13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2190)

68. mál, jarðræktarlög

Gísli Jónsson:

Ég ætla ekki að taka þátt í þeim deilum, sem fram hafa farið hér í d., en mig langar til þess að spyrja hv. þm. Str. og hv. form. landbn. að því, hvaða skrípaleik hér er verið að leika. Það er engu líkara en að flestir þeir hv. þm., sem hér hafa talað í kvöld, séu þegar byrjaðir að jórtra grasið, sem kynni að fást af þessu. Hér hefur hver hv. þm. á fætur öðrum staðið upp og byrjað með því að segja, að hann ætlaði ekki að tala langt mál, en síðan haldið langar ræður og tuggið upp aftur og aftur það sama án þess að koma að kjarna málsins. Í sambandi við þetta langar mig til að benda á það, að málið kom fyrst til þessarar hv. d. 27. sept. og er því þá tekið mjög vinsamlega af öllum flokkum og vísað til landbn. 27. sept., kemur síðan frá n. 19. nóv. (minni hl.), en nál. kemur frá meiri hl. 29. nóv. Hvernig kemur svo málið úr n.? Það er engin breyt. gerð við málið. Minni hl. vill samþykkja málið án nokkurra breyt., en meiri hl. vill vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá. Hvað hafa þessir menn verið að gera í n. allan þennan tíma í einu af stærstu velferðarmálum landbúnaðarins: Hvers vegna hefur ekki hv. þm. Str., 1. flm., spurt um málið allan þennan tíma? Er þessu aðeins haldið fram til þess eins að fylla þingtíðindin og halda uppi málþófi? Ef ekki er hægt að fá afgr. á góðu máli í landbn., þá á að taka það til athugunar, en það er ekki frambærilegt, að landbn. haldi málinu hjá sér í þrjá mánuði án þess að gera nokkuð annað en að klofna um það.

Annars er það svo með hv. þm. Str., að það er eins og hann hafi aldrei tíma til þess að vera við umr. hér í d., og það er náttúrlega ekki eðlilegt, að það gangi vel að koma fram stórmálum með slíkum vinnubrögðum. Ég lýsti því yfir við 1. umr., að ég mundi fylgja þessu máli, og þrátt fyrir þessi dæmalausu vinnubrögð mun ég fylgja þessu frv. óbreyttu til 3. umr. í von um það, að mestu agnúar þess verði lagfærðir á milli umr., og hv. minni hl. hefur viðurkennt, að það þurfi að laga frv., áður en það fari út úr deildinni.