27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

68. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Eins og þetta frv. liggur fyrir, þá er frá mínu sjónarmiði ekki ástæða til annars en taka því vel að mörgu leyti. Samt eru ýmis atriði, sem þyrfti að rannsaka betur. Skal ég ekki mjög orðlengja um það, því að ég býst við, að það komi til n., sem ég er í.

Hv. 1. flm. gat þess, að taldar væru of margar gr. í frv. Ég held, að samkomulag gæti orðið um að bæta þessari gr. við, áður en málið færi úr d. Þetta er kannske forboði þess, að þessari gr. verði bætt við, og ég vona, að hv. 1. flm. taki henni þá vel. (HermJ: Ef það er góð gr.). Ég býst við, að þar sem það er lofuð gr. frá hv. þm. á fundum úti um land, þá sé hún góð, því að hún verður niðurfelling 17. gr. jarðræktarl.

Ég vil geta þess, að ég tel, að heppilegt hefði verið í þessu frv. að taka 9. gr. jarðræktarl. fyrir og breyta henni, eftir því sem ástæða hefði þótt til, en hún fjallar um, hvaða styrk skuli veita fyrir hverjar framkvæmdir. Ég sakna t. d. þess, að ekki skuli hafa verið hækkaður styrkur til framræslu, en það er eitt höfuðskilyrði fyrir túnrækt, að hún sé rækilega gerð, og víða eru sorgleg dæmi þess, hvernig farið hefur, þegar ekki hefur verið ræst nóg, enda hefur búnaðarþing lagt höfuðáherzlu á, að sem bezt væri frá henni gengið. Hefur það verið játað með því að styrkja hana ríflega, og ég held, að það hlutfall hefði átt að haldast.

Hér er talað um, að hækka megi styrk til alls konar þúfnasléttunar innan túns og utan, en aftur skilst mér, að aðeins eigi að hækka styrk til. nýræktar utan túns. (HermJ: Nei, það er ekki rétt). Það stendur í 3. lið: „Fyrir nýrækt í túni“, — en ekki talað um nýrækt utan túns, en eins og 9. gr. ber með sér, er ekki sami styrkur á nýrækt í túni og utan túns. Þetta krefst athugunar, því að á það má benda, að ef tún eru lítil og grýtt og erfið til vinnslu, þá getur verið heppilegra, að styrkurinn gangi til að rækta annars staðar, þar sem skilyrði eru betri, en fella hitt niður, þar sem við alls konar erfiðleika væri að stríða, svo sem grjótnám. Ég tel mest um vert, að styrkurinn til vélakaupa er mjög aukinn, og vil hækka hann jafnvel enn meira, því að ég held, að það, sem mest sé áríðandi á þessum tímum, sé, að þeir, sem vilja vinna að jarðabótum, fái ódýrari og hentugri vélar til jarðabótanna.

Ég vildi í upphafi aðeins benda á þessi atriði, sem þarf að athuga, en þar sem ég hef tækifæri til að athuga þetta í n., þá mun ég geyma mér það þangað til síðar. En eins og ég sagði áðan, þá held ég, að greinilegast hefði verið að breyta hverjum lið, sem hefði þurft að breyta í 9. gr. jarðræktarl., en það kemur til athugunar hjá n.