08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

27. mál, fjárlög 1944

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur, eins og hæstv. fjmrh. þegar er búinn að taka fram, breytt formi þessa fjárlagafrv. allverulega, að mestu leyti eftir bendingu frá fjvn. þeirri, sem starfaði á síðasta þingi. En hún hefur fært þetta fjárlagafrv. mjög í þá sömu átt og fjárlagafrv. það, er ráðherra Sjálfstfl. lagði fyrir Alþingi s.l. ár. Sú breyt. er til hins verra, því að með henni er mjög dregið úr öllum verklegum framkvæmdum og fjárlagafrv. einungis ákvæði um að greiða úr ríkissjóði fjárhæðir, sem annaðhvort eru bundnar með sérstökum lögum eða ríkissjóður getur ekki komizt hjá að greiða. Þetta er í sjálfu sér stefna, þó að hún sé ekki góð, — stefna íhaldsins eða afturhaldsins.

Í fjárlfrv. er framlag til nýrra vega lækkaðir 3 millj. 562 þús. kr. í 1 millj. 800 þús. kr., eða um 1762 þús. kr. Þá er framlag til brúargerða því sem næst þurrkað út, og nemur sú lækkun 896 þús. kr. Enn fremur hafa öll framlög til hafnargerða verið afnumin, og nemur sú lækkun 1 millj. 681 þús. kr. Þá hefur hæstv. fjmrh. fundið köllun hjá sér til að krukka í atvinnubótaféð og lækka það um 300 þús. kr. Alls nema þessar lækkanir, sem hæstv. fjmrh. leggur til, að gerðar verði á framlögum til verklegra framkvæmda frá því, sem ákveðið er í síðustu fjárlögum, hátt á 5. millj. kr. Ýmsar aðrar opinberar framkvæmdir, sem gert var ráð fyrir í síðustu fjárlögum, hafa verið lækkaðar. En á móti kemur framlag til áburðarverksmiðju, sem ætlazt er til, að lagt verði í sérstakan sjóð, 2 millj. kr., og nokkur hækkun á framlagi til viðbótarbygginga við ríkisspítalann.

Á þessu fjárlfrv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður þurfi að gera neitt til að bæta úr atvinnuleysi í landinu, og er sú stefna, að áætla ekkert annað en það, sem allra naumast verður komizt af með til verklegra framkvæmda, á þessum óvissu tímum mjög varhugaverð og verður að áteljast. Hins vegar má segja, að hið breytta form á fjárlagafrv. sé til bóta. Á því eru þó undantekningar, og má þar nefna, að í áætlun vegamálastjóra er orlofsfé fært til sérstakra útgjalda með 200 þús. kr. Þetta er hvergi gert á neinum öðrum lið í þessu fjárlagafrv. Hvers vegna er t. d. kostnaður vegna orlofs í stjórnarráðinu, vegna orlofs hjá pósti og síma og öllum skrifstofum ríkisins ekki talinn sem sérstakur liður, ef ástæða var til að uppfæra þetta sem sérstakan lið á vegamálunum? Eða hefur hæstv. fjmrh. tekið þetta upp til. þess eins að sýna, að vegamálastjóri væri yfirleitt á móti því, að verkamenn fengju orlof? Ef rétt er að telja orlofsfé vegavinnuverkamanna sem sérstakan útgjaldalið, verður það einnig að gerast hjá öllum öðrum starfsmönnum. Sé ekki gætt samræmis í þessu, verða fjárlögin eins konar spegill af lyndiseinkunnum og skoðunum einstakra embættismanna, sem tæplega verður að teljast viðeigandi.

