13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (2189)

68. mál, jarðræktarlög

Kristinn Andrésson. Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Str., að mér þykir sárt, að það skuli ekki geta orðið samkomulag um jarðræktarmálin. Mér finnst hann gera of mikið úr því, hvað málið verði tafið með aðferðunum, sem meiri hl. vill fylgja. Ég held, að enda þótt málið tefjist á þessu þ., þurfi það ekki að vera dautt, enda væri þá illa farið.

Eins og ég tók fram áður, er margt í frv. og ræðum stuðningsmanna þess, sem við sósíalistar erum sammála þeim um, t. d. það, að ísl. sveitabúskapur sé svo úreltur, að sárt er að hugsa til þess. Við erum líka sammála um, að rétt sé að gera áætlun, telja sér ákveðið takmark um nýtt fyrirkomulag í landbúnaðinum, og að nauðsynlegt sé að hefja strax undirbúningsrannsóknir. Og það þarf ekki aftur að taka fram, að við erum sammála um, að búskapurinn sé rekinn með nýtízku vélum. Það er svo margt, sem við eigum sameiginlegt, að við ættum að geta sameinazt um ákveðna lausn, og ég vil, að það komi skýrt fram, að ég vil ekki á nokkurn hátt leggja neinar hömlur í veg fyrir það, að tekið verði upp nýtt skipulag í þessum málum, eitthvað í sömu átt og þetta frv. stefnir í. Mér féll einmitt ræða hv. þm. Str. að flestu leyti vel, og ég hef einnig starfað í n. með hv. 3. landsk. þm. og búnaðarmálastjóra, og skoðanir okkar hafa mjög farið saman.

Eins og frv. liggur fyrir frá minni hl., er ekki hægt að samþ. það. Þar er ýmislegt smávægilegt, bæði um styrkúthlutun og búnaðarsamþykktir, sem ættu heldur að vera hreppssamþykktir, og fleira er þar, sem þyrfti að breyta. En í mörgum grundvallaratriðum frv. er ég sammála flm., svo að ef heilindi ríkja á báða bóga, ætti að geta náðst samkomulag fyrr en ýmsa hefur grunað.

Hv. þm. Str. vildi mótmæla því hjá mér, að ákvæði þessa frv. kæmu í bága við þá stefnu, sem við hefðum um skipulag og samfærslu byggða, en tortryggni mína gagnvart frv. byggði ég á því, að ég hefði álitið, að samþykkt þessa frv. mundi einmitt tefja frekar fyrir því, að verulega væri snúið sér að því að skipuleggja landbúskapinn, en aftur á móti hlaða undir ræktun þar, sem land væri ekki til þess fallið. Að vísu er ákvæði í frv., sem í felst, að þær jarðir, sem óheppilegar séu til ræktunar, skuli ekki teknar með, en það hefur líka staðið í jarðræktarl., og því hefur ekki verið fylgt.

Þá er það, að þessir sömu menn, sem nú vilja hraða ráðstöfunum, hafa verið til þessa tregir til að fylgja því, sem hefur átt að gera í þessa átt. Það hefur borið á tregðu til að samþ. fjárframlög til nýbýla og byggðahverfa, eða hvernig stendur á, að þessir menn hafa ekki komið fram með till. um hærri framlög til vélakaupa til nýbýlasjóðs og lagt eindregið á móti till. frá okkur sósíalistum um há framlög til landbúnaðarins til ræktunar á beztu stöðum? Þetta tvennt, tregða þessara manna gegn ákveðnum fjárframlögum til nauðsynlegra ráðstafana og sú reynsla af jarðræktarl., að þetta frv. mundi styðja að ræktun á slæmum stöðum, hefur vakið tortryggni mína.

Ég er flm. sammála um allt, er lýtur að því að koma ísl. landbúnaði sem fyrst í nýtízku horf, og mér finnst ekki greina annað á en að ég vil róttækari ráðstafanir, hvað landbúnaðinn snertir, og að strax sé hafizt handa og strax veitt fé til vélakaupa og til ræktunar á samfelldum svæðum, sem næst liggja markaði. En Framsfl. og Sjálfstfl. hafa lagzt á móti slíkum till. frá okkur sósíalistum. Ég skil ekki, hvernig á að sameina þessar tvær stefnur þeirra, og er því tortrygginn að ýmsu leyti. Ég get fullvissað hv. þm. um, að ef þeir leggja fram þetta sama frv. með ekki svo mjög miklum breyt. og við sjáum, að þeim er full alvara að vilja nýskipun landbúnaðarins, þá skal ekki standa á fylgi okkar sósíalista.

Ég held, að hin rökstudda dagskrártill. og þáltill. sé síður en svo til að tefja. Ég held því fram, að frv. sé ekki nógu ýtarlega samið eða undirbúið. Það þarf endurskoðunar við, og mundi slíkt taka langan tíma, en þáltill. og dagskrártill. taka þau atriði úr frv., sem mest liggur á, til meðferðar. Flm. geta svo lagt málið fram á næsta þ., í því formi gæti ég trúað, að samkomulag geti orðið.

Ég get ekki farið að ræða hér ýtarlega skipulag ísl. landbúnaðar, eins og það vakir fyrir okkur sósíalistum. Hv. þm. Str. gerði það, og ég er honum að miklu leyti sammála. Ýmislegt ber sjálfsagt á milli, en ef samkomulag gæti orðið milli fulltrúa bænda og verkamanna, mundi kannske þar með vera leyst það helzta, sem óheppilegast hefur verið á undanförnum tímum. Það er mjög óheppilegt fyrir þjóðfélagið, ef deilur um landbúnaðarmál eiga að halda áfram.