20.04.1943
Sameinað þing: 4. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

1. mál, fjárlög 1944

Finnur Jónsson:

Í aths. við fjárlfrv. það, er hér liggur fyrir til 1. umr., segir, að það sé að öllu verulegu leyti miðað við fjárl. fyrir árið 1943. Þetta er ekki rétt. Í þessu fjárlfrv. er áætlunin um tekjur af tollum og sköttum lækkuð um 10,5 millj. kr., úr 57615000 kr. í 47115000 kr. Til þess að mæta þessari lækkun á tekjuáætluninni hafa framlög til verklegra framkvæmda verið skorin niður frá því, sem þau eru áætluð á núgildandi fjárl., um a. m. k. 7–8 millj. kr. Fjárlfrv. þetta er því ekki í aðalatriðum miðað við fjárl. fyrir árið 1943, heldur mjög í samræmi við frv. það, er fyrrverandi ríkisstj. lagði fyrir aukaþingið, með þeim breytingum, sem fjvn. gerði á því til leiðréttingar, og í því er fylgt þeirri stefnu fyrrverandi stj. að áætla sem allra minnst fé til verklegra framkvæmda. Þetta hefur núverandi hæstv. fjmrh. gert, enda þótt tekjur ríkisins á árinu 1942 yrðu samtals 86,6 millj. kr. eða nokkru hærri en ætlað var, þegar fjárl. fyrir árið 1943. voru afgreidd. Má þetta furðu gegna, en það má virða hæstv. fjmrh. til vorkunnar, að hann hefur haft mjög nauman tíma til þess að semja þetta fjárl.frv., enda er árangurinn eftir því. Þarna vantar ýmsar lögboðnar greiðslur, en öðrum er ofaukið. Vonandi áttar hæstv. ríkisstj. sig á því, áður en hún leggur fram hið nýja frv. á væntanlegu haustþingi, að þessi stefna hennar, að niður séu skorin framlög til verklegra framkvæmda, svo sem gert hefur verið í þessu frv., samræmist ekki vilja meiri hluta Alþ., og breytir frv. væntanlega af sjálfsdáðum þannig, að það verði meira í samræmi við fjárl. þau, er Alþ. afgreiddi fyrir árið 1943, heldur en þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Að þessu athuguðu gefur fjárlfrv. það, sem hér er til umræðu, ekki öllu meira tilefni til athugana. Það er frumsmíð, sem á vonandi eftir að taka miklum umbótum, þó að segja megi, að starf hæstv. ríkisstj. þann tíma, sem hún hefur setið að völdum, gefi einungis vonir um þetta, en alls ekki vissu.

Núverandi ríkisstj. var sett á laggirnar út úr vandræðum, vegna þess að eigi tókst að mynda meiri hluta þingræðisstjórn. Hún átti að vera eins konar sáttasemjari, og til þess að eiga skilið að öðlast það nafn þurfti hún að gera sér ljóst, hver væri vilji meiri hluta þ. í hverju máli. Gæti hún ekki fundið þetta, var líklegt, að tillögur þær, er hún legði fram til úrlausna, næðu ekki fram að ganga.

Forseti Alþýðuflokksins benti á það, eftir að ríkisstj. tók við völdum, að hana skorti nokkuð á um leikni hins æfða stjórnmálamanns, og því miður virðist þessi leikni lítið hafa farið vaxandi, þó að hæstv. ríkisstj. hafi fengið samfleytt fjóra mánuði til æfinga. Verkefni þau, sem hún fékk til úrlausnar, virðast litlu nær því að leysast heldur en þegar hún tók við völdum. Má þar fyrst nefna dýrtíðarmálið.

Ríkisstj. lagði, svo sem kunnugt er, frv. til laga um dýrtíðarráðstafanir fyrir Alþ. Var það í þrem köflum. Í fyrsta kaflanum voru sameiginleg ákvæði um álagningu skatts til ríkissj. á árinu 1943. Var þar gert ráð fyrir; að fellt yrði niður skattfrelsi félaga, annarra en þeirra, er sjávarútveg reka, og að þessi breyt. gæfi ríkissj. 11/3 millj. kr. í tekjur.

