27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

68. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Mér virðist þetta frv., sem hér liggur fyrir, vera merkilegt að ýmsu leyti, og það eru ákveðin atriði í því, sem ég er fullkomlega sammála, og einnig því, sem hv. 1. fim. sagði um þau. Ég er honum sammála um, að að því beri að stefna, að öll slægjulönd verði véltæk, svo að hægt sé að reka búskapinn með því sniði, að vænta megi meiri afraksturs af vinnunni en nú. Ég er honum einnig sammála um, að þessari breyt. eigi að koma á með nýtízku aðferðum og hentugum og viðeigandi vélum. Ég er líka sammála því, sem fram kemur í frv. um það, að rétt sé að hverfa, a. m. k. að verulegu leyti, frá því fyrirkomulagi í jarðræktarmálunum, að hver einstaklingur, sem hefur umráð yfir jörð og ræður að mestu sjálfur sínum jarðabótum, eigi kröfu til ríkisstyrks á eftir, eins og er eftir gildandi l. Ég er sammála því, sem fram kemur í frv. um, að rétt sé að hverfa frá þessu fyrirkomulagi.

Það er ekki til neins að neita því, eins og tekið er fram í grg., að þótt mikið hafi á unnizt, þá hafa talsverð mistök átt sér stað í framkvæmd ræktunarmálanna. Mér er ekki grunlaust um, að talsvert af þeim styrk, sem hér um ræðir, muni fara til að rækta upp á ný það, sem búið er að rækta og styrkur hefur verið greiddur á. Ég er sammála, að það eigi að hverfa frá þessu og taka annað fyrirkomulag upp, vegna þess fyrst og fremst, að það er bersýnilega hverjum einstaklingi um megn að eignast þær vélar, sem hentugast er að nota til þessara framkvæmda.

Mér virðist, að samkvæmt frv. sé gert ráð fyrir, að um eins konar millileið verði að ræða, framlag ríkisins verði aukið mjög frá því, sem nú er, og horfið frá, að hver einstaklingur fyrir sig hafi framkvæmdirnar með höndum, heldur verði höfð sú aðferð, að verkið sé unnið af búnaðarsamböndunum og þeim greiddur styrkurinn upp í kostnaðinn, en að sjálfsögðu með framlagi frá þeim, sem verksins eiga að njóta.

Það hefði verið æskilegt, að gerð hefði verið grein fyrir því, hve miklar framkvæmdir hér væri um að ræða og hve mikið fé ætla mætti, að ríkissjóður þyrfti að leggja fram, til þess að þessari tíu ára áætlun yrði fullnægt, svo og því, hve mikill hluti kostnaðarins við þessar ræktunarframkvæmdir muni falla á umráðamenn landsins. Það er nauðsynlegt, að öll þessi vitneskja sé fyrir hendi, áður en Alþ. getur afgreitt það mál til fulls. Í c-lið 1. gr. frv., sem verður 61. gr. l., ef frv. verður samþ., er gert ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands skuli, eftir að búnaðarsambönd eða hreppabúnaðarfélög hafa sett sér ræktunarsamþykktir, láta fram fara ýmsar mælingar og athuganir viðvíkjandi því, hve miklar þær framkvæmdir muni vera, sem hér er um að ræða. En það virðist stórum æskilegra, að slík vitneskja hefði legið fyrir, um leið og frv. var lagt fram, enda eru mörg þessara atriða þess eðlis, að hægt hefði verið að afla upplýsinga um þau fyrir fram.

Um hitt atriðið, hversu miklum hluta af kostnaðinum styrkur ríkissjóðs skuli nema, eru engar upplýsingar í grg., og í ræðu hv. frsm. kom ekki heldur neitt fram um þetta. Einmitt í sambandi við þá nýskipun, sem hér er gert ráð fyrir, er þetta stórvægilegt atriði. Þegar slíkar upplýsingar væru fyrir hendi og þegar vitað væri, hve miklu styrkurinn á að nema og hve mikill hlutur umráðamanna landsins verður, er frekar hægt að skera úr um það, hvort ekki sé athugandi, að hið opinbera sjái um þessar framkvæmdir og eigi sjálft vélarnar og tækin. Það liggur í augum uppi, að því minna sem framlag umráðandans er hlutfallslega eða því meira sem hið opinbera leggur fram, því meiri er ástæðan til þess, að það hafi framkvæmdirnar með höndum. Af því að ekki er upplýst, hversu mikið verkefni er óleyst og hvað það kostar hlutaðeigendur, er ekki unnt að gera sér grein fyrir því, hver baggi ríkissjóði er bundinn með þessum l.

Mér skildist á hv. frsm., að það væri ekki ætlun flm., að styrkur yrði veittur, ef líkur þættu til, að hlutaðeigandi býli yrði lagt niður á næstunni. Hins vegar sé ég, að hér í 1. gr. frv. stendur, að þegar búnaðarsamband hafi hafið slíka starfsemi, þá skuli hver félagsmaður á sambandssvæðinu eiga kröfu á sambandið um að fá gert á býli sínu véltækt heyskaparland á næstu tíu árum, sem ætla megi, að gefi af sér heyfeng, sem jafngildi heyjum þeim, er aflað hefur verið á jörðinni að meðaltali síðustu tíu árin, þó ekki yfir 500 hestburði hvert býli. Í þessu sambandi sýnist mér vera nokkurt ósamræmi.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel hér vera um mjög mikils vert mál að ræða, og ég vil taka undir það, sem hv. frsm. sagði, að umbætur á búnaðarháttum eru ekki aðeins mál bænda, heldur og allrar þjóðarinnar, ef þær mættu verða til þess, að framleiðsluvörur landbúnaðarins yrðu fjölbreyttari og ódýrari en nú er. En hins vegar má ekki loka augunum fyrir því, og er rétt, að það komi fram í umr. um málið, að þegar farið er fram á slíkar viðbætur við önnur framlög bændum til handa, má ætla, að aðrar stéttir komi þá einnig fram með kröfurnar um hliðstætt öryggi.

Mér þykir að lokum rétt að benda á nauðsyn þess að vanda sem bezt til alls undirbúnings, áður en málið verður afgreitt, svo merkilegt sem þetta mál verður að teljast.