27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

68. mál, jarðræktarlög

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Vegna þess að svo ýtarleg grg. fylgir frv. þessu, þarf ég ekki að bæta löngu máli við hana.

Áður en ég vík að efni frv. í heild, vil ég benda á tvær prentvillur, sem ég hef rekizt á.

Í 1. gr. er talað um, að greinarnar séu átta, en þær eru ekki nema sjö. Í f-lið 1. gr. stendur: „en greiða skal upphæðina í búnaðarsambandið“, en á að vera: í því búnaðarsambandi . . .

Þetta frv. ber að líta á sem framhald þess verks, sem er hafið til þess að hrinda jarðræktarmálum landsins áfram. Við miðum breytinguna við málin eins og þau nú eru komin. Ég lít svo á, að með þessu sé verið að samræma jarðræktarmálin því ástandi, sem nú ríkir, eins og þau upphaflega voru miðuð við það ástand, sem var í landinu, þá er þau voru sett.

Það má segja, að almennur áhugi á umbótum í framleiðsluháttum sé nú ríkjandi í landinu. Nefndir þær, sem Alþingi hefur skipað til að athuga atvinnuvegi landsins, ættu að benda á, að á Alþingi sé vaknaður skilningur á þessum málum.

Sennilega er flestum ljóst, að í atvinnulífinu þurfa að fara fram stórfelldar breytingar, ef atvinnugreinarnar eiga að verða lífvænlegar til frambúðar. Mér hefur talizt svo til, að í flestum greinum atvinnulífsins séu nú starfandi nefndir nema þá í iðnaðinum. Þá má taka það fram, að sumt, sem snertir íslenzkt atvinnulíf, er þannig, að ekki er þörf verulegra rannsókna í sambandi við það. En þá skiptir og miklu, að þar verði hafizt handa um framkvæmdir, jafnskjótt og tími og ástæður leyfa. Má líka búast við, að uppskeran af starfi nefndanna verði misjöfn.

Í þessu efni skiptir það miklu að hafa góð tök á því verkefni, sem nú liggur fyrir og ljóst er að þarf að framkvæma tafarlaust.

Það liggur í augum uppi, að einhverjar nauðsynlegustu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi eru þær að gera slægjulöndin bjarghæf. Eru færð nokkur rök að því í grg., og ætla ég, að þeim hv. þm., sem gefa íslenzku atvinnulífi nokkurn gaum, liggi í augum uppi, hve brýn nauðsyn er framkvæmda á þessu sviði. Ég rökstyð þetta ekki frekar, en geri ráð fyrir, að þetta sé ekki umdeilt atriði. Þó get ég bætt því við, að nú sem stendur eiga sér stað talsverðar deilur milli verkamanna og bænda um kaupgjald og verðlag. Ég geri ráð fyrir, að þær deilur séu til orðnar vegna þess annarlega ástands, sem nú ríkir í heiminum. Þó álít ég, að það sé ekki nema að nokkru leyti, því að þótt gera megi ráð fyrir, að úr þeim deilum dragi, þá geri ég mér ekki vonir um, að þær jafnist að fullu og öllu, nema með því móti, að við framleiðslu íslenzkra landbúnaðarvara verði notuð hin fullkomnasta tækni, sem heimurinn nú ræður yfir.

Það hlýtur alltaf að vekja athygli neytenda, þegar landbúnaðarvörur eru í boði, að vörur, sem framleiddar eru erlendis með nýtízku tækjum, eru með allt öðru og lægra verði en þarf að greiða fyrir vörur, sem eru framleiddar með gömlum vinnuaðferðum.

Ég geri ekki ráð fyrir, að um það verði deilt, að nauðsyn beri til að gera þessar framkvæmdir og þær séu einna nauðsynlegastar af öllum framkvæmdum í íslenzku atvinnulífi. En hitt gætu orðið deilur um, hvernig á að ná þessu marki, að gera öll slægjulönd véltæk.

Fyrst er nú það, að það er vitanlega umdeilt mál meðal jarðræktarmanna, hve mikið eigi að nota vélknúin tæki og hve mikið hesta við jarðrækt. Ég held samt sem áður, að ef gera á mikið átak á þessu sviði, að gera tún og engi véltæk, á ekki lengri tíma en tíu árum og miklu skemmri tíma þar, sem aðstæður eru góðar, þá verði að nota til þess þau fullkomnustu tæki, sem völ er á, sérstaklega vegna þess, að með þeim hætti verða allar framkvæmdir miklu ódýrari en ef þær eru gerðar með hestum, og í annan stað vegna þess, að vélar eru að verða með hverju ári og jafnvel hverjum mánuði fljótvirkari en áður, og í þriðja lagi vegna þess, að þær eru með hverjum mánuði, sem líður, að verða ódýrari í rekstri. Ég held því, að tæplega verði um það deilt, þegar allt kemur til alls, að þessar miklu framkvæmdir á að gera með vélum, enda er ætlazt til þess í frv., að Búnaðarfélag Íslands annist útvegun véla til þessara framkvæmda og að búnaðarsamböndin annist framkvæmdirnar fyrir stór svæði, þar sem vélanna verður mest not, enda er það skilyrði sett fyrir þessum framkvæmdum, að búnaðarfélögin slái sér saman og myndi þannig heil jarðræktarsvæði þar, sem nægileg verkefni eru fyrir vélarnar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að um þetta verði deilt, svo að ég þurfi að rökstyðja það nánar, en ég hef tiltæk að mínu áliti fyllstu rök fyrir því, að það eru vélknúnu tækin, sem á að nota við þetta mikla átak, en ég geri ekki ráð fyrir, að færa þurfi þau fram, af því að þetta sé ekki umdeilt mál. Vélar eins og þær, sem tiltækilegastar þykja til þessara framkvæmda, hafa verið notaðar á einum eða tveimur stöðum á Suðurlandi og byrjað að nota þær víðar nú allra síðustu dagana. En þær eru, eins og gefur að skilja, alldýrar, þó að vélar, sem afkasta næstum því óskiljanlega miklu verki, kosti að vísu ekki meira en dýrasti lúxusbíll. En þótt þær kosti ekki nema nokkra tugi þúsunda, þá er auðsætt mál, að með þeim verður ekki unnið að jarðrækt, nema félagsræktun sé.