Hæstv. fjmrh. minntist nokkrum orðum á framkvæmd vegamála og að ekki hefði verið unnið við ýmsa vegi vegna skorts á vinnuafli, en vildi sætta menn við þetta með því að lýsa yfir, að fé það yrði lagt á sérstakan reikning og unnið fyrir það síðar, og framlög því lækkuð í þessu frumvarpi, er því nam. Mér eru sérstaklega kunnar framkvæmdir í vegamálum á Vestfjarðaveginum yfir Kollabúðaheiði. Þar hefur aðeins verið unnið með fáum mönnum Langadalsmegin og engar vegavinnuvélar verið notaðar. Þarna er heill landshluti, sem bíður eftir vegasambandi við aðra landshluta. Vestfirðingar hafa verið hafðir útundan, og þegar fjárveiting fæst loks hjá Alþingi, að því er ætlazt er til, til þess að koma vegasambandinu í framkvæmd á þessu og næsta ári, strandar allt á framkvæmdaleysi eða mótþróa vegamálastjóra. Hann heldur því fram, að vegleysurnar til þessa landsfjórðungs séu svo miklar, að ekki sé unnt að koma þangað vegavinnuvélum, en vélar þessar eru að þyngd 8 eða 9 smálestir, og þarf meira en meðalíhaldssemi til þess að halda því fram, að ekki sé unnt að flytja svona vél milli landshluta á sjó eða landi: Þó stjórn vegamálanna hafi að undanförnu gleymt Vestfirðingum, vil ég ekki sætta mig við svona viðbárur fyrir hönd Vestfirðinga og vænti þess fastlega, að þm. Vestfirðinga efli með sér samtök og krefjist þess, að vegasambandinu við Vestfirði verði komið á þegar á næsta ári, svo sem áformað var, og mun þetta vel framkvæmanlegt með nýtízkuvegavinnuvélum, sem þegar eru fyrir hendi.

Fáist vegamálastjóri ekki til þess að flytja vegavinnuvélar til Vestfjarða, munu aðrir sjá ráð til þess.

Á þeim stutta tíma, sem ég hef haft til að athuga þetta fjárlagafrv., hef ég rekið mig á annað dæmi en það, sem ég nefndi um orlofsféð, að hæstv. fjmrh. hefur tekið upp í frumvarpið áætlun frá embættismanni án þess að athuga hana nánar. Á ég þar við framlag til sauðfjárveikivarna á 16. gr., sem áætlað er 3 millj. 489 þús. kr. Segir í greinargerð frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Farið hefur verið eftir áætlun sauðfjársjúkdómanefndar, enda þótt áætlunin sé ófullkomin og lítt rökstudd.“

Þar sem hér er um að ræða mjög stóra fjárhæð, sem eflaust getur að einhverju leyti orkað tvímælis, verður að átelja það, að fjármálaráðuneytið lætur hana frá sér með þessum ummælum, án þess að krefjast nákvæmrar greinargerðar og rökstuðnings frá sauðfjárveikiherrunum, og það því fremur, þar sem það hafði rúma fjóra mánuði til stefnu á milli þinga til þess að undirbúa þetta frv.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um fjárlfrv. En þó má geta þess, að fjármálaráðuneytið hefur tekið sig til og sundurliðað 16. gr., framlag til hinna ýmsu atvinnuvega. Er landbúnaðurinn þar með 6 millj. 899 þús. 678 kr., sjávarútvegurinn með 510 þús. kr., og iðnaðurinn með 2 millj. 593 þús. 500 kr. Hér af 2 millj. kr. framlag í áburðarverksmiðju. Það er síður en svo, að ég vilji telja eftir þau framlög, sem áætluð eru til landbúnaðar. En þó finnst mér ástæða til að benda á, að betur megi róa frá hálfu sjávarútvegsins heldur en gert hefur verið að undanförnu, ef framlög til hans eiga að komast í eitthvert samræmi við framlög til landbúnaðarins. Í framlaginu til landbúnaðarins er innifalið framlag til sauðfjárveikivarna, um 3½ millj, kr., en ekki neinar uppbætur á markaðsvörur til landbúnaðarins.

Frumvörp til fjárlaga sýna jafnan stefnu þeirrar ríkisstjórnar, sem leggur frv. fyrir Alþingi. Að þessu sinni er stefna ríkisstj. sú, að áætla ekkert til að bæta úr væntanlegu atvinnuleysi, þótt það komi yfir landsmenn.

