13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

68. mál, jarðræktarlög

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. Frsm. minni hl. landbn. tók það fram, að í grg. meiri hl. kæmi skoðun ýmissa okkar, sem undir þessa rökst. dagskrá ritum, ekki nógu skýrt fram. Þetta er að nokkru leyti rétt, en það er líka tekið fram í grg., að meðal okkar, sem undir dagskrána ritum, gætir nokkurs skoðanamunar varðandi skipulag jarðræktarmálanna.

Enda þótt áliðið sé dags, langar mig til að víkja nokkrum orðum að skoðun minni á þessu máli. Því miður var ég ekki viðstaddur, þegar 1. umr. fór fram um þetta mál, og gat því ekki lýst þá skoðun minni almennt. Í raun og veru hef ég tilhneigingu til þess að fylgja ýmsu í þessu frv., því að það er ýmislegt í stefnu þess, sem við sósíalistar getum mjög gjarnan aðhyllzt. En þegar nánar er á frv. litið, gengur það samt á misvíxl við stefnu okkar, og við getum því ekki fylgt því nema með talsverðum breytingum.

Það eru fyrst og fremst tvö atriði, a- og b-liðir, í frv., sem ég gekk svo langt í, að ég bauð minni hl. að fylgja honum að málum, ef við gætum að öðru leyti náð samkomulagi, en árangurinn varð sá, að ég á mér ekki annað fært en fylgja rökst. dagskránni, sem hér er borin fram.

Það er ýmislegt fallegt sagt í frv. og er að vísu til bóta. T. d. er það ekki svo lítið, að hér er tíu ára áætlun, sem felur í sér, að allur heyskapur landsins geti farið fram á véltækum túnum. Auðvitað geta allir skrifað undir þessa stefnu frv.

Í öðru lagi er það mjög álitlegt við þetta frv., að í því er viðurkennt, að þau vinnubrögð, sem tíðkazt hafa í íslenzkum landbúnaði, eru orðin mjög úrelt og að það þurfi að breyta til. Það er einmitt þetta, sem við sósíalistar höfum ávallt haldið fast fram. Þar er fallizt á þá skoðun, að það sé orðið úrelt að vinna að landbúnaði með handverkfærum og að það sé meir en tími til kominn að fara að nota vélar eins og við aðrar atvinnugreinar. Enn fremur er ekki nema sjálfsagt, að hafin sé rannsókn á því, hve mikið er enn þá óræktað og óvéltækt af túnum landsins. Annars er það alveg furðulegt, að Búnaðarfélagið skuli ekki hafa gert meira en raun er á í þessum efnum.

Þrátt fyrir það að við í meiri hl. höfum komið okkur saman um þá stefnu, að nauðsyn sé á ræktun landsins, að áætlun verði gerð, og í þriðja lagi, að meira verði unnið að landbúnaði með vélum en verið hefur, þá greinir okkur samt á við minni hl. um eitt atriði, sem jafnvel mætti nefna aðalstefnu frv., en það er, hvar ræktunin á að verða. Við getum ekki aðhyllzt ræktun ræktunarinnar vegna.

Við sósíalistar höfum bent á nauðsyn þess, að landbúnaðurinn verði skipulagður á alveg nýjum grundvelli, og gætum vel fylgt því að gera áætlun um skipulag landbúnaðarins, en aðeins á öðrum grundvelli en hér er farið fram á. Skoðun okkar er, að þetta skipulag eigi að vera miklu víðtækara en í þessu frv. felst, og er þessi stefna okkar að vísu svo kunn, að ég þarf ekki að útlista hana frekar.