Það næsta, sem við verðum að gera okkur ljóst, er því það, að til þess að geta komið þessu í framkvæmd á svo stuttum tíma sem gert er ráð fyrir, verður að koma á félagsræktun. Það er útilokað, að þessi fullkomnu tæki verði notuð almennt hér á landi, nema bændum sé gefinn kostur á að nota þau í félagsræktun.

Þá er þriðja atriðið, sem kynni að geta valdið ágreiningi, en ég geri mér þó vonir um, að verði ekki, en það er styrkur ríkisins til þessara framkvæmda. Eins og hv. dm. muna, er þar ekki stórvægileg breyt. frá því, sem er í núgildandi löggjöf. Ég fer við þessar umr. ekki nánar inn á það, en vil benda hv. þm. á, að ef þeir bera saman ákvæði til bráðabirgða í núgildandi jarðræktarl. og þau ákvæði um styrk, sem felast í þessu frv., munu þeir sjá, að breyt. er að vísu nokkur, en þó ekki eins mikil og menn kunna að álíta við fyrstu sýn. Þó ber ekki að draga dul á, að útgjöld til þessara framkvæmda mundu stórhækka á næstu árum, því að gera má ráð fyrir, ef frv. verður að l., að þá muni jarðræktarframkvæmdir stóraukast og útgjöld vaxa að mun af þeim sökum.

Viðvíkjandi því atriði, sem stundum heyrist talað um, að ekki sé rétt að gera öllum jörðum á landinu jafnt til góða um ræktun á túni og engi, þá vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að með þessu frv. er tryggt, að þessi styrkur verður ekki veittur til endurbóta á þeim jörðum, sem eru þannig í sveit settar eða úr garði gerðar, að þær að áliti trúnaðarmanns Búnaðarfélags Íslands eru ekki til þess hæfar að verða býli til frambúðar. Þessi rannsókn hefur ef til vill aldrei verið gerð nógu rækilega, en með því að nú á að liggja fyrir mæling á túnum og engjum, hvar hægt sé að gera tún, hversu mikið þurfi að ræsa, hvað mikið að slétta og yfirleitt hvað mikið þurfi að gera til þess að jörðin geti talizt sæmilegt býli að öðru leyti, má gera ráð fyrir, að þetta verði sérstaklega rannsakað. Ákvæði um þetta eru nú í jarðræktarl., óg það er vísað til þeirra í þessu frv. og gert ráð fyrir, að þessar jarðir, sem eru ekki álitnar býli til frambúðar, eftir að sú rannsókn, sem gerð verður, hefur farið fram, fái ekki þann styrk, sem um ræðir í þessum l. Að gera þannig véltæk öll tún og engi á landinu er fyrsta atriðið til þess að koma okkur af beinu frumstigi og sú framkvæmd, sem nauðsynlegra er að gera en flest annað, sem framkvæma þarf á þessu landi. En með því, að ekki verða styrktar þær jarðir, sem geta ekki talizt framtíðarbýli, þá á jafnframt að vera tryggt, að þeim fjármunum, sem til þessa er varið, sé ekki illa varið.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér á Alþingi. Okkur, sem flytjum frv., er ljóst, að ákaflega mörg atriði atvinnulífsins bíða úrlausnar og í íslenzkum landbúnaði eru fjölda mörg aðkallandi. mál. Við vitum, að það bíða stórkostleg verkefni við endurbætur kvikfjárstofnsins og ekki minna verk við endurbætur á jurtagróðri landsins og nytjajurtum, sem bændur rækta. Þá eru íslenzkar jarðvegsrannsóknir, þar sem gera verður stórkostlegt átak fyrir íslenzkan landbúnað. En þetta er sú framkvæmd, sem við flm., — og ég vænti einnig aðrir alþm., — álítum mest aðkallandi fyrir íslenzkan landbúnað, því að hún er undirstaða undir öðru, undirstaða, sem alls ekki má bíða, að byggð verði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál nánar, en vona, að þessu máli verði vel tekið. Og ég er ekki í neinum vafa um, að ef þetta frv. verður að l. og skynsamlega er haldið á þessari framkvæmd, þá veldur hún aldahvörfum í íslenzkum landbúnaði, því að við þurfum ekki annað en fara um þetta land og sjá unnið með þeim tvenns konar vinnuaðferðum, þeirri nýtízku vinnuaðferð, sem fylgir véltækum slægjulöndum, og hins vegar þeim, sem fylgja þýfinu. Við þurfum ekki annað en líta á það án þess að vera kunnáttumenn til þess að skilja, hverju máli skiptir fyrir íslenzkan landbúnað, að þessi framkvæmd verði gerð, og hvaða máli það skiptir fyrir þjóðina í heild, að sú nauðsynjavara, sem íslenzkur landbúnaður framleiðir, — en hann framleiðir margar af helztu nauðsynjavörum fólksins í landinu, — sé framleidd með þeim vinnuaðferðum, sem eru hraðvirkastar og ódýrastar.