13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2179)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Ég er sammála frsm. meiri hl. um það og kannske það eitt, að það sé hálfgerður hégómi að vera að ræða þetta frv., þegar svo er komið, að þinglausnir verða nú í vikunni og frv. er búið að liggja fyrir Alþingi á þriðja mánuð. Þegar svo er litið á það, á hvaða tíma sólarhringsins við erum hér, og að maður ekki nefni, þegar litið er yfir stóla þm., þá er ég á sama máli, að ekki eigi að vera að ræða þetta mál hér.

Það er vitað, að ræktun landsins er talsvert atvinnu- og fjárhagsmál, og þess vegna á að ræða um hana sem alvörumál.

Ég vildi aðeins segja örfá orð og í öðru lagi gera örfáar athugasemdir.

Bændum er nú augljóst orðið, að gömlu heyvinnuaðferðirnar eru orðnar það úreltar, að þær eiga varla langa lífdaga úr þessu. Erfiðleikarnir á að fá fólk og afköstin hafa sannfært bændur um þetta, ef þeir hafa ekki vitað það áður. Það er augljóst, að ef við viljum leggja rækt við landbúnaðinn, verður að koma breyting á heyvinnuaðferðirnar, þannig að mannsaflið, sem knýr orf og hrífu, verður að hverfa og í staðinn að koma ræktað land og vélar. Ég býst ekki við, að neinn búist við eða vilji, að forsvaranleg laun og atvinna fáist með reitingsheyskap með gömlu aðferðinni í framtíðinni. Það verður að búa svo um að bændur beri sómasamlegan hlut frá borði og fái sómasamlegt verð fyrir afurðir sínar.

Af því að ég hef talað um þetta áður, að ekki væri forsvaranlegt að halda áfram umræðum, af þeim ástæðum, sem ég nefndi, læt ég þetta nægja til viðbótar nál.

Ég býst við, að samnm. minn geri athugasemd frá eigin brjósti, ef honum finnst eitthvað falla niður.

Í nál. meiri hl. er drepið á það, að skoðun Búnaðarfél. Íslands sé sú, að þetta frv. sé ótímabært, og er vísað í bréf frá félaginu til Alþingis. En í þessu bréfi er hvergi minnzt á slíkt, og er þetta rangfærsla. Þá er í nál. meiri hl. talað um þær föstu skorður, sem jarðræktin er sett í með frv. Mér finnst þær föstu skorður ekkert óskaplegar, þótt við eigum að ganga saman við ræktun landsins. Ég held, að ræktunarstarfið hér sé félagsstarf. Ég veit ekki til, að menn fái greiddan styrk nema vera í búnaðarfélagi.

Ég vil minnast hér á eitt mjög mikilsvert atriði, en það er áburðarþörf og áburðarnotkun. Á það má benda, að nýrækt hér á landi byggist á tilbúnum áburði. Sá áburður, sem til fellst, mun nægja til að halda ræktaða landinu við, en ekki til að gera nýrækt.

Það á að vera ljóst, að það er tvennt ólíkt að gera land véltækt eða gera ræktað land. Ræktun er að láta vaxa þrjú, fjögur, fimm strá þar, sem áður óx eitt. Ræktun er að láta vaxa nytjajurtir í stað illgresis eða annarra óræktargrasa.

Þá er sagt, að ræktunarstarfið eigi að hefjast þegar öllum undirbúningi er lokið. Þetta er rangt. Ræktunarframkvæmdirnar þurfa að hefjast, þegar undirbúningi er lokið á hverju býli. Það má ganga út frá því sem vísu, að menn séu misfljótir að hefjast handa.

Það var sagt í útvarpinu, að eitt sveitarfélag (Suðursveit) hefði í haust bundizt samtökum um, að á hverju býli yrði komið upp 400 hesta túni á sjö árum. Þeir eru fljótari, en setja markið lægra. Þetta sýnir okkur hug fólksins úti á landsbyggðinni. Það skilur þörfina.

Ég held ég geti ekki verið að teygja tímann lengur með því að ræða mál þetta. Ég bíð umsagnar búnaðarþings. Ég álít, að það ætti að færa sig í áttina til þessa frv. Nú hefur stjórn Búnaðarfélagsins treyst sér til að láta uppi álit félagsins án þess að hafa lagt málið fyrir búnaðarþing. Mér finnst þetta mál ætti frekar að heita mál frsm. en n. Ég veit, að hinir nm. höfðu aðrar skoðanir um ýmislegt og sitt hvað að athuga. Ég tel, að hægt verði að leggja þetta frv. lítið breytt fyrir hvert Alþingi, sem saman kemur. Það hefur enga sérstaka þýðingu þótt því verði vísað frá nú með rökstuddri dagskrá, en það getur haft þýðingu fyrir næsta þing. Það sýnir, hvern hug þm. bera til frv.