Á síðasta þingi lögðum við fram þál. um ráðstafanir til eflingar íslenzkum landbúnaði, og í því felst aðalstefna okkar í þessu máli. Eins og flm. þessa frv. viljum við, að rannsókn sé látin fara fram á landbúnaðinum, en við viljum, að fyrst og fremst sé látin fara fram rannsókn á því, hvar skilyrði eru heppilegust með tilliti til samgangna, raforku o. fl. Aðalatriðið er ekki ræktunin sjálf, heldur, á hvaða stað á að framkvæma hana. Þess vegna er stefna okkar í grundvallaratriðum þessi, að við viljum fyrst láta ákveða, á hvaða stöðum á landinu er hafizt handa um ræktun og yrkingu í svipuðum stíl og virðist vera gert ráð fyrir í þessu frv., þ. e. a. s. með vélum og samvinnu. Við viljum, að tekin séu fyrir ákveðin svæði, þar sem bezt eru skilyrði, og að þar sé fyrst og fremst hafizt handa.

Í þessu felst, að um framkvæmdir varðandi íslenzkan landbúnað þurfa samtímis að vera tvenns konar stefnur. Annars vegar þarf að skapa skilyrði til þess, að landbúnaður geti farið fram á alveg nýjum grundvelli, þ. e. a. s., að komið verði upp byggðahverfum og samvinna verði um vélar. Í öðru lagi viljum við styrkja þann búskap, sem fyrir er, til þess að forðast það, að fólk flýi úr sveitunum, en við viljum undirbúa jarðveginn, svo að það fólk, sem óhjákvæmilega hlýtur að flytja úr hinum dreifðu sveitum landsins, eignist þannig annað athvarf en að leita til bæjanna. Það er þannig ætlun okkar að skapa skilyrði á öðrum stöðum, svo að bændur geti myndað með sér þorp og lifað þar við betri skilyrði en áður, eða geti flutt sig til, en flytji ekki í bæina.

Það er enn eitt atriði í þessu sambandi, sem ég vil minnast á, en það er nauðsynin á því, að fram fari rannsókn á, hvað framleiða eigi á hverjum stað, en að þessu atriði er ekki vikið í frv. því, er hér liggur fyrir.

Það er ljósara en frá þurfi að segja, hvernig háttar til um framleiðslu landbúnaðarafurða hér á landi, því að sem stendur er offramleiðsla á sumum afurðum, en skortur á öðrum nauðsynjavörum landbúnaðarins. Það hlýtur því að vera vilji allra þeirra, sem vilja nýja skipun á landbúnaðarmálum, að skipulag framleiðslunnar fylgi með, sem sagt, að miða framleiðsluna við neyzlu og markaðsþarfir og að hafa framleiðslu á ákveðnum stöðum á landinu og framleiða þar þær afurðir, sem heppilegast er að framleiða, — til að taka aðeins sem dæmi, að framleiða eingöngu mjólkurafurðir á Suðurlandi, stunda sauðfjárrækt í Þingeyjar- og Múlasýslum og að kartöflurækt færi fram á einhverjum ákveðnum stað á landinu. Um leið og tekið er upp skipulag um jarðræktina, álítum við, að taka eigi jafnframt með skipulag um framleiðsluna, en þetta atriði vantar algerlega í þessu frv. Og í raun og veru eru miklu minni nýjungar en vænta mátti, þar sem menn héldu, að flm. ætluðu með þessu frv. að taka einhver stór stökk. Nýjungamál frv. eru einkum viðvíkjandi vélakaupum og styrknum til jarðabóta, en annars eru ekki í því miklar breyt. frá fyrri jarðræktarl. Annars virðist mér styrkurinn til framræslu túna of lágur í hlutfalli við aðra styrki, því að mér finnst, að leggja ætti sérstaka áherzlu á það atriði. Ég held því, að 1. flm. frv. þurfi ekki að furða sig á því, þótt við fylgjum ekki frv. skilyrðislaust, því að undirbúningur er ekki nógur og nýjungar ekki eins miklar og haldið hefur verið á lofti. Í raun og veru er ekki um miklar stefnubreyt. að ræða frá því sem áður var, þegar til framkvæmdanna kemur, því að eins og áður er gert ráð fyrir ræktun hinna einstöku jarða án tillits til, hvar þær eru á landinu, og er því ekki um neitt nýtt skipulag að ræða. Ég býst þó við, að bændur séu þessari ræktun fylgjandi, og furðar mig ekkert á þeim ummælum hv. þm. Str., er hann sagði, að það mundi vera mjög mikill áhugi meðal bænda um þetta frv. En það er ekki þar með sagt, þótt bændur séu þessu fylgjandi og þeir hafi jafnvel mikinn áhuga á því að gera ræktunarsamþ., að árangurinn af þessu verði eins heppilegur fyrir landbúnaðinn í heild, því að svo gæti farið, að svipað verði um þetta og nýbýlal. og aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, að þetta reynist þungur baggi á bændum og að árangurinn komi ekki eins fljótt og vel í ljós og flm. ætluðust til.

