13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2183)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Eiríkur Einarsson) :

Hér hefur verið svo hóflega rætt og bæði sjónarmiðin komið fram, að ég skal stilla orðum mínum í hóf og ekki eyða meiri tíma en nauðsynlegt er til andsvara. Hv. samnm. minn, sem undirskrifaði nál. meiri hl., hv. 3. landsk., hefur svo ótvírætt tekið fram það, sem ég vildi sagt hafa til andsvara hv. frsm. minni hl. Hann gat um hvatningarorð Búnaðarfélagsins til að hleypa þessu í framkvæmd, en honum gleymdist að geta þess, að Búnaðarfélagið hefur einnig gert álitsgerð um það, hvern tíma þetta muni taka. Þetta liggur svo ljóst fyrir, að um það verður ekki þagað. Í d-lið 1. gr. stendur: „Þegar lokið er undirbúningi þeim, sem um ræðir í 61. gr., skal Búnaðarfélag Íslands annast útvegun nauðsynlegra jarðvinnsluvéla og tilheyrandi verkfæra fyrir samþykktarsvæðið“. Þegar þessari rannsókn er lokið, skal Búnaðarfélagið láta útvega vélar og verkfæri, en félagið segir, að það taki langan tíma og kosti mikið fé. Aðalatriðið er ekki aðeins útvegun vélanna, heldur einnig gerð þeirra og hve margar þær eigi að vera. svo og það, hver kostnaðurinn muni verða. En hitt er óþarft að ræða hér, hve erfiður íslenzki landbúnaðurinn sé, sláttur og heyskapur og annað, með gömlu tækjunum. Allir eru sammála um það, og verður ekki um það deilt.

Hér er talað um mátt samtakanna. Það er rétt, að samtakamátturinn er mikill. Við höfum sveitabúnaðarfélög um allt land. Hefði þessi máttur samtakanna notið sín betur, þó að í stað einstakra búnaðarfélaga hefðu verið heil búnaðarsambandssvæði? Ég segi nei. Ég held, að þau orð, sem fallið hafa hér og annars staðar um það, að framkvæmd þessa mikla starfs framtíðarinnar verði ekki hafin nema í sambandi við frv. og 10 ára áætlunina, séu ekki annað en firra ein. Og til þess eru forsvarsmenn landbúnaðarfélaganna, að þeir geti meðal annars útvegað landbúnaðinum þau tæki, sem bezt henta.

Hv. þm. Str. minntist á vegagerð. Höfuðskilyrði er að vísu, að vegir séu lagðir hliðstætt við þessar framkvæmdir. En til að örva framkvæmdir á einhverju sviði, dytti engum í hug að gera tíu ára áætlun, því að hver væri að bættari? Jú, ef við værum glaðir í trúnni. En að nefna tíu ár er aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, að taumurinn sé aldrei gefinn slakur og að menn láti ekkert tækifæri ganga sér úr greipum, hvorki bændur né búnaðarfélögin heima í héruðum, að bændur séu hvattir til að gera sem mest um þá þjóðarnauðsyn að útvega hin nýju tæki, því að það er þjóðarnauðsyn, og til þess þarf ekki tíu ára áætlun, en til þess þarf hins vegar það, að menn séu vakandi, því að tíminn líður.

Ég vil taka fram í þessu sambandi það, sem hér er ekki nefnt, en ekki er hægt að láta með öllu órætt, en það eru hinar skiptu skoðanir um það, hvernig skipuleggja eigi ræktun landsins. Það eru í rauninni uppi þrjár meginskoðanir í þessu efni. Sú fyrsta er góð og gömul, sú, að gera beri það sem mögulegast, að ræktun landsins nái til allra hjara og út til yztu annnesja. Það er dreifiræktun. Önnur kenningin er sú, að við séum ekki ríkari en svo, að erfitt sé að halda samgöngukerfinu og við verðum að rækta það, sem byggilegast er af landinu, og hyggja þar til samstarfs. Þriðja kenningin, og hana aðhyllist ég, er millivegur milli þessara tveggja. Til þess að Íslendingar geti látið landið bera ávexti og fætt búpening, verða þeir að taka það með í reikninginn, að ræktunin svari kostnaði, en því miður að láta hitt sitja á hakanum. Ég vil ekki ganga svo langt að segja við þá, sem eru á útkjálkum, að við viljum ekki rétta þeim hjálparhönd. Ég vil, að þeim sé létt lífsbyrðin, eftir því sem hægt er, og þeim gefinn kostur á að fá 560 hesta véltækt engi, en hvort fara á eins langt og frv. í þessu efni, það er vafamál. Nú er það svo, að samkvæmt jarðræktarl. eru þeir, sem mest eru búnir að gera, sviptir tækifæri til að njóta hjálpar hins opinbera til frekari aðgerða, af því að geta ríkissjóðs er takmörkuð. Í þessu kemur að vísu fram góður skilningur gagnvart þeim, sem minnst eru búnir að gera, og er komið til móts við þá, og er það mannlegt og gott, en hitt er ekki heppilegt, að hinir séu ekki hvattir til frekari framkvæmda, þar sem þar er oft og tíðum um að ræða fyrirmyndarmennina. Eins kynni að fara um framkvæmd þessarar tíu ára áætlunar, þó að ég voni, að það komi ekki fyrir, að geta ríkisins, hvort sem hún snýr að landbúnaðinum eða öðru, setji takmarkanir um framkvæmdirnar. Það gæti hugsazt, að verr væri farið en heima setið með því að þenja svo netið. En það er ekki nema til góðs, að allt sé gert, sem hægt er hvert líðandi ár, og reynt sé að örva búnaðarfélög, þing og stj. til að stuðla að því, að fullkomnari tæki fáist til heyskapar og annarra verka. Þetta er svo opið, að ekki þarf skýringar við. Takmarkið er, að landbúnaðurinn fari ekki í hundana. Takmarkið er það sama, en meiningarmunurinn er um það, hvort tíu ára áætlunin sé leiðin til að meira fáist áorkað. Ég álít, að það, sem mestu máli skiptir, sé það, að Búnaðarfélag Íslands og aðrir hlutaðeigendur hafi vakandi auga á þessum málum og fylgi þessu eftir. Við skulum vera bjartsýn um aðgerðir í málinu og útvegun véla. Við vitum, hvernig ástandið er á þessu ári, en síður, hvernig það verður eftir tíu ár. Við skulum gera sem minnst að því að spá fram í tímann, en vera sem forsjálastir á líðandi stund. Við höfum ekki efni á öðru, en ég tek það fram, að um nauðsyn vélakaupanna er enginn ágreiningur.

Ég heyri, að hæstv. forseti er að boða kaffihlé, og verður það til þess, að ég lýk máli mínu.