Næsti kafli þessa frv. var um svo nefndan viðreisnarskatt og skyldusparnað, og var talið, að hann gæfi ríkissj. 9 millj. kr. tekjur. Nokkurn hluta af þessum viðreisnarskatti átti þó að endurgreiða sem skyldusparnað.

Þá var þriðji kaflinn, um eignaaukaskatt. Þjóðarauðurinn hefur vaxið um a. m. k. 3–400 millj. kr., og allmikill hluti þessarar eignaaukningar hefur lent svo að millj. skiptir hjá einstökum mönnum og er orðinn til vegna þess, að íslenzka krónan hefur verið skráð of lágu gengi. Alþfl. hefur bent á það hvað eftir annað, að það virðist nokkuð einfalt mál að taka nokkuð verulegan hluta af þessum gróða til gengisbreyt. eða til þjóðfélagslegra þarfa vegna dýrtíðarinnar. Með frv. sínu um dýrtíðarráðstafanir virtist hæstv. ríkisstj. fallast á þessa hugsun, en í stað þess að gera ráð fyrir verulegum eignaaukaskatti, gerði frv. hæstv. stj. ráð fyrir, að þessi eignaaukaskattur næmi aðeins 3,3 millj. kr. og yrði þeirri upphæð eigi varið til dýrtíðarráðstafana, heldur til þess að byggja hús yfir Stjórnarráðið, hæstarétt og viðbótarbyggingu við Klepp. Kleppur var að vísu eigi nefndur í frv., heldur mun hafa verið innifalinn í þeirri tegund húsbygginga, sem hæstv. ríkisstj. nefndi „helztu stofnanir ríkisins“. Með því að hafa eignaaukaskattinn eigi víðtækari og verja honum á þennan hátt var eigi annað sýnilegt en ríkisstj. væri nánast að gera gys að hugmyndinni um eignaaukaskatt.

Fjórði kafli frv. ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir var um greiðslu verðlagsuppbótar á laun samkv. vísitölu. Í þeim kafla var ákveðið, að eigi mætti greiða verðlagsuppbót, sem næmi meira en 80% af dýrtíð samkv. framfærsluvísitölu á laun og kaup í hvaða starfi sem væri, og eigi af hærri launum en sem segir um opinbera starfsmenn.

Þarna var á ferðinni ný árás á launastéttirnar, ný tilraun til að kippa grundvellinum undan öllum launasamningum, sem kom mönnum mjög á óvart eftir ræðu hæstv. forsrh. þá, en þá mælti hann á þessa leið:

„En í byrjun yfirstandandi árs (þ. e. ársins 1942) hagaði svo til um kaupgjalds- og verðlagsmál, að ríkisstj. taldi nauðsyn að taka á ný í taumana í því skyni að halda hinni vaxandi verðbólgu í skefjum. Var þá gripið til ráðstafana án þess að hafa verkamannastéttina með í ráðum, ráðstafana, sem leiddu til ófarnaðar“.

Þrátt fyrir það að hæstv. forsrh. hefur þannig, skömmu áður en hann tók við ríkisstj., lýst yfir, að hann teldi eigi hyggilegt að ráðast á launastéttirnar með því að skera laun þeirra eða dýrtíðaruppbót niður, þá lét hann stj. sína bera fram frv., er fór í sömu átt og hin illræmdu gerðardómsl., sem borin voru fram af fullu óréttlæti og mestum glundroða hafa valdið í landinu. Alþfl. tók þegar í stað skarpa afstöðu gegn þessu nýja óréttlæti eins og hinu fyrra, og fór formaður flokksins, Stefán Jóhann Stefánsson, þeim orðum um þetta ákvæði dýrtíðarfrv. ríkisstj. við fyrstu umr. málsins, að það væri „reginvitleysa, rangsleitni og ósanngirni“.