Ég held, að með þessu frv. sé miklu skemur vikið frá þeirri stefnu, sem ríkt hefur í landbúnaðinum, en flm. þess halda á lofti, og ég álít, að hægt væri að gera aðrar og meiri ráðstafanir, ef vilji væri fyrir hendi, sem kæmi íslenzkum landbúnaði að meira gagni en samþ. þessa frv.

Til eru lög um landnám, og eftir þeim l. er hægt að taka lönd eignarnámi, þar sem skilyrði eru heppileg til ræktunar, og samkvæmt þeim l. var einnig gert ráð fyrir byggðahverfum. Hvað hefur nú verið gert til þess að framfylgja þessum l.? Ég veit ekki betur en búnaðarmálastjóri hafi sagt, að ekki væri hægt að framfylgja þessum l., vegna þess að það standi á fjármagni til þess að framfylgja þeim. Hins vegar var svo fyrir mælt, að það ætti að leggja 400 þús. kr. árlega til nýbýla til þess að framfylgja þessum l. um landnám nýbýla, en búnaðarmálastjóri varð að bera fram kvartanir, vegna þess að Alþ. sinnti því ekki að leggja svona hátt framlag, og hann sagði það berum orðum, að það sé ekki hægt að framfylgja þessum l., jafnnytsamleg og þau eru, vegna þess, hve áhugi er lítill hjá Alþ. á jarðræktarmálunum.

Við sósíalistar höfum sýnt áhuga okkar á þessum málum, og við höfum tekið eftir þessum umkvörtunum frá búnaðarmálastjóra og því, sem hann hefur ritað um byggðahverfi og nauðsyn þess, að hafizt verði handa um samfellda ræktun og að framleiðslan verði skipulögð á annan hátt. við höfum viljað, að Alþ. leggi fram miklu hærri fjárframlög, svo að unnt sé að koma landbúnaðinum í nytsamara horf, en þessar till. okkar hafa ekki fengið miklar undirtektir hér á Alþ., heldur verið stráfelldar. Mér finnst því skjóta nokkuð skökku við, bæði út af ræðu flm. þessa frv. og stefnu þeirri, sem þeir telja, að felast eigi í frv. þeirra, því að mig grunar, að fara muni á sömu leið og fór um önnur lög, l. um landnám og nýbýli, að þótt þetta frv. verði samþ., muni standa á Alþ. um fjárframlög til framkvæmda.

Mér virðist því í stuttu máli, að í frv. séu miklu minni nýjungar en haldið er á lofti og þó að það verði samþ., þá muni það ekki snúa sér að því, sem eru aðalatriði í landbúnaðarskipulaginu, því að það gengur fram hjá aðalatriðunum, sem sé að snúa sér fyrst og fremst að því, að ræktun fari fram á þeim stöðum á landinu, sem heppilegastir eru, og í öðru lagi skipulagningu framleiðslunnar. Þannig hefur því farið, þó að ég hafi tilhneigingu til að fylgja ýmsu í þessu frv., þá verð ég samt að fylgja hinni rökst. dagskrá, bæði vegna þess, að ég hef aðra stefnu í þessum málum, eins og ég hef nú nægilega skýrt frá, og að mér finnst frv. mjög illa undirbúið.