10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2157)

146. mál, vegalög

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, er flutt eftir beiðni nokkurra oddvita. Ég var á s. l. sumri beðinn af tveimur oddvitum að hreyfa þessu máli hér. Í sjálfu sér var ég nú ekki alls kostar viss um, hversu réttmætt málið væri. Ég er yfirleitt heldur frekar með því, að skattar séu lagðir öðruvísi á en sem nefskattar. Þess vegna var það, að ég skrifaði mörgum oddvitum í fleiri sýslum og sagði þeim frá þessum beiðnum, sem hefðu komið frá tveimur oddvitum, og ég vildi fá álit þeirra um þetta mál. En beiðnin var um heimild til þess að mega hækka það hreppavegagjald, sem fyrir nokkru var 3 kr., en er nokkru hærra nú, þannig að hækkunin yrði upp í það, að hver verkfær karlmaður á tilskildum aldri skyldi greiða þetta gjald með dagsverki. Sumir oddvitanna, sem ég skrifaði, vildu þetta. Aðrir vildu, að hámarkið hækkaði dálítið, og tiltóku það hámark, sem hreppsnefndin mætti fara upp í, allt upp undir dagsverk eða 50 kr. Út af þessum fyrirspurnum mínum komst ég að þeirri niðurstöðu, að velflestir oddvitanna vildu hækka þetta nokkuð og vildu fá leyfi til þess. En þörfin fyrir þetta gjald er mjög misjöfn, og geri ég ráð fyrir, að það hafi haft áhrif á svör oddvitanna við fyrirspurn minni. Sumir þeirra vildu, að þeir mættu miða við, að þetta gjald væri ekki langt fyrir neðan dagsverk, svo að það væri sem næst því, sem var í gamla daga, en þá var það dagsverk, sem menn unnu af sér. En það sjá allir, að ef þetta gjald á að vera aðaluppistaðan i lagningu hreppavega, þá hrekkur þriggja króna gjald ekki neitt og ekki heldur, þó að leyft sé að fara eitthvað ofurlítið hærra, eins og nú er í l. Það mun meira að segja hrökkva skammt til þess það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En ég vildi ekki fara inn á hitt að láta þetta gjald vera dagsverk alls staðar, af því að það hagar sums staðar svo til, sérstaklega í hreppum, sem bæði eru í sveit og sjávarþorpi, að það er óheppilegt fyrir menn, sem stunda fasta atvinnu, að þurfa að fara frá henni til þess að vinna af sér þetta eina dagsverk. Og vildi ég því heimila hreppsnefndum að ákveða fyrir eitt ár í senn, að hreppavegagjald megi vera hærra — eða allt að 40 kr. fyrir hvern verkfæran karlmann.

Ég legg til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. samgmn. Og ég óska að fá að skýra þeirri hv. n. nákvæmlega frá áliti ýmissa oddvita á landinu um þetta atriði, bæði hvers einstaks og allra í heild, sem mér hafa skrifað, það, hvernig hreppsnefndir líta á þetta mál.