Fjórði kafli frv. ríkisstj. um dýrtíðarráðstafanir var um verð á landbúnaðarafurðum. Skyldi það lækka um 10 af hundraði frá því, sem það var 31. des. 1942, en síðan skipuð 5 manna nefnd, sem semdi verðlagsskrá um framfærsluvísitölu og framleiðslukostnað landbúnaðarins, en verð á landbúnaðarafurðum færast niður, mjólk í 1,30 kr. og kjöt í 4,50 kr. kg. í smásölu, en ríkisstjórnin greiða uppbót á þessar vörur um stund.

Við 1. umr. um frv. þetta kom þegar í ljós, að allir flokkar voru óánægðir með það. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja sögu þess eða afdrif hér á Alþingi, en árangurinn varð sá, að eftir miklar bollaleggingar afgreiddi Alþ. l. um dýrtíðarráðstafanir, og var af hinu upphaflega stjfrv. þá ekkert eftir annað en fyrirsögnin og síðasta greinin, sem hljóðar svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi“.

Eins og Alþ. gekk frá dýrtíðarl., eru þau í rauninni ekki annað en heimild fyrir ríkisstj. til þess að gera tilraun til að finna hlutfall milli verðlags á landbúnaðarafurðum og kaupgjalds og heimild til þess að lækka dýrtíðina um stund með framlagi úr ríkissj., sennilega niður í 230 stig, en frv. ríkisstj. gerði ráð fyrir, að unnt yrði að lækka dýrtíðina niður í 226 stig. Alþ. tók út úr frv. ríkisstj. kaupkúgunarákvæðin, breytti skattaákvæðunum þannig, að lágar tekjur og miðlungstekjur eru undanþegnar hinum nýja skatti, og setti inn í frv. ákvæði um, að greiða skuli 3 millj. kr. af nýja skattinum til eflingar alþýðutryggingunum. Allt var þetta til mikilla bóta frá frv. ríkisstj., en um úrlausn sjálfra dýrtíðarmálanna fer eftir því, hve ríkisstj. verður fundvís á líklegar leiðir til sátta í þessu deilumáli eftir 15. sept. n. k. Undir meðferð málsins lagði hæstv. ríkisstj. sjálf fram brtt. við frv. sitt, sem færði það mjög til lagfæringar á ýmsan hátt, en hélt þó enn ákvæðinu um, að eigi skyldi greiða fulla verðlagsuppbót. Alþfl. lýsti yfir því, að hann mundi geta fylgt þessu frv., þó aðeins með því skilyrði, að á því fengjust verulegar breyt., og þá fyrst og fremst sú, að verðlagsuppbót skyldi greiðast skilyrðislaust samkvæmt verðlagsvísitölu. Fengist ekki þessi breyt., lýsti Alþfl. sig algerlega mótfallinn frv.

Ég sé sérstaka ástæðu til þess að taka þetta fram, vegna þess að í blaði Sósfl. 17. þ. m. er svo að orði komizt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef Alþflklíkan fengi að ráða, þá hefði verið með hennar aðstoð samþykkt lögfesting á kaupgjaldi og Alþfl. fengið eitt áfallið enn“.

Þessi ummæli eru, eins og allur þingheimur veit, tilhæfulaus uppspuni frá rótum og sett fram í þeim tilgangi einum að skaða Alþfl. í augum hinna allra fáfróðustu manna, sem vita ekkert, hvað hefur gerzt, eða þá hinna trúuðu manna, sem halda, að allt, sem Moskvaklíkan innan Sósfl. segir í blöðum sínum til að ófrægja aðra, sé heilagur sannleikur, jafnvel hin ósvífnustu ósannindi. Afstaða Alþfl. gagnvart dýrtíðarfrv. hæstv. ríkisstj. var, eins og ég hef þegar sagt, skýr frá upphafi, og veit ég, að enginn hefur komizt harðara að orði á Alþ. eða mótmælt kaupskerðingarákvæðunum með sterkari rökum en formaður Alþfl. gerði fyrir hönd flokksins þegar við 1. umr. frv. og einnig síðar hér á Alþ.