Í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlfrv. mun ég minnast nokkrum orðum á þau helztu mál, sem liggja fyrir Alþingi til afgreiðslu. Má þar fyrst nefna dýrtíðarmálin. Það má vera mönnum gleðiefni, að samkomulag fékkst í sex manna nefndinni um verð á landbúnaðarafurðum. Hins vegar getur niðurstaða n. mjög orkað tvímælis. N. hefur miðað við meðaltekjur verkamanna og sjómanna, sem hún telur vera 15500 kr. En þær tekjur geta tæplega verið fyrir hendi hjá verkamönnum og sjómönnum úti á landi, þótt þær kunni að vera til hér í Reykjavík. Nefndin fer heldur létt yfir þá staðreynd, að bóndinn fær sínar eigin vörur til heimilisins, svo sem mjólk, kjöt og garðávexti, með miklu lægra verði heldur en kaupstaðarbúinn, þó að hún að vísu segi, að það leiði til lækkunar á útgjöldum bóndans. Hins vegar telur hún bændum það að réttu til hækkunar, eins og hún kemst að orði, „að bóndinn verði undir venjulegum kringumstæðum að leggja á sig mikla sunnudaga- og helgidagavinnu.“ Enginn efast um, að þetta sé rétt. Hins vegar hefði ég gaman af að sjá þann verkamann eða sjómann, sem náð hefur meðaltekjum þeim, sem nefndin áætlar, 15 þús. og 500 kr., án þess að leggja á sig mikla sunnudaga- og helgidagavinnu.

Einn skeleggur kommúnisti var settur í nefnd þessa frá Alþýðusambandinu, og virðist baráttufýsi hans fyrir öreigunum við sjóinn lítt hafa komið í ljós við nefndarstörfin, ef allt erfiði sjómanna og verkamanna í eftirvinnu og helgidagavinnu hefur gleymzt.

Dýrtíðarmálin verða sennilega enn sem fyrr örðug viðfangs fyrir Alþingi. Því að þótt samkomulag hafi fengizt um verð það, sem bændur eiga að fá heim til sín fyrir afurðirnar, er enn eftir að ákveða útsöluverð þeirra til neytendanna. Enn fremur er eftir að ákveða um, hvort uppbót skuli greidd á afurðir þær, sem bændur selja til útlanda. Þetta eru viðkvæm mál, sem verður að ráða til lykta eftir rækilega athugun og af réttsýni. En ríkisstjórnin virðist ætla að ráða fram úr þeim málum með áhlaupum. Hækkun sú, sem leyfð var á álagningu tóbaks með lögum frá Alþingi í fyrradag, mun vera ætluð til þess að greiða niður útsöluverð á landbúnaðarafurðum, og má furðu gegna, ef það vekur ekki nokkurn ugg um, hversu hyggilega verður ráðið fram úr þessum málum, ef ætlunin er að flaustra þeim af.

Dýrtíðarmálið er tvímælalaust eitthvert mesta vandamálið, sem liggur fyrir Alþingi, jafnvel þótt samkomulag hafi fengizt í sex manna nefndinni, eins og ég áðan sagði. Þetta mál verður að ræðast fyrir opnum tjöldum og athugast gaumgæfilega. En það virðist ekki vera öllum ljóst.

Því að nú þegar í þingbyrjun hefur verið gerð tilraun til að ráða því til lykta á bak við tjöldin — með því að binda alþingismenn á undirskriftir áður en málið kemur til umræðu í þinginu.

