13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

68. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Hv. frsm. minni hl. taldi óþarft að bíða með að hefja framkvæmdir, þar til undirbúningi væri að fullu lokið. Ég er honum alveg sammála. En ekki er rétt að ákveða styrki, fyrr en séð er, hvað vinnst með frv. Ekki er ástæða til að ákveða styrkinn til vélakaupa, fyrr en séð eru afköst þeirra. Mér virðist ekki vera hægt að gera tíu ára áætlun um framkvæmdir þessar, en er sammála um það, að það beri að leggja niður gömlu heyvinnuaðferðirnar og fara að nota vélar í staðinn. Það þarf að færa landbúnaðinn í gott horf. Ég er einnig sammála um, að rétt sé að hverfa frá einstaklingsræktun og snúa sér að félagsræktun, sérstaklega að hentugt sé það með stofnun nýbýla.

Ég álít fullt svo heppilegt, að vélasjóður eigi vélarnar, eins og kemur fram í rökstuddu dagskránni. Einkum má á það benda í þessu sambandi, að mjög er erfitt að fá stórar vélar til landsins.