Þessi óheyrilega bardagaaðferð forsprakka Sósfl., að fara með vísvitandi ósannindi um afstöðu Alþfl. í þessu máli, sem bæði Alþfl. og Sósfl. voru sammála um, er til þess eins fallin að veikja aðstöðu verkalýðsins á Alþ. og ætti að vera nokkuð upplýsandi. Til slíkra vopna grípa þeir einir, sem telja sig vera í þrotum með skynsamleg rök.

Auk þessa óréttlætis, sem ég hef nefnt hér og hæstv. ríkisstj. gerði sig bera að með dýrtíðarfrv. sínu, varð henni á að blanda saman ákvæðunum um verðlag á landbúnaðarafurðum og skattamálum. Það er ekki hægt að draga dul á það, að það mál, sem einna mestum erfiðleikum veldur milli Alþfl. og Framsfl., er ákvörðun verðlags á landbúnaðarafurðum. Hins vegar eru hinir þrír svo nefndu vinstri flokkar sammála um ýmislegt, sem við kemur skattamálum. Líkurnar fyrir því, að hægt væri að leysa dýrtíðarmálin, voru þess vegna mestar, ef þessi mál hefðu verið aðskilin og hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags á landbúnaðarafurðum hefði verið tekið fyrir í sérstöku frv., en skattamálin í öðru frv. eða frumvörpum. En eins og áður er sagt, skorti hæstv. ríkisstj. því miður leikni hins æfða stjórnmálamanns og blandaði þessum tveimur málum saman, og þess vegna hefur ekki enn fengizt á þeim æskileg lausn.

Annað stórmál, sem hæstv. ríkisstj. hefur með höndum, er verðlagsmálin. Það eru nú liðnir fjórir mánuðir, síðan ríkisstj. fékk hjá Alþ. mjög víðtækt vald til þess að ráða álagningu á innfluttar vörur og innlendar iðnaðarvörur, svo og vald til þess að ráða verðlagi, smíði, saumaskap og ýmsu öðru. Vald þetta, er Alþ. veitti, er svo víðtækt, að segja má, að ríkisstj. gæti gert að heita má hvað, sem hún vill í þessum málum. Þó er alkunna, að verðlagseftirlitið hefur verið ákaflega slælegt og álagning leyfð á ýmsar vörur og ýmis verk fram úr öllu hófi. Eitt helzta ráðið til þess að lækka dýrtíðina í landinu væri að skipa þessu í rétt horf og leita til þess samvinnu Alþýðusambandsins og verklýðsfélaganna, eins og Alþfl. hefur margsinnis bent á. Álagningin á innfluttar vörur er svo mikil, að varlega reiknað mun meðalálagning á vörur eigi vera undir 60–70%. Ef fluttar eru inn í landið vörur fyrir 150 millj. kr., þá greiða landsmenn í verzlunarkostnað a. m. k. 90–100 millj. kr. Þessi verzlunarkostnaður er að talsverðu leyti óþarfur og hlýtur að vera stór liður í hinni miklu dýrtíð í landinu.

Þrátt fyrir hið víðtæka vald, sem Alþ. hefur fengið ríkisstj., er verðlagseftirlitið í höndum núv. hæstv. ríkisstj., eins og það var í höndum fyrrv. stjórnar, ekkert annað en nafnið tómt. Það er eigi enn komið til framkvæmda, þrátt fyrir það að stj. er búin að sitja í fjóra mánuði, og vonandi á eftir að koma í ljós, að hæstv. ríkisstj. hafi vilja og þrek til þess að lækka þennan þátt dýrtíðarinnar verulega, þó að ýmsir hafi litla trú á, að höfuðsmaður heildsalastéttarinnar sé líklegur til framkvæmda í því efni.