Í gær var útbýtt til flokkanna undirskriftaskjali, er hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir alþingismenn bindumst samtökum um það, að Alþingi, er nú situr, tryggi með fjárframlagi úr ríkissjóði þær verðuppbætur á kjöt, gærur, ull og osta frá árinu 1943, sem selt er á erlendum markaði, að framleiðendur beri úr býtum það verð, sem nefnd sú hefur ákveðið, sem skipuð var samkv. lögum um dýrtíðarráðstafanir frá síðasta þingi.“

Slík undirskriftasmölun í byrj un þings um mál, sem ekki er farið að ræða á Alþingi, mun vera algert einsdæmi í þingsögunni og er sízt til þess fallin að vekja traust á þeim málstað, sem leitað er undirskrifta fyrir, eða létta úrlausn málsins á einn eða annan veg, og þinginu sjálfu til háðungar.

Vel má vera, að eigi verði komizt hjá að greiða bændum uppbót á markaðsvörur, sem fluttar eru út úr landinu. En hins vegar verður það mál að athugast mjög rækilega, áður en það er afgreitt. Uppbætur hafa verið greiddar úr ríkissjóði þannig, að ríkustu bændur í landinu hafa fengið stórfé, en fátækustu bændurnir mjög lítið.

Maður, sem ekki á nema 50 kindur og hefur stóra fjölskyldu fram að færa, hefur ekki fengið uppbót nema sem svarar fjáreign sinni. En nágranninn, sem hefur 500 fjár og ef til vill hefur fáa menn á framfæri og er vellauðugur maður, hefur fengið tíu sinnum hærri uppbætur. Stærsti hluti uppbótanna, eins og þær hafa verið greiddar, hefur þannig runnið til þeirra, sem sízt hafa þess þörf, en þeir, sem mesta þörfina höfðu, hafa fengið minnst. Eigi að halda þessum uppbótargreiðslum áfram, verður að breyta til um stefnu, þannig að ekki verði haldið áfram að greiða þeim ríkustu stórfé, en láta fátæka bændur sitja á hakanum. Flokkslega séð eru ríkustu bændurnir efalaust sterkustu stuðningsmenn ýmist Sjálfstfl. eða Framsfl. En hins vegar verður að gera þá kröfu til þessara flokka beggja, að þeir sýni fátækum bændum og meðalbændum nokkurt réttlæti og leggi í svipinn flokkshagsmuni á hilluna.

Þá verður einnig að gæta þess við greiðslu uppbóta, að hið háa verð, sem ákveðið hefur verið, leiði eigi til þess, að almennt verði lógað miklu fleira fé í haust heldur en ástæða er til og bændur verði ekki örvaðir til þess að skera niður bústofninn.

Það er eigi nema rétt og skylt, að hlaupið verði undir bagga með einstökum atvinnuvegi á hörðum tímum. Hins vegar verður harðlega að átelja þá óþinglegu meðferð, sem einstakir þingmenn hafa gert tilraun til, að höfð verði á þessu máli. Og Alþingi verður vel að gæta þess, að það sýni þegnum sínum ekki misrétti í þessu eða öðru.

Þeir, sem telja sig fulltrúa bænda hér á Alþingi, verða að vita það, að ef það er ætlun Alþingis að tryggja einni stétt manna í landinu, sem þó eru ekki embættismenn ríkisins, lágmarkstekjur, þá hlýtur að koma krafa frá öðrum stéttum um. að fá sams konar tekjutryggingar hjá Alþingi. Margt bendir til, að atvinnuleysi geti orðið hér á landi á næsta ári. Þá er það vitað, að sjórinn vill oft bregðast. Fái bændur tekjur sínar tryggðar, hlýtur jafnframt að verða borin fram krafa frá sjómönnum, verkamönnum og öðrum láglaunastéttum, að þær fái einnig sínar tekjur tryggðar. Og þær ráðstafanir verða þá að gerast samtímis og uppbætur eru greiddar til bænda.

Ef ríkið er búið að taka að sér að tryggja einni stétt manna í landinu tekjur, getur Alþingi á engan hátt neitað öðrum stéttum um það sama. Það væri þess vegna hróplegt ranglæti, ef Alþingi afgr. svona mál með undirskriftum á bak við tjöldin, áður en kostur hefur gefizt á að ræða það á þingfundum og athuga það í nefndum og láti trygginguna eingöngu ná til einnar stéttar.

