13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2180)

68. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að það hefði enga þýðingu fyrir málið, þótt því væri vikið frá nú, og er ég þar á allt öðru máli.

Þá vildi sami hv. þm. telja það ofmælt, að Búnaðarfélagið teldi frv. ótímabært, og benti á bréf þess því til sönnunar. En hann gekk fram hjá miðkaflanum. Búnaðarfélagið telur, að rannsókninni geti ekki orðið lokið á skemmri tíma en þrem árum og ynnu þann tíma 20 sérfróðir menn að henni. Og það segir enn fremur, að ai því að undirbúning skorti, sé ekki hægt að gera kostnaðaráætlun um ræktunarframkvæmdir. Það ætti því að vera nær að snúa sér að því að gera áætlun um undirbúning rannsóknanna.

Það er athyglisvert, hvað Búnaðarfélagið álítur, að þetta þurfi mikinn undirbúning og mikla rannsókn. Ég hefði ekki haldið, að það væri nærri því eins mikil vinna og það áætlar.

Það er gert ráð fyrir að styrkja þúfnasléttun með 4–500 kr. á ha. auk verðlagsuppbótar. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarfélaginu kostar þúfnasléttun nú 1244 kr. á ha. Það er hér um bil jafnt því, sem gert er ráð fyrir, að styrkurinn verði samkv. frv. Nú er gert ráð fyrir í frv., að fengnar verði vélar, sem geri ræktunina miklum mun ódýrari en nú, svo að kostnaður verði jafnvel ekki nema helmingur eða 2/3 af því, sem hann er nú. Sé gert ráð fyrir, að hann verði um 2/3 eða um 800 kr. á ha., þá verður sá styrkur, sem gert er ráð fyrir í frv., um 50% hærri en ræktunin kostar. Ég álít, að ekki sé nokkurt vit í að láta sér detta í hug að ákveða styrkupphæðina, fyrr en rannsakað er, hversu dýr ræktunin verður með þeim vélum, sem er megintilgangur frv. að tryggja, að notaðar verði.

Ég hef bent á þessi tvö atriði, því að það eru meginatriði í sambandi við afgr. málsins nú. Þetta þarf að liggja skýrar fyrir, áður en frv. verður samþ. Rökst. dagskráin hnígur í þá átt, að ríkisstj. hlutist til um, að Búnaðarfélag Íslands hefji þessa undirbúningsrannsókn og byrji að athuga, hvort hægt sé að fá þessar vélar til landsins, rannsaki, hvaða vélar séu heppilegastar og hvað kosti að vinna með þeim, en fyrr en það liggur fyrir, er engin meining að ákveða styrkupphæðina. Þessi tvö atriði eru meginefni dagskrárinnar. Meiri hl. telur ekki tímabært að afgr. málið eins og sakir standa, en þykir ástæða til að hvetja stj. til að láta þegar hefja undirbúningsrannsókn í þessu máli og tryggja, að stórvirkar vélar komi til landsins, rannsaka nothæfi þeirra og æfa menn í að nota þær. Og þessi nauðsynlegi undirbúningur verður hafinn, ef dagskráin verður samþ. og stj. sér sér fært að taka til greina það, sem í henni segir.