Í þessum tveimur stærstu málum, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði sérstaklega að leysa, hefur henni enn orðið lítið ágengt. En vonandi notar hæstv. ríkisstj. þann starfsfrið, er hún væntanlega fær, þangað til að þ. kemur aftur saman, til þess að vinna að þessum málum eftir því, sem heimildir ýtrast leyfa. Hins vegar hafa samningagerðir hæstv. ríkisstj. í sambandi við afurðasölumálin o. fl. gagnvart erlendum ríkjum tekizt þannig, að viðunandi má teljast, að undanskildum hinum svo nefnda útvarpssamningi, sem engum getur talizt heiður að.

Hæstv. ríkisstj. hefur tekizt mikinn vanda á hendur, og til þess að leysa þann vanda væri æskilegt, að hún umgengist Alþ. með nokkuð öðrum hætti en hún hefur gert hingað til. Ég hef síður en svo hugsað mér að gera neina árás á ríkisstj., en það verður eigi komizt hjá að benda henni á það, að henni er nauðsynlegt til þess að ná árangri að kynna sér þingviljann betur en hún hefur gert, áður en hún leggur till. sínar fram í frv.-formi. Þótt Alþ. hafi eigi komið sér saman um myndun þingræðisstj., er enginn vafi, að unnt er að fá innan þ. sæmilega úrlausn ýmissa vandamála, ef rétt er að farið. Hæstv. ríkisstj. er eins konar sáttasemjari, og sem æfðum sáttasemjara hlýtur hæstv. forsrh. að vera ljóst, að til þess að fá sæmilegan árangur verður hann að kynna sér rækilega málin, áður en hann leggur till. sínar fram.

Vandkvæði Alþ. á því að mynda þingræðisstj. hafa orðið þess valdandi, að ýmsir eru farnir að tala um alþm. annað hvort sem ónytjunga eða jafnvel glæpamenn, sem sitji og séu að leika sér að örlögum þjóðarinnar í fullkomnu ábyrgðarleysi. Þessum mönnum má benda á, að þótt eigi hafi fengizt lausn á dýrtíðarmálunum, sem menn séu ánægðir með, þá hefur síðasta Alþ. þó afgreitt ýmis mál, sem almenning varða miklu, svo sem lög um orlof, sem Alþfl. hefur komið fram, umbætur á alþýðutryggingum, umbætur á fiskveiðasjóðslögunum og ýmislegt fleira. Þá má og nefna, að fjárl. voru afgr. í því formi, að verulegt fé var ætlað til ýmissa verklegra framkvæmda, ef atvinnuleysi yrði í landinu. Þar var gert ráð fyrir talsverðum framlögum til þess að koma ýmsum stöðum og landshlutum bráðlega í hið almenna vegasamband, svo sem Siglufirði, nokkrum stöðum á Austurlandi og síðast, en ekki sízt, Vestfjörðum. Enn fremur var hrint nýrri árás á launastéttirnar og fengnar 3 millj. kr. utan fjárlaga til alþýðutrygginganna. En þótt þetta hafi áunnizt, skortir á, að störf þ. markist svo sem nauðsynlegt er af sérstakri þjóðmálastefnu, og það verður ekki fyrr en fengizt hefur þingmeirihluti, sem verður ásáttur um, í hvaða átt skuli halda, og myndar ríkisstj. til þess að framkvæma þá stefnu.

Ýmsir hafa gert sér miklar vonir um, að þrír flokkar, Alþfl., Framsóknarfl. og Sósfl., myndi vinstri stj. og stjórni landinu þá sérstaklega með það fyrir augum að bæta kjör almennings til sjávar og sveita og búa þjóðfélag okkar undir, að það geti orðið þátttakandi í þeim þjóðfélagsumbótum, sem væntanlega verða gerðar í öllum löndum að ófriðnum loknum. Þessi von hefur brugðizt, og mun hver kenna öðrum um. Samvinna hefur tekizt á Alþ. um ýmis mál milli hinna einstöku flokka. Alþfl. og Sósfl. eru oft sammála, en þeir eru líka oft ósammála og samlyndið mjög fjarri því að vera gott.

