13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2191)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Ég skal taka til greina bendingar hv. þm. Barð. að lofa ekki stuttri ræðu, en halda langa. Ég álít, að umr. um þetta mál, þó að þær hafi verið langar, hafi verið til bóta. Mér finnst þær hafa dregið hugi manna saman, og ég álít, að það sé til bóta, að hugir manna dragist saman í góðum málum, þó að það kunni að taka nokkuð langan tíma.

Ég vil svo aðeins taka það fram, að ég álít, að það þurfi að gera allt til þess að auka hraðann í jarðræktarframkvæmdum landsins, og ég vona, að það fáist út úr þessu starfi þingsins, að sá hraði verði aukinn.

Ég ætla ekki enn á ný að fara að lýsa, hvað heyöflunin gengur seint, en vil aðeins geta þess til gamans, að það er ekki nema eðlilegt, að þeir sem búa við sjávarsíðuna, eigi erfiðara með að gera sér grein fyrir því en við, sem lifum við sveitabúskap, hvað heyskapurinn er erfiður með þeim vinnuaðferðum, sem nú eru víðast viðhafðar.

Það hefur verið minnzt á það, að þetta frv. væri ekki nógu vel undirbúið, og ég skal játa það, að það eru agnúar á undirbúningnum, en til þess hefur ekki heldur verið miklu kostað, það hefur ekki verið skipuð mþn. í málið. Frv. er aðeins til orðið á þann hátt, að nokkrir alþm. tóku sig saman um að semja þetta frv., og þeir vissu, að það mundi þurfa að breyta því og laga það, og þeir gerðu sér vonir um, að þá mundi það fljótlega verða að l.