03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2150)

110. mál, jarðræktarlög

Ingólfur Jónsson:

Það hefði kannske verið ástæða til að taka til máls út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði, en ég hefði líklega hliðrað mér hjá því, ef hv. þm. N.-M. hefði ekki staðið hér upp. Hann talaði um, að þeir, sem vildu ryðja burt 17. gr. jarðræktarl., væru komnir inn á sömu hugsun og í þessari 17. gr. felst með því að samþ. önnur l., sem fælu eitthvað svipað í sér, svo sem eins og hafnarlög Siglufjarðarkaupstaðar. En ég held, að hér sé mjög ólíku saman að jafna. Og ég held, að ég hafi gert grein fyrir því hér, hvers vegna ég og aðrir, sem að þessu frv. stöndum, viljum fá þessa gr. burt numda úr l., og það er vegna þess, — og það er aðalatriðið fyrir okkur, — að þessi gr. hefur verið dragbítur á jarðræktarframkvæmdir í landinu. Og hv. 2. þm. N.-M., sem er kosinn af bændum á þing, er ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og hefur oft komið þannig fram, að það er ástæða til að halda, að hann sé vinveittur bændum, það skal viðurkennt, — hann ætti að hafa gert sér það ljóst, hvað hér er að gerast. Er það ekki hugsunin hjá honum, að það sé nauðsynlegt að rækta sem mest af landinu? Og hefur hann ekki oft sagt hér í hv. þd., að nauðsynlegt sé, að fólkinu fjölgi í sveitinni? En hvernig má það ske? Verður það með því að drepa niður áhuga bænda á að rækta landið? Eða er það hægt með því að setja löggjöfina þannig, að það verði ýtt undir það, að landið verði ræktað? Ég hef haldið það. En 17. gr. jarðræktarl. hefur dregið úr áhuga margra manna á að rækta landið. Það er staðreynd. Og ég get nefnt nöfn nokkuð margra núverandi bænda, sem hafa beinlínis hætt að rækta landið á þann hátt að stækka túnin eða hætt að láta taka út jarðabætur vegna þessarar gr. jarðræktarl. Ég verð að telja, að þetta sé háski fyrir ræktunarframkvæmdir í landinu, og mér þykir leitt, að hv. 2. þm. N.-M., eins og margir aðrir hv. framsóknarþm., skuli stangast svo við staðreyndir sem hann gerir í þessu máli, því að hv. 2. þm. N.-M. vill á margan hátt vinna að heill landsins og framkvæmdum á þessum sviðum. Hvers vegna vilja framsóknarmenn nú ekki, þegar þessi staðreynd liggur fyrir, að 17. gr. dregur úr áhuga manna á jarðræktarframkvæmdum, taka þá afstöðu eins og hv. 2. þm. Skagf. að fylgja þessu máli, sem hér liggur fyrir, og sparka þessu ákvæði 17. gr. jarðræktarl. út, þegar sýnt er, að það er ekki til neins gagns, heldur aðeins tjóns.

Ég ætla ekki að svara hv. þm. Mýr., þó hann hafi snúið nokkuð út úr því, sem ég sagði áðan, þegar hann sagði, að ég teldi, að 17. greinin væri áhrifalaus og gagnslaus, en þó skaðleg. Hún er reyndar gagnslaus, af því að hún hefur ekki náð tilgangi þeim, sem hún átti að ná og talsmenn þessarar gr. héldu fram í upphafi, að hún mundi ná. En hún er ekki áhrifalaus, og ég sagði það heldur aldrei, og þess vegna stend ég að flutningi þessa frv. Og ég vil ekki, að það sé dregið, að þetta ákvæði verði burtu fellt.