Margir telja það Alþingi til vansa, að það hefur sjálft eigi getað myndað þingræðisstjórn. En eigi mundi hitt síður til vansa, ef stærstu málin væru afgr. með undirskriftasmölun milli þingmanna og ákveðin útborgun úr ríkissjóði svo mörgum milljónum næmi, eins og hér er verið að fara fram á, hversu góður sem tilgangurinn annars væri.

Fyrir Alþ. liggja ýmis vandamál önnur en dýrtíðarmálin. Má þar tilnefna launalögin. Það er kunnugt, að ríkisstj. hefur skipað nefnd til að endurskoða þau. Þessi nefnd mun skila áliti, meðan þing situr. Mikils ósamræmis gætir nú í launum ýmissa starfsmanna ríkisins og einnig samanborið við ýmsar stéttir þjóðfélagsins. Þetta misræmi verður Alþingi að leiðrétta, og væri óskandi, að það yrði gert á þessu Alþingi, sem nú situr. Starfsmenn ríkisins hafa að ýmsu leyti borið skarðan hlut frá borði. Það verður að krefjast af þeim, að þeir leysi störf sín vel af hendi. En hins vegar hafa þeir einnig rétt á að krefjast þess af ríkinu, að ríkissjóður launi þeim sómasamlega.

Þriðja stórmálið, sem væntanlega verður lagt fyrir Alþingi til úrlausnar, eru breytingar á alþýðutryggingalögunum. Alþýðutryggingalögin, sem Alþýðuflokkurinn á sínum tíma kom fram á Alþingi, mættu í fyrstu talsverðri mótspyrnu og voru af mörgum misskilin, og það svo mjög, að talið var, að Alþfl. hafi við kosningarnar 1937 tapað nokkru fylgi vegna þessarar löggjafar. Reynslan hefur hins vegar fært mönnum heim sanninn um það, að þessi löggjöf er þörf og góð, alþýðunni í landinu til mikilla hagsbóta og nauðsynleg þjóðfélagsleg varúðarráðstöfun. Því lengur sem tryggingarnar hafa staðið, því meiri vinsældum eiga þær að fagna. Og nú er svo komið, að almenn krafa er uppi um stórfelldar endurbætur og viðauka við alþýðutryggingalöggjöfina. Lífeyrissjóðurinn er enn eigi tekinn til starfa, en í stað þess eru greidd nokkur ellilaun og örorkubætur eftir sérstökum ákvæðum. Af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þeirri löggjöf, sem nú gildir um tryggingar, hafa komið upp öflugar raddir um, að nú skuli nota tækifærið, sem ríkissjóður hefur á því að bæta úr um tryggingar og leggja fram verulegt fé til þeirra, þannig að þeim verði komið í enn betra horf en nú er.

Í fjórða lagi verður að gera ráð fyrir því, að frá milliþn. í sjávarútvegsmálum komi eitthvað viðvíkjandi sjávarútveginum. Nefnd þessi hefur nú starfað um hríð, og enn er of snemmt að segja nokkuð um, að hvaða niðurstöðu hún kemst. En þó vil ég geta þess, að n. mun á einu máli um, að nauðsyn sé að bæta mjög úr um félagslega uppbyggingu sjávarútvegsins og koma málum hans þannig fyrir, að hann fái sjálfur sem allra mest af hagnaði þeim, sem verzlun með þarfir hans gefur. Enn er of snemmt að segja með vissu, á hvern hátt þessar till. verða frá nefndinni. En sem dæmi um, hve aðkallandi þetta er orðið, vil ég nefna, að olíuverð olíufélaganna hefur verið undanfarið frá geymi úti á landi 51 eyrir kílóið, en síldarverksmiðjur ríkisins keyptu á s.l. sumri olíu fyrir tilstilli atvmrh. frá sama stað og með sama verði og olíufélögin og seldu hana á 38 aura kílóið. Þegar kreppan kemur yfir sjávarútveginn, hlýtur ein helzta varnarráðstöfun sjávarútvegsins að verða sú, að útgerðin njóti sjálf sem allra mest af verzlunarhagnaðinum, og er það eitt af mestu vandamálum Alþingis að koma þessum málum þannig fyrir, að svo gæti orðið.