Ég nefndi áðan eitt dæmi þess, hvernig bardagaaðferð Sósfl. telur sér sæma gagnvart Alþfl. í máli, sem allar launastéttirnar varðar miklu og flokkarnir eru sammála um, þegar blað hans reynir að telja lesendum sínum trú um, að Alþfl. hefði lýst yfir fylgi við að lækka dýrtíðaruppbótina, þrátt fyrir það að Alþfl. berðist gegn því harðast allra flokka á Alþ. Þessa tvo flokka greinir mjög á um bardagaaðferðir. Framsfl. og Alþfl. greinir líka á um stefnu og málefni. Sérstaklega hefur hlutfallið milli verðlags á landbúnaðarafurðum og kaupgjalds verið eins og fleinn í holdi í sambúð þessara flokka nú á seinni tímum. Margir Alþflmenn sjá lítinn mun á Sjálfstfl. og Framsfl. og vitna þar með réttu sérstaklega til gerðardómslaganna. Þó er vitað, að ef hægt væri að jafna þetta ágreiningsefni, ættu að vera meiri líkur til þess, að samvinna næðist milli Alþfl. og Sósfl. við Framsfl. en við Sjálfstfl. um ýmis mikilsvarðandi mál, svo sem verzlunarmál, tryggingamál og skattamál, en á meðan eigi tekst samvinna um stjórnarmyndun, getur eigi verið um neina heildarstefnu að ræða í þá átt, sem vinstri kjósendur mundu óska.

Á meðan ríkir stefnuleysi í störfum Alþ. Verzlunin verður eigi tekin þeim tökum, sem nauðsynlegt er, verðlagseftirlitið verður sama kákið og áður, og stríðsgróðinn verður eigi tekinn til þess að tryggja grundvöll réttlátara þjóðfélags að stríðinu loknu. Tækifærið, sem atvikin höfðu lagt upp í hendur vinstri flokkanna, glatast og Sjálfstfl. bíður þess rólegur, að hann fái á ný möguleika til þess að mynda afturhaldsstj. með Framsfl.

Þessi hætta vofir yfir.

Tilraun til stjórnarmyndunar hefur vissulega engan árangur borið, og er ekki sýnilegt annað en vilja vanti til þess, einkum hjá Sósfl. Trúin á vinstri stj. hefur farið minnkandi, m. a. vegna þess, að svo lítur út sem Sósfl. sé ákveðinn í að hliðra sér hjá allri ábyrgð við að taka þátt í stjórnarstörfum. Þetta kom fram þegar á aukaþ. í haust. Alþfl. gerði þá tvær tilraunir til þess að koma á þingræðisstjórn, og sérstaklega lagði Haraldur Guðmundsson áherzlu á það, þegar allt virtist strandað, að fá Sósfl. og Framsfl. í stjórn með Alþfl. og ákveðið væri að semja um ágreiningsmálin innan tiltekins tíma, en það strandaði á Sósfl. Efalaust hefðu orðið miklir erfiðleikar á því að fá samninga um öll mál, en þó er enginn vafi, að slík samstj. hefði getað þokað málum verkalýðsstéttarinnar lengra í áttina til réttlátara þjóðfélags en hægt er að gera með þeim hrærigraut, sem nú ríkir á Alþ., en það er eins og Sósfl. hafi af ráðnum hug skotið sér undan allri ábyrgð. Þetta hefur komið mjög greinilega í ljós í blaði flokksins, Þjóðviljanum, 3. apríl. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þrugl Alþýðublaðsins og Tímans um, að vinstri stj. mundi leysa öll vandamál líðandi stundar, er naumast svaravert. Víst er um það, að engin stj. er þess umkomin að stýra fram hjá öllum vanda. Hvaða stjórn, sem væri, mundi verða að horfast í augu við mjög mikil vandamál, og lausnin mundi, eins og gengur, orka tvímælis og valda deilum“.

