, að staðið er á móti þeim í þeirri mynd, sem þau fyrst koma fram, en menn sannfærast svo um gildi þessara nýjunga og framkvæma þær í allteinum hliðarálmum í öðrum málum, en bara viðurkenna hana ekki í sambandi við málið, sem hún kom fyrst fram í. Og þetta er það, sem hér hefur gerzt. Og ég vil vænta þess, að einhverjir af þessum mönnum, sem stangast við 17. gr. jarðræktarl., renni augunum svolítið til hliðar og sjái, að þeir eru á ýmsum hliðargötum á sömu stefnu, sem í 17. gr. jarðræktarl. er, og komnir þar langt fram fyrir ákvæði 17. gr. á þeirri sömu leið, eins og t. d. í nýbýlal., ákvæðunum um endurbyggingarstyrki o. fl.