Eins og nú standa sakir, eru félagsmál útvegsins að öðru leyti þannig, að smáútgerðin velur engan aðila til þess að gefa upplýsingar og halda fram rétti sínum við heildarsamninga þá, sem gerðir hafa verið um sölu á afurðum til útlanda.

Fimmta og ekki minnsta málið, sem Alþingi fær til úrlausnar, er stjórnarskrármálið. Öllum flokkum ber saman um það, að vér Íslendingar eigum að skilja við Dani og stofna lýðveldi hér á Íslandi. Um þetta er ekki nokkur minnsti ágreiningur. Hins vegar hefur menn greint nokkuð á um það, á hvaða tíma þetta skyldi gert. Og þó að undarlegt sé, þá hefur því verið haldið fram, að eitthvert mest aðkallandi sjálfstæðismál okkar nú á tímum sé það að losna undan kúgun Dana. Danir eru, eins og allir vita, hertekin þjóð og píndir undir kúgunarhæli nazismans. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá fulltrúa ríkisstj. Íslands í Kaupmannahöfn um það, að Danir muni að stríðinu loknu fallast á skilnað. Enn fremur hafa bæði Bretar og Bandaríkjamenn lofað að viðurkenna sjálfstæði okkar og heitið að beita sér fyrir því við friðarsamningana, að aðrir geri hið sama. Við höfum því meiri tryggingu fyrir því nú en nokkru sinni fyrr að fá sjálfstæðismál okkar farsællega til lykta leidd í ófriðarlokin.

Þrátt fyrir þetta hafa forustumenn stjórnmálaflokka hér á landi, og þá einkum tveggja, Sjálfstfl. og Kommfl., sem kallar sig sósíalistaflokk, reynt að þyrla upp um þetta mál miklu moldviðri og krefjast þess, að við skiljum nú þegar við Dani, án þess að tala við þá. Þetta mál mun verða afgr. ásamt með stjórnarskrárbreyt., og er, eins og ég áðan sagði, enginn ágreiningur um, hvernig það skuli afgreitt, heldur eingöngu um það, hvort nú eigi að nota tækifærið, meðan Danir eru sem verst haldnir, eða hvort málinu sé slegið á frest þangað til unnt er að fá viðtal við þá aftur sem frjálsa menn.

Miklar umræður hafa orðið um þennan þátt stjórnarskrármálsins. En hins vegar hefur varla verið minnzt á annan þátt þessa máls, sem er í rauninni miklu óráðnari og mikilsverðari en skilnaðurinn við Dani, sem þegar er tryggður. Sá þáttur er um það, hvers konar mannréttindi skuli verða ákveðin í hinni nýju stjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis. Nýi tíminn, nýi heimurinn, sem við vonum, að verði byggður upp að stríðinu loknu, krefst aukinna mannréttinda. Og í rauninni hefði verið eðlilegast, að höfuðumræður um stjórnarskrármálið hefðu orðið um þann þátt, af því að hinn þátturinn er í rauninni útkljáður. Því að vissulega mun hann heldur geta valdið ágreiningi en hinn, sem allir eru sammála um.

Þau nýju mannréttindi, sem Alþfl. fyrir sitt leyti mun krefjast, að verði ákveðin í hinni nýju stjórnarskrá, munu meðal annars verða þau, að hver vinnufær maður fái raunverulegan rétt til vinnu og að hver vinnufær maður skuli vera skyldur til þess að vinna fyrir sér. Að í stjórnarskránni verði tryggð lífsafkoma hinna vinnandi stétta og rétturinn til hennar. Jafnframt verði búið þannig um hnútana hvað viðvíkur lýðfrelsi og lýðræði, að það verði í stjórnarskránni sjálfri tryggt enn þá betur en nú er.