Ég hef ekki tíma til að fara nánar út í þetta mál, en þessi ummæli sýna betur en margt annað þá hugsun, sem ræður aðgerðum forkólfa Sósfl. Allur fjöldi kjósenda þeirra þráir vinstri stj. En sjálfir telja forkólfarnir, að vinstri stj. mundi ekki leysa „öll vandamál líðandi stundar“. Þeir óttast það að þurfa að „horfast í augu við mjög mikil vandamál“, og þeir óttast, að lausn þeirra mundi „orka tvímælis og valda deilum“. Þessi ummæli þurfa ekki frekari skýringar við. Þau eru yfirlýsing um, að Sósfl. vilji ekki taka á sig ábyrgð á því að taka þátt í stj., vegna þess að hann kynni að missa við það eitthvert kjósendafylgi. Þau eru yfirlýsing um, að forkólfar Sósfl. vilji setja kjörfylgið ofar hagsmunum umbjóðenda flokksins og ofar hagsmunum þjóðarinnar.

Þannig rekur Sósfl. beinlínis erindi Sjálfstfl. og annarra íhaldsafla í landinu.

Alþýða manna á öllu landinu krefst þess að fá að ófriðnum loknum betra þjóðfélag og tryggingu gegn atvinnuleysi, veikindum og öðru slíku. Alþfl. lagði hér á landi með löggjöfinni um alþýðutryggingar grundvöll að þeirri tryggingarstarfsemi, sem nú er verið að tala um í öðrum löndum. Það verður auðveldara að byggja ofan á þann grundvöll að stríðinu loknu en ef hann hefði ekki verið til. Sams konar úrlausnir og tilraunir til úrlausna væri nú hægt að fá í ýmsum málum með stjórnarsamvinnu milli hinna þriggja vinstri flokka. Alþfl. telur það mikils virði, að svo yrði gert, en Sósfl. vill ekki taka á sig neinn vanda í þessu sámbandi af ótta við að missa kjósendafylgið, eins og segir í áðurnefndri grein í blaði flokksins, Þjóðviljanum. Þar skilur m. a. milli Alþfl. og Sósfl. Alþfl. telur það skyldu sína í hvert sinn, sem færi gefst, að leggja grundvöll að bættum kjörum alþýðunnar í landinu og að núverandi kynslóð geti skilað af sér betra landi til afkomenda sinna heldur en því, sem hún tók við. En Sósfl. virðist vilja bíða og sjá, hverju fram vindur, og sleppa þannig jafnvel góðum tækifærum úr hendi sér til þess að þurfa ekki að taka á sig ábyrgðina af því, sem gert er. Hvað svo seinna kemur, veit enginn. Það verður nokkur prófsteinn á þroska alþýðunnar á Íslandi í framtíðinni, hvort hún þolir forsprökkum Sósfl. þessa neikvæðu afstöðu til lengdar, hvort hún vill lýðræðisgrundvöll Alþfl. og þær umbætur, sem Alþfl. hefur veitt og mun veita alþýðunni í landinu með starfi sínu, eða hvort hún vill stefnu Sósfl., sem markast meira af þröngum flokkshagsmunum hinna þröngsýnustu forkólfa en því að fá á hverjum tíma allar þær umbætur á kjörum alþýðunnar, sem hægt er, eða af hagsmunum þjóðarheildarinnar.

Ég vil svo að lokum óska öllum landsmönnum gleðilegrar páskahátíðar og jafnframt láta þá von í ljós, að hver maður hugsi sem bezt um hag þjóðarinnar með ró og stillingu, en þó af fullri festu og alvöru. Oft hefur þess áður verið þörf, en nú er þess full nauðsyn. Það verður að nota tímann vel til þess að leggja grundvöll að réttlátara þjóðskipulagi. Um það ættu vinstri flokkarnir að sameinast. Enginn má draga sig í hlé, hver maður verður að gera skyldu sína.