Öll þessi mál eru mjög örðug viðfangs og mikilsvert, að lausn þeirra takist sæmilega hjá Alþingi. En þó að svo verði, er eftir að sjá um framkvæmd þeirra. Það er mjög hæpið, að framkvæmd mála, einkum stórra nýmæla, geti farið vel úr hendi, nema Alþingi myndi ríkisstjórn, sem er samhent meiri hluta Alþingis. Á þessu er, því miður, enginn kostur. Og þeir, sem hæst láta nú um nauðsyn þess, að við skiljum tafarlaust við Dani, eiga meðal annars sök á því.

Þeir bera ábyrgð á núverandi stjórnarástandi, og má þar til sanninda nefna, að í átta manna nefndinni, sem starfaði á s.l. hausti, bar Einar Olgeirsson, fulltrúi Kommfl., fram tillögu 3. des. 1942 um það, að ríkisstjóri skipaði ríkisstjórn á þann hátt, sem hann síðar gerði. Hæstv. ríkisstjórn er þannig beinlínis skipuð eftir tilmælum kommúnista, þó að þeir láti ekki alltaf vel við henni. Með þessari tillögu hefur Kommfl., þvert ofan í vilja mikils þorra kjósenda sinna, komið í veg fyrir, að hér á landi geti myndazt vinstri samvinna og þá einkum um úrlausn þeirra mála, sem ég hef hér rakið, ekki hvað sízt stjórnarskrármálsins. Segja má, að að ýmsu leyti hafi staðið á Framsfl. En þó tel ég, að þegar tilraunir til vinstri stjórnar fóru út um þúfur í vetur sem leið, hafi verið sleppt tækifæri, sem þá var fyrir hendi til þess að fá hin frjálslyndari öfl Framsfl. inn á skynsamlega leið um úrlausn ýmissa þeirra vandamála, sem alþýðunni á Íslandi er algerlega nauðsynlegt, að leyst verði nú á næstunni.

Hver sá, sem unnið hefur félagslegt og efnalegt frelsi, mun berjast fyrir upp á líf og dauða að halda því. Sá þáttur hinnar nýju stjórnarskrár er því stærsta sjálfstæðismál okkar, en um þetta fæst því miður engin vinstristjórnarsamvinna.

Er eigi annað fyrir en að alþingismenn geri sitt bezta til að leysa þessi mál, sem ég hef nefnt hér, eftir því, sem ástæður leyfa. Hins vegar hlýtur bæði úrlausn þeirra og þó einkum framkvæmd að verða mjög örðug, vegna þess að ekki ríkir nein meirihlutastefna hér á Alþingi, og ríkisstjórn sú, sem nú fer með völdin, er í rauninni ekki annað en skoðanalaus embættismannastjórn, sem einungis framkvæmir það allra nauðsynlegasta, sem komizt verður af með, og hefur tæplega nokkurn þann skilning á hinum nýja tíma, sem krafizt verður að ófriðnum loknum, enda ekki til þess ætlazt.

Stærsta verkefni okkar auk þeirra mála, er ég hef nefnt, og stærsta sjálfstæðismál okkar er að undirbúa okkur undir hinn nýja tíma. Slíkur undirbúningur verður að vera verk alþýðunnar.

Vonir alþýðunnar á Íslandi um heppilega úrlausn mála og örugga framkvæmd þeirra hljóta að byggjast á því, ef unnt væri að efla aftur vinnu milli fulltrúa bænda og verkamanna, þannig að unnt væri að mynda stjórn lýðræðissinnaðra umbótaflokka, en til þess að svo verði, þurfa fulltrúar þessara stétta, hver um sig, að sýna fyllsta réttlæti og sanngirni í garð hinna, en varast að láta kné fylgja kviði, eftir því hver er sterkari á Alþingi í það og það skiptið.